22.9.2010 | 20:01
Haugsnes 2010
Grjótherinn
- Drápa til Sigga Hansen
Ef ég væri steinn myndi mér finnast það viðunandi örlög að vera dreginn upp úr ískaldri á, komið fallega fyrir meðal vina og félaga í blóðugasta stríðsdansi Íslandssögunnar. Já hvar varst þú staddur steinn minn góði þegar Brandur var höggvinn á grundinni þar neðra... Kannski varstu langt uppi í gili. Kannski varstu enn upp við brún í Tungufjallinu hver veit. Rúllandi steinn - rolling stone kemur þú svo niður, kemur í stökkum niður gilið eins og rammfældur hestur - wild horse, búinn að lemja þúsund milljón trommusóló niður allan dal, orðinn rúnnaður og fínn, og nú ertu ekki lengur steinn í gili, steinn í á, nei þú ert bardagamaður - street fighting man, já eins langt og það nær gegnum spunahjól tímans og tíminn er taumlaus hani, já sem gólar á mann allt of snemma, jafnvel klukkan fjögur situr hann á haugnum og galar eins og fjandinn en sýnum biðlund - sympathy for the devil... En þú steinn minn góður! Þú ert mættur í slaginn og vertu stoltur þar sem meistari Siggi setti þig niður - þú getur ekki alltaf fengið það sem þú vilt og ég held þú getir vart komist hærra í metorðastiga rúllandi steina en í grjóther Sigga Hansen því þessi her er sko hot stuff skal ég segja þér, ósigrandi svo langt sem augað eygir, enda veistu um hvað ég er að tala því þú ert hrjúfur eins og vanginn á Keith Richards... Og nú þegar ágústnóttin nálgast ætla ég að ganga í herinn og spenda the night together með þér - halla mér upp að þér gamli steinn og bíða því 19. apríl ár hvert mun herinn lifna við og taka vopn sín. Fylkingarnar munu skella saman, gnýrinn berast um land víða og fólk mun spyrja í angist: Eru Rolling Stones með tónleika - eða er Katla byrjuð að gjósa?
14. ágúst 2010
Athugasemdir
Þakka flotta drápu.
Hólmfríður Pétursdóttir, 22.9.2010 kl. 22:59
Þessi hugmynd Sigurðar er frábær. Takk fyrir þessa flottu drápu.
Sveinn Arnar Sæmundsson, 24.9.2010 kl. 08:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.