Stilla

Ég gleymdi að taka skeytin í kvöld. Veit ekki hvernig spáin er fyrir morgundaginn. Það skiptir kannski ekki miklu máli fyrir mig. Ég held mig inni við. En veðrið í dag (í gær) var merkilegt. Það var að bíða eins og maður sjálfur. Maður þorir varla að anda af ótta við að snjórinn hrynji af trjánum og stemningin hverfi. En kannski er stillan og snjórinn á trjánum að kveðja gömlu stjórnina og svo kemur vindsveipur á morgun og feykir öllu af stað. Hristir trén og hristir upp í manni. Það liggur fjölmiðlatilhlökkun í loftinu. Annars hefur maður aðeins slakað á í biðinni. Jafvel talað um músík og bíómyndir við félagana, yrt á börnin, sett í uppþvottavélina og litið í bók. Ég held að veðrið og snjórinn hafi haft þessi áhrif. Það mættu koma nokkrir svona dagar. Maður vaknar til birtunnar og heldur út í snjóinn og það marrar í snjónum. Maður upplifir gamalt marr. Ég í stígvélum milli húsa... Samt má ekki verða of kalt, nei bara passlega svo ekki frjósi í pípum og þurfi að skella ísvara á bílinn... Nei svona er maður orðinn góðu vanur, vill bara sitja og horfa út um gluggann. Horfa á póstkortið sitt og snúa því svo við og ýta á senda. Kannski sendi ég nýju stjórninni svona póstkort. Mynd af snjóþungu tré, hvítum þökum og kaþólskri kirkju. Og kannski bið þau í leiðinni um eitt: Talið við okkur. Eins og fólk. Ekki eins og tilvonandi kjósendur. Og ég hlakka til að líta á póstkortið mitt í fyrramálið og sjá hvort landpósturinn hefur gripið það með sér. En nú ætla ég að grípa í Jón Kalman; Sumarljós, og svo kemur nóttin. Það er bók sem maður á alltaf að hafa á náttborðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þegar þú gefur út þína bók verður hún á náttborðinu mínu - alltaf.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.1.2009 kl. 02:03

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já það eru fleiri náttborð sem bíða Eyþór.

Fjölmiðlatilhlökkun segir þú og ekki að ástæðulausu. Jóhanna á leiðinni með stóru skófluna í mokstur og þið á staðinn, Seðlabankinn fyrsti áfangastaður. Mikið verður gaman. Áhorfendatilhlökkun hangir í loftinu, það er blik í augum og bros í munnvikjum. Og upplýsingar um allt mögulegt, koma þær ekki núna?? Steingrímur Joð kominn með nýja rödd (hættur að æpa), hlýja í augunum og þynnuverksmiðja fyrir norðan orðin mál til skoðunar. Það er líka logn fyrir norðan.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 30.1.2009 kl. 08:01

3 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Bók, Eyþór, bók!

Sigríður Gunnarsdóttir, 30.1.2009 kl. 23:27

4 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Þetta var nú svolítið fyndið. Sem ég var að lesa síðustu færslu þína sló niður höfuð mér hugmynd: Ætli hann Eyþór gæti ekki bara tekið þessa pistla sína saman og sett á bók?  Svo lít ég á athugasemdirnar og þar eru allir að tala um það sama!!

Hallmundur Kristinsson, 2.2.2009 kl. 22:01

5 Smámynd: Eyþór Árnason

Þið fáið 50% afslátt!!!

Eyþór Árnason, 3.2.2009 kl. 21:23

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Já, Jón Kalmann er yndislegur penni. Þú ert ekki síðri Vona að þér verði að ósk þinni í sambandi við það að þessi nýja stjórn sýni okkur almenningi nýja taktík. Þ.e. að hún tali við okkur eins og hugsandi fólk en ekki bara kjósendur sem hafa ekki annað  að segja en það að setja x í fyrirfram ákveðinn reit...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.2.2009 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband