Júlíkvöld og ættarmótspistill

Það er eitthvað í þessu kvöldi sem lætur mig fá fiðring í fæturna. Kannski er það bara hvað kvöldið er fallegt og fjöllin kalla. Hver veit? Annars er ég að reyna að ná tökum á feisbúkk og gengur illa. Og  ekki er skárra að lesa blogg þessa dagana. Yfirdrifin leiðindi um Icesave og ESB en auðvitað þarf að skrifa um þetta helvíti. Jæja en það sem kemur hér er kannski ekkert skárra. Fór á ættarmót afkomenda Halldórs Einarssonar um daginn og flutti þar pistil. Ég ætla að láta hann vaða hérna, en þeir sem eru ekki skyldir mér mega hætta hér. En að sjálfsögðu skyldulesning fyrir ættina!

Ættarmót Halldórs Einarssonar 2009

 

Gott kvöld og gleðilega hátíð.

Hér stend ég og get ekki annað var einhvern tímann sagt. Já getur ekki annað, segja nú sumir sem þekkja mig! Jú það var einn góðviðrisdaginn í höfuðborg hrunsins að síminn hringir. Ég svara: Eyþór. Já blessaður, þetta er Árni Egilsson frændi þinn hérna fyrir norðan. Já blessaður segi ég. Svo kemur smáspjall um veðrið og sauðburð og horfur á grassprettu. - Kemurðu á ættarmót, spyr Árni svo allt í einu. Ég var ekki viss. - Heyrðu, segir hann, ég ætla að biðja þig að flytja hátíðarræðu á ættarmótinu, svona eins konar skemmtiræðu. - Jaaaa já þú segir nokkuð, segi ég ... en ég er ekki skemmtilegur, ég er frekar alvarlegur. - Nei nei, þú ert helvíti skemmtilegur, segir Árni. - En ... segi ég ... af hverju læturðu ekki Villa bróður þinn messa yfir liðinu, hann er rífandi skemmtilegur, svo er hann líka svo frægur - nærri jafnfrægur og Álftagerðisbræður! - Neeeee, sagði Árni, jú jú, Villi er fínn en ég er hræddur um að hann verði of upptekinn við að bjarga þjóðinni ... Smáþögn í símann. Báðir hugsa næstu skref. Svo segir Árni: - Þetta kitlar þig, er þaggi? Og þar kom það. Ég er nefnilega eins og kallinn á krossgötunum um árið; sjaldan hef ég flotinu neitað. Og hér sit ég uppi með flotkökuna í fanginu og þið verðið að maula hana með mér í kvöld. - Hvað á þetta að vera langt, spurði ég. - Bara svona eitthvað, sagði Árni. - Já auðvitað, hugsaði ég. Hér er ég kominn þar sem sekúndurnar eru ekki heilagar, þó að við í Skagafirði höfum því miður ekki náð eins langt og þeir á Jökuldalnum þar sem kallarnir fóru ekki á fætur fyrr en þeir voru búnir að sofa! Svo kvöddumst við frændur með virktum og þá fattaði ég að það hefur ekkert breyst síðan ég var pínulítill pjakkur heima á Uppsölum.

        Það var látið dálítið með mig þá. Elsti sonurinn og talinn hafa öll efni til að verða laukur ættarinnar og meira að segja með þingeysk gen til gáfuauka þó að vísu fylgdi þeim smá framsóknarandvari svona til bragðbætis. En sem sagt; þarna er ég lítill pjakkur í eldhúsinu á Uppsölum og pabbi er búinn að æfa mig í ýmsum ósiðum eins og að herma eftir nágrönnunum; Jóhanni á Silfrastöðum og öllum hinum ... Mömmu kannski ekki til mikillar gleði, enda gat þessi kunnátta mín orðið til vandræða þegar nágrannarnir komu.

        Jæja, svo kemur Egill föðurbróðir í heimsókn, pabbi títtnefnds Árna. Egill kom oft heim og hann var einn sá skemmtilegasti gestur sem kom. Hann sagði svo fyndnar sögur og svo hló hann svo fallega. Jæja, Egill kom oft með einhverja framákalla í landbúnaðarmafíunni; Halldór Pálsson, Einar á Hesti eða einhverja hrútasýningakalla sem töluðu hátt allir og hlógu mikið. Nú nú, svo komu Egill og kallarnir upp í kaffi og mamma rétt byrjuð á pönnukökunum, var pjakkurinn ekki mættur á bekkinn og mændi á kallana. Og Egill bregst mér ekki: - Jæja Eyþór minn, hvað segir nú Valdimar í Bólu núna? Og það stóð ekki á svarinu: „Það er nú gróflega hætt við því." Og svo lágu þeir úr hlátri kallarnir yfir drengstaulanum á bekknum og ég hló líka og líklega mest að Agli.

        Svona var maður plataður þá og svona er maður plataður fimmtíu árum seinna. Bara af annarri kynslóð. Og hér erum við. Komin frá Halldóri, Sigríði og Helgu. Bærilega er fram gengin gemlingahjörðin, hefði kannski langafi minn sagt, eða kannski hefði hann frekar líkt okkur við kvíandi stóð sem stekkur út um allar grundir. Og stóðið bylgjast um Hólminn eins og sunnanvindur og vekur upp ræturnar ...

        Því hér í þessum firði, Skagafirði - í miðjunni á veröldinni - liggja þessar djúpu rætur og þær eru svo djúpt gróðursettar í Hólminum þar sem Héraðsvötnin hafa fyllt fjörðinn að þær liggja langt niður fyrir sjávarbotninn gamla. Og þetta finnur maður þegar maður kemur að sunnan og rennur upp á Vatnsskarðið og byrjar að sjá í toppana á Blönduhlíðarfjöllunum. Þá er eins og maður grípi andann á lofti augnablik, eins og maður sem hefur verið lengi í loftlausu herbergi eða ósýnilegum kafbát, og æðarnar fyllast af eldmóði og bensínfóturinn styrkist allur enda hálfdofinn eftir Húnavatnssýsluna. Já skrokkurinn finnur gleðina yfir því að vera kominn heim.

        Og ég hef sökkt mér ofan í sögur af gömlum frændum mínum og frænkum. Eiginlega verið í öðrum heimi undanfarið og oft farið út af sporinu, lent hingað og þangað en enda alltaf á Indriða Einarssyni langafabróður. Hann segir svo skemmtilega frá þessari fjölskyldu sem við erum komin af og ætti upphafið að endurminningum hans, „Séð og lifað", að vera skyldulesning hjá ættinni. Raunar ætti ekki að leyfa neinu barni í ættinni að fermast nema vera búið að lesa og læra bút úr Indriða og sleppa frekar að læra eitthvað af þessum Icesave-reikningi sem búið er að troða í fólk á undanförnum árum og þið sjáið hvar við erum stödd núna! Já, það væri nú allt annað ef Indriði gamli frændi væri enn endurskoðandi landsreikninganna og Villi seðlabankastjóri. Ja þá væri nú gaman að lifa.

        En nú gríp ég Indriða langafabróður þar sem hann er á leiðinni norður; árið er 1901:

 „Ég var kominn heim aftur, undir eins og ég var kominn yfir fjöllin, og þá hafði ég ekki komið hingað í 29 ár. Norðlingar bera fjörið og glaðværðina utan á sér. Þar hefur ekki rignt kynslóð eftir kynslóð, eins og á Suðurlandi. (Hestarnir eru ljónfjörugir í þurra loftinu, og ef mennirnir gætu ekki tekið það hver eftir öðrum að bera sig á mannfundum og í heimahúsum, þá gætu þeir lært það af hestunum ...)

        Indriði kemur fyrst á Krókinn, að vísu bakdyramegin yfir Kolugafjall (þar sem fyrri ísbjörninn var) og heldur svo fram í sveit og hittir Halldór á Grund. Svo segir Indriði frá því er Halldór fylgdi honum fram að Silfrastöðum. Þegar þeir fóru framhjá Miklabæ var komið myrkur og greip myrkfælnin í Indriða enda Miklabæjar-Solveig ljóslifandi í huga hans. Og Indriði segir: „Ég sagði Halldóri bróður mínum ekki frá því, því hann hlær að öllu." Hlær að öllu ... segir Indriði um bróður sinn. Þetta er svo fallegt.

        Ég sé þá bræður fyrir mér ríða fram Blönduhlíðina. Þetta er í byrjun september og haustdimman byrjuð að sækja á. Það mótar fyrir Mælifellshnjúknum í vestrinu og dimm og brött Blönduhlíðarfjöllin halda við þá í rökkrinu. Þeir eru á góðum hestum en fara ekki mjög hart. Hestamaðurinn Halldór hefur oft verið fljótari í förum. En nú liggur honum ekkert á. Hann veit að klárinn verður heimfús til baka. Það er hlýja í kvöldhúminu, hlýja í grasinu og hlýja á milli bræðranna; embættismannsins og skáldsins úr Reykjavík og járnsmiðsins á Syðstu-Grund.        Tveir skagfirskir bræður á hestbaki og þótt þeir hafi ekki sést í 29 ár er eins og þeir hafi aldrei skilið. Kannski í mesta lagi að annar þeirra hafi skroppið í Krókinn. Sum ferðalög eru þannig að maður vonar að þau endi aldrei. Mér finnst einhvern veginn að þeim bræðrum hafi liðið þannig þetta septemberkvöld fyrir hundrað og átta árum.

        Indriði gistir á Silfrastöðum og heldur þaðan til Akureyrar og predikar bindindi. Hann var í stúkuferð. Enda maður með reynslu. Hafði dottið alldrukkinn í síki í Köben en bjargaðist af því hann var ekki jafnvitlaus og Þorgeir Hávarsson og kallaði á hjálp eftir smáumhugsun og var bjargað. En hér má kannski skjóta inn í smásögu sem Indriði segir á skemmtifundi í Reykjavík. Þið hafið nú heyrt hana áður en hún er of góð til að sleppa henni. Ég gef Indriða orðið:

        „Stórstúka Íslands sendi mig norður á Sauðárkrók til að stofna þar stúku. Ég á bróður í Skagafirði sem er ógurlegur drykkjumaður. Ég gerði þessum bróður mínum boð að koma út á Krók og hitta mig. Hann kom snemma dags ríðandi á tveimur gæðingum og hann var með mér allan daginn fram á kvöld. Og það er stærsti sigur, sem ég hef unnið í mínu lífi, að Halldór bróðir minn fór ódrukkinn af Króknum. En auðvitað með tvær í vasanum."

        Jæja, eftir að Indriði hefur bjargað Akureyringum frá áfengisbölinu snýr hann aftur í Skagafjörð og kemur í Grund klukkan fjögur á laugardegi. Héraðsvötnin færðu honum glænýjan silung að borða og frænkur hans komu og kíktu á kallinn. Þeir bræður tala svo saman inn í nóttina eða eins og Indriði segir: „Við bræðurnir töluðum um fornt og nýtt, þangað til nóttin lá myrk og þögul yfir öllu héraðinu og huldi alla fegurð þess, sem enginn þar borinn maður nokkurn tíma gleymir."

        Daginn eftir halda þeir bræður vestur yfir Vötn og hitta gamla vini og ættingja og koma í Krossanes. Dagurinn líður eins og í leiðslu hjá Indriða, hann er annars hugar, það sækja á hann gamlar minningar. Það er gist á Víðimýri og svo er lagt vestur yfir Skarð daginn eftir. Og hann lýsir Vatnsskarðstilfinningunni þegar maður kveður Skagafjörð svo vel að mér finnst að við ættum að skrifa hana á skilti og hengja það upp hjá Stebba G. Niðri í Langadal skilja þeir bræður, og Indriði giskar á að hestar bróður hans hafi mátt greikka sporið eftir að þeir skildu.

        Hlær að öllu segir Indriði. Já sem betur fer hlær þessi ætt og mun hlæja áfram, og eins og Jón Röngvaldsson segir um ömmu sína og systur: „Þessar rosknu og ráðsettu konur eru svo kátar, hlæja þvílík lifandis ósköp, ég hafði bara alls ekki gert ráð fyrir að aldraðar konur gætu hlegið svona hátt og mikið."

        Og dætur og synir Halldórs, Sigríðar og Helgu hafa dreift þessum hlátri um allt. Ég hef dvalið dálítið í gamla tímanum þegar ekki voru alltaf ættarmót og engin feisbúkk til þar sem maður getur fylgst með ættingjum sínum og ekki síst börnum sínum; hvort þau eiga kærustur eða kærasta og så videre. En þrátt fyrir alla tækni og allan nútíma er ekkert sem getur komið í staðinn fyrir að hlæja með góðum frænda og finna vinskapinn, væntumþykjuna og hlýjuna, hlýjuna sem hefur fylgt okkur alla leið úr gömlu smiðjunni á Syðstu-Grund.

        Bara núna í vikunni voru Árni og Steini systursynir mínir hjá mér. Þeir eru handlagnir drengirnir og ætla að standsetja hjá mér baðið. En þeir hlæja alltaf að mér. Og svo sagan sem ég heyrði um þá Álftagerðisbræður að eitt sinn þegar þeir voru að undirbúa jarðarför var fjörið svo mikið að aðstandendurnir héldu að verið væri að undirbúa afmæli.

        Og hér erum við og höfum verið dugleg að fjölga okkur, en ætt getur ekki fjölgað sér sjálf; ein og sér. Maður verður að leita út fyrir og við höfum sótt okkur úrvalsfólk sem hefur skilið okkur og hleypt á stökk með okkur. Klórað okkur á bakinu og fært okkur kamillute ef við höfum fengið kvef, borið á okkur sólarolíu í útlöndum, ruggað okkur í svefn og leyft okkur að sofa hjá sér. Og það er svo merkilegt með þetta fólk sem kemur inn í ættina að þegar það tengist okkur verður það bara eiginlega skyldara okkur en við erum sjálf!

        Þetta fer nú kannski að verða gott hjá mér, en kvöldið er ungt og þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af Uppsalaliðinu þótt ykkur finnist það rólegt; það fer að lifna yfir því svona upp úr miðnættinu. Ég man á ættarmóti er ég dró son minn sjö ára grátandi frá frændum sínum klukkan fjögur um nóttina. Eina sem sá litli sagði var: „Pabbi, hví dregur þú mig frá vinum mínum?" Hann er varla búinn að fyrirgefa mér enn - tíu árum síðar! Einu sinni ókum við Grímur Jónasson frændi minn um sveitir Suðurlands í leit að laxi og það hljóp í mig Þingeyingur og ég dásamaði landkosti héraðsins og sagði að við yrðum að rækta allt þetta land og heyja síðan og bjarga heiminum. Þegar við komum upp á Hellisheiðina segir Grímur frekar rólega: „Og hver á að éta allt þetta hey?"

        Og það er gott að lyfta glasi með Friðriki Hansen frá Sólheimagerði, honum liggur ekkert á. Einu sinni gengum við Friðrik niður Esjuna saman og hann sannfærði mig á leiðinni um að við ættum að ganga í Evrópusambandið ... not! Og í mótmælendahópnum á Austurvelli í vetur stóð Freyr frændi minn í Flugumýrarhvammi með fokkings-fokk-spjald. Ég, nýbarinn af mótmælendum, heilsaði honum samt. Svona er blóðið í okkur blátt. Ég monta mig líka af organistunum í Skálholti og Hólum; frændum mínum frá Mýrarkoti. Svo hefur maður oft slegið sér upp á Álftagerðisbræðrum fyrir sunnan, sérstaklega virkar það vel á konur á góðum aldri. Það er bara eins og að segja „Sesam, opnist þú" og maður er kominn á bullandi séns! Eins er það ef maður hittir háspennulíklega kalla á bar og minnist á að maður sé nú skyldur Mannsköðunum - þá er nokkuð ljóst að maður fær frítt að drekka það sem eftir lifir kvölds.

        Sem sagt það liggur ekkert á - það er enginn að fara neitt. Og hvert ætti maður svo sem að fara - við búum á eyju! En hvað gerir maður sem er búinn að týna niður að herma eftir Valdimari í Bólu? Jú hann segir: Það var frábært að hitta ykkur hér í kvöld - og reynir aftur: Það er nú gróflega hætt við því. Takk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir Eyþór, þú bregst ekki frekar en vant er. Kveðja úr Firðinum fagra

Helga Árnadóttir (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 12:31

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og ég orðinn fúll að vera ekki afkomandi Halldórs Einarssonar á Grund.

Fallega skrifað að venju.

Árni Gunnarsson, 19.7.2009 kl. 15:37

3 identicon

Tek undir orð Árna Gunnars, maður heldur næstum því að það séu mistök að vera af Steinsstaðaættinni

(IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 10:46

4 Smámynd: Sveinn Arnar Sæmundsson

Þetta er frábær frásögn. Takk fyrir..

Sveinn Arnar Sæmundsson, 25.7.2009 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband