Gleðilegt ár

Jæja, 2009 er komið. Hvað skal segja? Jú auðvitað gleðilegt ár og takk fyrir þau gömlu. Næsti mánuður fer í að læra nýtt ártal. Nýársdagsmorgunn heilsaði með rigningu, en ég reif mig á fætur og brunaði í Dómkirkjuna og hlustaði á biskupinn og tók undir í þjóðsöngnum. Það er gott að sitja í kirkjunni og hugsa sitt ráð. Eftir atburði gærdagsins ekki síst. Kannski var maður bara eins og Sturla forðum sem var leiddur milli allra höfuðkirkna í Róm. Og fólk hafði á orði hversu hörmulega hann var leikinn sá fríði maður. En það var gott veganesti fyrir gærdaginn að vera búinn að horfa á Lord of the Rings, allar þrjár myndirnar, um jólin (þó sú þriðja bara taki jafnlangan tíma og að keyra til Skagafjarðar) og lesa Ofsa eftir Einar Kárason og glugga í Sturlungu. Þá kemur Ásbirningurinn upp í manni. Kannski ekki til í að drepa mann og annan. En tilbúinn að verja vígi sitt, með kjafti og klóm. En þetta blogg átti nú ekki að vera nein herhvöt, bara smá nýárskveðjur til ykkar allra og láta vita að ég sé bara nokkuð góður þrátt fyrir slaginn. Svo var líka Tommi Tomm að syngja fyrir mig Jón var kræfur karl og hraustur svo það er ekki annað hægt en vera nokkuð brattur. Svo er bara að sofa aðeins, vakna svo og reyna að horfa framan í þetta nýja ár sem rignir yfir mann og mun færa okkur vetur, vor og sumar með nýjum silungi.

Ég drukkið hef kaffi með korg

og kátur hef setið við dorg.

     Nú kaffið er kalt

     gengið er valt

og svo var ég barinn á Borg.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Gleðilegt árið Eyþór og takk fyrir þau gömlu. Því miður var jólabréfið þitt ekki komið í Varmahlíðina þegar þau gömlu löggðu land og haf undir fót og flugu til Danmerkur fyrir jólin. Ég hef því ekki fengið að lesa þá skemmtun enn, treysti á að nútímatækni færi mér þetta fljótlega.

En mér sýnist að það hafi vantað alvöru varðhunda þarna á Borgina, Bigga í Valagerði og svona kalla, þeir hefðu snúið þessa tappa niður.

Vona að allir séu að ná sér eftir þetta og bið að heilsa þeim sem ég þekki, ef þeir voru einhverjir.

Einnig nýárskveðjur í þitt kot.

kv

Rúnar hinn danski

Rúnar Birgir Gíslason, 2.1.2009 kl. 18:56

2 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Mér sýndist þú nú bara ganga nokkuð vasklega fram í vörninni, vel studdur af skjaldsveinum og steikurum. Ásbirningum hefði örugglega þótt lið í þér. En ætli Sturlunga hafi ekki verið betri undirbúningur fyrir þann atgang en Hringadróttinssaga?

Gleðilegt nýár annars, bið að heilsa í bæinn.

Nanna Rögnvaldardóttir, 2.1.2009 kl. 19:25

3 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Var bara að horfa á myndbandið á visir.is núna, sá framgöngu kappans, stóð sig vel sýndist mér.

Leiðinlegt þetta fólk sem ekki skilur muninn á að mótmæla og skemma.

Rúnar Birgir Gíslason, 2.1.2009 kl. 19:43

4 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Gleðilegt ár, gamli vinur og granni (þ.e.a.s nágranni).

Bestu kveðjur til nöfnu.

Sigríður Gunnarsdóttir, 2.1.2009 kl. 23:50

5 identicon

Sæll, harma það að þér hafi liðið illa vinur en höfum staðreyndir á hreinu. Var ekki á staðnum en það sést vel í myndbandinu að það tók ekki á móti þér andlitslaus her heldur hópur fólks og voru andlitslausir í minnihluta.

Mér leiðast lygar hvort sem þær koma frá mótmælendum eða sjálfskipuðum lögregluþjónum eins og þér. Þið sem gagnrýnið þetta til þess að réttlæta eigið framferði haldið fast í þessa hneykslun á andlitslausa fólkinu, en enn og aftur þau voru í miklum minnihluta kallinn minn samkvæmt öllum þeim myndböndum og myndum sem hafa verið birt.
Með vinsemd og virðingu

Lóa

Lóa (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband