Austurdalur .is

Í kvöld fyrir norðan í félagsheimilinu Héðinsminni er haldinn aðalfundur Gangnamannafélags Austurdals. Ég sendi pistil:

Austurdalur.is 2011

Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum

Í himnasal er hunangsvín í malnum
því himnaríki er í Austurdalnum.
Þar elt menn hafa hrotta
og einnig býr þar skotta
og ýmsum forðum bumbult varð af hvalnum

Gangnamannafélag. Mikið er þetta fallegt orð. Þarna rennur eitthvað saman í einskonar rammáfengt brjóstbirtusólskin. Vááááá. Maður fær hlaupasting í hjartað og fæturnir taka léttan sving hér á malbikinu eins og maður sé að hoppa yfir læk eða sveigja fyrir fjárhóp en það er auðvitað tálsýn því hér sést aldrei sauðkind á beit nema innmúruð í húsdýragarðinum. Já hér rennur bara æseiffljótið um göturnar eins og Kotaskriðurnar og fyllir alla kjallara af leiðindum og sjónvörpin springa af harmi um allt land. En fyrir norðan er Austurdalurinn gamli góði og lætur sér fátt um finnast og þar renna árnar ósnortnar af öllu mannheimsfjasi. Og áður en við vitum af verður komið vor og svo kemur sumar og svo koma göngur. Já einmitt, göngur. Það er svo mikill söngur í þessu orði, idolkeppni í fjárlögum sem breytist síðan í heimsmeistarakeppni í eltingaleik. Og nöfnin á plássunum herra minn trúr, kveikja í manni eins og gömul lög með Hljómum og frosin ber bragðast eins og marsipanlakkrís úr gamla skúrnum hans Lindemans. Já göngur eru einhvern veginn svo mikill draumur, eitthvað svo mikið stuð, einhverjar minningar um fögnuð og gleði og þreytu og æsing. Já þetta ber mann nær ofurliði, því allt er eins og í rósrauðu sólarlagi í fjarlægðinni og allt er þetta samt óskiljanlegt því oftast voru þetta bara eltingaleikir, erfiði og streð. En hvað er það þá við tilhugsunina um göngur sem gerir manni svo glatt í sinni? Kannski er það söngurinn, fjöllin, lyktin af frelsinu, sjá sumarið renna heim hlíðina eða kannski er það minning um tilfinninguna þegar maður er kominn að, búinn að jafna sig aðeins, fara í þurr föt og búinn að borða nestið sitt og gömlu mennirnir teygja úr sér sinadráttinn, lygna aftur augum og segja sögur í rökkrinu og hlæja undurfallega. Þeir ungu hlusta andaktugir á og líða svo örþreyttir út af og lenda milli draums og vöku... og fyrr en varir kemur fjárhópur eftir götunni undan sárfættri hundgá sem blandast jarminu og þunganum úr Jökulsánni og svo koma heimfúsir hestarnir niður dalinn. Við stígum af baki í Fögruhlíðinni og sprettum af klárunum sem velta sér meðan við söfnum saman sprekum og kveikjum bál, tínum epli af trjánum og hitum baunadós yfir eldinum og leggjum síðan ilmandi haustlauf við líkþornin sem hverfa á augabragði. Svo höllum við okkur út af og horfum upp í áfengan himin yfir dalnum og látum húmið segja okkur að lífið sé kannski ekki svo slæmt eftir allt saman.

Í höfuðstaðnum háleitur ég stend
og horfi inn til dalsins – já my friend
En augnablikin líða
ég læt til skarar skríða
og skelli mér í það að ýta‘ á send

Skál dalsins!


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Mikið óskaplega ertu góður penni elsku Eyþór minn!

Imba (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 21:32

2 identicon

Mikið rosalega er gaman að villast inn á svona skemmtilegt blogg,

Held að ég sé búin að lesa þetta svona 10 sinnum.

Takk !

Heiður (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 01:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband