Haustblogg á heiði

Þetta er auðvitað bara hlægilegt. Að rífa sig frá feisbúkk og skrifa blogg. Feisbúkk þar sem fjörið er og faðmurinn hlýr meðan einsemdin ræður hér ríkjum! Nei, bara grín... Nú er kominn fiðringur í fæturna. Er að leggja í hann norður á morgun og ætla í göngur. Ég er farinn að hlakka til og búinn að hlakka til lengi, en fæturnir eru ekki eins vissir, enda vita þeir betur en heilinn. Og hjartað er svona beggja blands, sveiflast milli vonar og ótta um hvort það lifi þetta af eða hreinlega springi. Því ég skal segja ykkur það börnin góð að fara í göngur í Silfrastaðaafrétt er ansi mikið puð. Að vísu miserfitt eftir plássum. Krókárdalur er eitt af þessum plássum sem geta drepið mann. Kannski ekki dalurinn sjálfur heldur óþekkar kindur sem vilja ekki heim. Og þetta er sennilega merki um að maður sé að byrja að ganga í barndóm... að rífa sig upp úr feisbúkkþægindunum og hverfa í fjöllin um stund og reyna að rifja upp gamlar götur, gamlan gangnasunnudag, þegar tunglið lýsti upp landið og inni í kofanum var kveikt á nokkrum kertum og fjallasöngurinn var svo fallegur að fæturnir gleymdu kvíðanum fyrir Krókárdalnum... Og ég skrapp í ríkið áðan og fékk mér einn viskífleyg svona til vonar og vara. En ég lofa að það verður bara notað sem meðal! Einn fyrir svefninn og einn með hafragrautnum. Ég finn strax að ég er allur að koma til. Að lokum vísa eftir Bjarna afa.

Gangnasunnudagur

 

Sveinar runnu sveitum frá,

er syngja kunnu braginn.

Gneistar brunnu götum á 

gangnasunnudaginn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Alltaf jafngaman að heyra frá þér hér - hvað sem fjöri og hlýjum faðmi líður. Ertu kannski farinn að skrifa prósana þína þar?

Gangi þér vel í göngum og komdu heill heim. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.9.2009 kl. 04:10

2 identicon

Bið að heilsa fólkinu mínu fyrir norðan - góða skemmtun!  Viltu knúsa Drífu sérstaklega frá mér fyrir móttökurnar í sumar?

Guðrún Harpa (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband