Gangnamannafundur

Í gærkveldi var haldinn í Héðinsminni aðalfundur Gangnamannafélags Austurdals. Ég átti ekki heimangengt úr höfuðstaðnum en sendi pistil:

 

Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum – Austurdalur.is 2010

 

Mig hefur alltaf dreymt um að eiga svifnökkva. Hann myndi koma að góðum notum í umferðarstraumnum hér í höfuðstaðnum sem er stundum eins og Norðurá í stólpaflóði. En ég á bara bíl.

            Og þegar ég sest upp í bílinn og keyri um göturnar hér hef ég þá áráttu að glápa, svona eins og af gömlum vana, jafnmikið út um hliðarrúðurnar eins og framrúðuna. Það getur verið varasamt, jafnvel þótt maður sé á svifnökkva.

           Þessi gamli vani að glápa svona útundan sér er sennilega frá því þegar sveitin átti mann með húð og hári. Maður var alltaf á ferðinni með augun út um allt; kíkjandi eftir tófum eða gæsum, nú svo auðvitað sauðkindum, hvernig læt ég. Silfrastaðafjallið var enn krókótt, ræsin stökkpallar og Helluhæðin blindhæð og hundar á hverjum bæ. Geðveikir hundar eða kannski voru þeir bara svona lífsglaðir að þegar rykmökkurinn sást koma voru þeir horfnir niður eða upp á veg og bitu sig fasta við drullusokkana og létu draga sig bæjarleið og komu svo hróðugir heim með ýmsar tegundir af drullusokkum og þeir bændur sem áttu duglega hunda þurftu aldrei að kaupa sokka undir jeppana. Kannski voru þeir af vitlausri tegund en í þá daga var ekki verið að væla yfir svoleiðis smámunum og allir fengu hvítan miða.

         En hér á götunum er enginn hundur á leið að bíta í mig enda allir hundar í bandi og búnir að fara í hundaskóla og kennt að kúka og ekki bíta í drullusokka nema þá kannski í útrásarvíkinga og sennilega er vissara fyrir þá að ganga með legghlífar framvegis eða þá að fá sér tréfætur.

         En svo ég haldi mig við efnið þá var ég á ferð eftir Hringbrautinni um daginn með augun leitandi um allt, þótt ég viti að gatan sé fjárlaus og fullsmöluð. Þá gerist það að hrafn flýgur meðfram bílnum og tekur framúr mér og sest á ljósastaur hjá bakaríinu og kjaftar heil ósköp. Mér fannst þetta ekkert óeðlilegt og áttaði mig ekki á neinu. Það var ekki fyrr en eftir marga daga og margar ferðir eftir Hringbrautinni og hrafninn alltaf á fartinni að mig fór að renna í grun að hann vildi mér eitthvað.

          Svo segir dagatalið bingó og konudagurinn kemur upp og mér ekki annað fært en að skreppa í bakaríið og blómabúðina. Og ég ákveð að vera sniðugur og byrja að æfa fyrir göngurnar í haust og athuga svona í leiðinni hvort hrafninn sé þarna ennþá. Og viti menn. Þarna er hann. Situr svartur og úfinn og eitthvað fjaðralaskaður á ljósastaur fyrir framan elliheimilið Grund, hallar undir flatt og krunkar undarlega. Minnti mig helst á barkasöngvarana frá Tuufa. Svo kem ég nær og þá byrja ég að fatta og greini orðaskil: „Krunk, kronk, krank, krenk …“

            Ég nenni ekki að skrifa þetta allt upp hérna enda ekki sérstaklega góður í fuglastafsetningunni en ég heyrði greinilega að krummi bað mig skila kveðju norður, segist vera orðinn gamall og ekki hafa vængi lengur til að fljúga alla leið yfir firnindin í nótt til að ná einni skál. Hann er líka búinn að fara á Vog og hættur að drekka en unir sér þó sæmilega í Esjunni og lætur Hallgrímskirkju nægja þegar hann þarf syndaaflausn þótt lítil gömul kirkja norður í landi með glugga fyrir altarinu komi alltaf upp í hugann.

            „Ég man eftir Bólu-Hjálmari, Ábæjarskottu og mögnuðum smalamönnum en lítið eftir þér,“ segir hann svo. „Já, það er ekkert skrítið,“ segi ég. „Ja, þú gerðir nú engar rósir þarna,“ segir hann, „en pabbi þinn var helvíti magnaður“ og svo byrjar hann að telja ykkur alla upp. „Já einmitt,“ segi ég og verð montinn fyrir hönd menningarsmalans og ykkar.                                     Og krummi er kominn á flug þarna uppi á staurnum og heldur áfram: „Þegar ég er búinn að tína upp mola hér á götunum blaka ég mér upp til Esju og læt mig dreyma að ég sé á svifi yfir Austurdal. Ég sé nokkra menn ríða inn dalinn, það er glatt yfir hópnum. Ég renni mér niður og sest á stein ekki langt frá götunni og krunka glaðlega og mér finnst eins og þeir kinki til mín kolli meðan söguhlátrar fylla dalinn. Og hundarnir hlaupa geltandi til mín og reyna að ná mér og ég krunka á móti en lyfti mér upp um leið. Þetta er leikur sem við þekkjum. Og við erum glaðir að hittast. Það er ekkert gagn að þessum stásshundum hér, þeir líta vart á mann. – En farðu nú að kaupa köku og blóm drengur minn. Ég ætla að skreppa niður á háu blokkirnar á Skúlagötunni og taka nokkur svif og láta mig dreyma í leiðinni að ég sé að svífa yfir dal fyrir norðan þar sem á rennur ósnortin af öllu fjasi. Og vertu svo blessaður.“

             Hrafninn lyfti sér af staurnum og sveif í átt sjávar en ég fór inn í blómabúðina og varð mér auðvitað til skammar því ég bað um hrafnaklukkur en enginn skildi mig því ég gleymdi að skipta yfir í íslensku úr hrafnamálinu. En það rættist nú samt úr því.

             Ég kem heim, fæ gott fyrir blómin og kökuna en dreg mig svo til hlés, næ í landakort og breiði úr því. Austurdalur liggur fyrir framan mig. Þessi dalur sem er svo kraftmikill að hann getur látið mann verða myrkfælinn um hábjartan dag.

             Ég les mig eftir kortinu, niður dalinn og reyni að muna hvaða þverdalur kemur næst. Hvaða á þurfi þá að vaða og í hvaða átt hún skyldi renna. Hvort Hvítá sé hvít, hvar Stórihvammur sé eiginlega, hvar næsta greni sé og hvort þessi steinn sé flöskusteinn. Já og spekúlera í hvort Ábæjarskotta sé til í alvörunni og viðurkenna að Ugla í Atómstöðinni sé stúlkan sem maður hefur alltaf verið ástfanginn af en aldrei þorað að segja.

            En alla vega: Ævintýri eru enn til og ef maður getur ekki gripið í þau er bara að láta sig dreyma. Draumar kosta ekki neitt. Maður verður ekki móður, ekki sveittur, ekki rasssár og þarf ekki að útbúa nesti.

 Ég ek Hringbrautina og læt mig dreyma að ég sé svartur hrafn að svífa yfir löngum, löngum dal djúpt fyrir norðan. Svo starta ég svifnökkvanum og við Stebbi Hrólfs smölum fjöllin á augabragði og sandstrókinn eftir okkur ber við himin séð neðan úr sveit og hundarnir sperra eyrun.

Skál dalsins!

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilega frásögn. Dreymdi að ég væri í dalsplássinu að horfa yfir vötnin og inn með vötnunum  þar sem ég vitjaði um netin meðan á lestri stóð,   og viti menn það var mikill afli, auðvitað... ekki draumur annars.

Kv að austan

(IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 16:53

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Einu sinni átti ég smalaskó . . . og líka hund og hest, , , og get auðveldlega notið þess að fylgja dreymandanum í sínum Austurdal.  

Var enda í dag að fylgja öldnum höfðingja úr Köldu-Kinn síðustu ferðina til eilifðardvalarinnar í þeirri mold sem hann elskaði . . . . .

. . það hefði verið við hæfi að fara ríðandi . . . . . og kannski fjölgar þeim ferðum sem við getum farið í gamlar göngur og fundið ilminn af gömlum götum og hresst okkur á löngu dukknu víni. . . alveg ókeypis og án timburmanna og rassæris . .

takka fyrir að taka mann með þessa sveiflu í ykkar Austurdal

kveðja

Bensi

Benedikt Sigurðarson, 6.3.2010 kl. 18:15

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Notalegur pistill að lesa fyrir svefninn. Á einum stað læddist fram bros en það var þegar talið barst árásargjörnum ferfætlingum hangandi í sokkum bílanna sem óku um Blönduhlíð.

Og þá kom mér í hug frásögn Stefáns Jónssonar af heimsókn til Valdimars og þeirra feðga í Bólu. Þar kom sögunni að Stefán fréttamaður hafði verið borinn ofurliði af nafna sínum á Höskuldsstöðum í umræðu sem snerti fyrrum bónda á bænum Hjálmar skáld Jónsson. Þegar fréttamaður sá að hvatvísi hans hafði leitt hann í ógöngur, kvaddi hann og gekk út úr bænum.

Þá skaust að honum fyrir bæjarhornið hundur bóndans og beit hann í fótinn, en þaut svo ýlfrandi á brott, enda var fótur Stefáns úr álmviði.

Og lokaorð Stefáns um þessa heimsókn:

-Þetta var semsagt dagur gálausra skolta í Blönduhlíð. 

Árni Gunnarsson, 9.3.2010 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband