Sólarlag 2009

Það var núna einn daginn milli jóla og nýárs að síminn var þögull og sólarlagið óvenju fallegt. Gyllt rönd neðst í skýjabakkanum á suðvesturhimninum og rúmlega hálft tungl á leið yfir Landakot. Ég hugsaði: já takk, meira svona. Og svo hélt þetta áfram og í gær var fegurð himinsins og fjallanna í kring þannig að fátt var í stöðunni nema bíða eftir að það liði hjá! Já það er undarlegt hvað ég verð meyr þegar ég horfi á tunglið með vinstra auganu og sólarlagið með því hægra og árið að síga í hafið eða kannski sökkva ... Já og þá sprettur fram gömul bloggþörf sem hefur eiginlega legið í dvala þetta árið (svona eitt blogg á mánuði).

            Og hér sit ég á gamlársdagsbrúninni. Sigmaðurinn kemur upp með egg, en árið er bara farið og kemur ekki aftur. Árið er samt eins og sigmaðurinn í bjarginu; alltaf að færa manni eitthvað, okkur sem bíðum á brúninni og teygjum álkuna út fyrir og svarrandi brimið fyrir neðan.Og svo húmar að; við liggjum við bálið og spælum okkur egg eða fáum okkur baunir úr dós eins og Tom Waits syngur um.

             Já, það er hvítt yfir að líta, kuldinn bítur í kinnarnar og flugeldarnir koma í kvöld, já það er lagt hart að mér að fara út með nokkra flugelda og kannski eina tertu. Ég hef heyrt kenningu um að karlmenn gætu ekki verið inni á miðnætti, horft á sjónvarpið og séð árið hverfa því þeir myndu fríka út og fara að gráta og til að losna við þann bardaga er staðið úti í kulinu og kveikt í og kuldinn bítur í kinnarnar og kuldatárin renna og ég sýg upp í nefið og kveiki í stærstu bombunni þegar klukkan slær. Fer svo inn og kyssi alla kaldur og hrakinn og það er tekið á móti manni eins og hetju af heiði þótt maður hafi fýrað síðustu mjólkurpeningunum til himins.

            Já nú er kreppa eða svo er mér sagt og samt hagar maður sér nákvæmlega eins og áður, lætur eins og ekkert hafi ískorist. Borgar á báðar hendur uppsett verð fyrir jólin og hananú! Og nú er að koma nýtt ár og og kosturinn við það er sá að ég held að ég verði fljótur að muna að skrifa 2010, já það er eitthvað sem segir mér að ég muni komast fljótt upp á lag með það. Að öðru leyti er árið óskrifað blað eins og alltaf.

Fyrir ári fór ég niður á Hótel Borg og lenti í réttarslag sem slökkti á Kryddsíldinni eins og frægt varð og nú á að reyna aftur annars staðar. Já maður á nú ekki von á slag núna. Enda verð ég ekki með!

            En þetta er búið að vera merkilegt ár fyrir mig. Það er greinilegt að það borgar sig ekki að þykjast vera viss um að allt verði alltaf eins og lífið standi bara í stað. (Eins og hrunið kenndi okkur!) Ég sendi inn handrit að ljóðabók í ljóðasamkeppni, missti fasta vinnu, varð einu ári eldri (en gekk samt upp á Sólheimafjall), svo fékk ég verðlaun fyrir handritið og það kom út bók í haust og ég fílaði mig eins og Susan Boyle. Að vísu eru söngvarar og leikarar meiri seleb en ljóðskáld, en leikurinn er ekki til þess gerður heldur snýst þetta um drauma og þetta er búið að vera afskaplega skemmtilegt og gefandi haust.

            Draumar hafa ræst sem ég vissi ekki að mig væri að dreyma og svona er þetta og takk fyrir mig, takk fyrir allar hamingjuóskirnar sem ég fékk. Það sem gladdi mig mest var hvað allir sem ég þekki (og þekki ekki mikið) voru glaðir yfir þessu og ég er viss um að það er vegna þess að þótt klukkan segi korter í þrjú er enn von ... En eins og ég hef áður sagt skal ég samt reyna að halda mig við jörðina, halda mig við eldinn á bjargbrúninni. Fæ svo að prófa vaðinn og læt mig vaða niður í bjargið og kem vonandi upp með egg sem ég les við eldinn og svo er skriðið í pokana og Tom Waits vaggar manni í svefn og nýja árið er allt í einu komið.

            Á morgun er nýársdagur. Ég ætla að vakna snemma og hlusta á Dómkórinn og biskupinn í Dómkirkjunni og svo forstetann klukkan eitt og svo hringi ég í mömmu og við berum saman bækur okkar um ræður höfðingja og við viljum almennilegar ræður! Við mamma erum sammála um það að ræður mega vera langar ef það er eitthvað í þeim! Og nú vill maður ræður sem segja manni satt, segja manni að draumarnir séu ekki dánir, segja manni að þótt kuldinn bíti í kinnarnar þá komi lásasmiðir vorsins með lömb, lykt af birki og ættarmót með harmonikkum ...

            Gleðilegt ár!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleðilegt ár Eyþór minn og takk fyrir öll hin gömlu, góðu og gefandi í kynnum við þig. Þú ert drengja bestur.

Næst verður það bók...ég tek af þér loforð um það fyrirfam og að þér forspurðum. Fáir skrifa betri prósa en þú, eins og þetta greinarkorn vitnar um.  Dreymandi, hlýr og svo ofur mannlegur og látlaus.

Megi framtíðin svo hossa þér og hampa alla tíð kæri vin.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.1.2010 kl. 01:20

2 identicon

Gleðilegt ár, takk fyrir þau gömlu. Það er eitthvað svo áramótalegt að lesa svona skemmtilega pistla eftir þig.

Við sjáumst á árinu 2010

Gísli Berg (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 13:12

3 identicon

Kæri Eyþór, bestu þakkir fyrir þennan góða pistil og öll þín skrif önnur - ég ætti nú eiginlega að taka þig mér til fyrirmyndar og dröslast til að skrifa eitthvað líka í bloggið mitt en læt mér duga að taka undir allt sem þú segir. Það verður gaman að sjá hvaða draumar verða að veruleika 2010.

Vilborg (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 20:09

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Eyþór. Gott að fá þig að takkaborðinu með þínar hugleiðingar.

Árið hefur verið mér afar gott, brúðkaup dóttur minnar og besta tengdasonar á Íslandi var gert í sumar, prinsessa bættist í barnabarnahópinn í nóvember og prins nú milli hátíðanna. Heilbrigð barnabörn (alls orðin 8) sem eiga frábæra foreldra og systkini sem er mesta lukka í veröldinni.

Fegurðin er svo sannarlega líka hér fyrir norðan. Var að koma inn úr gönguferð með litla hundinn minn. Himinninn svo óendanlega blár með Tunglið skinandi aðeins austan við miðju. Miðfjörðurinn allur silfursleginn í tunglskininu með litlum ljósum á sveitabæjunum og norður Húnaflóann liggur dimmblágrá dulúðin yfir. Það marrar í snjónum og innöndunin er smá köld. Ekta vetrakvöld á Íslandi, ómetanleg söluvara fyrir erlenda ferðamenn.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.1.2010 kl. 21:24

5 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir innlitið Jón minn og allt hólið...þú er ekki sem verstur sjálfur!... og Gísli minn: þetta er nú friðsamari pistill en í fyrra... og Vilborg: rétt... það verður gaman að sjá... og Hólmfríður: takk fyrir fréttir og fallega mynd úr Miðfirði.

Eyþór Árnason, 4.1.2010 kl. 21:36

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Takk fyrir fallegan pistil og gleðilegt ár.

Hrönn Sigurðardóttir, 12.1.2010 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband