23.8.2007 | 23:58
Silungar, fyrri hluti
Hér um daginn minntist ég á silung úr Héraðsvötnum og Ingólfur frændi spurði strax hvað væri merkilegt við þá enda hann sjálfur alinn upp við Mývatnssilung, sem er til siðs að bera á borð fyrir kóngafólk. Ekki veit ég hvort kóngafólki hefur verið boðinn silungur úr Héraðsvötnum en það ætti auðvitað að gera. Ég er frá Uppsölum í Blönduhlíð sem er innarlega í Skagafirði og fyrir neðan renna Héraðsvötn um eyrarnar. Stundum háttaði þannig til að Norðuráin náði að renna út til okkar og þá fengum við ármót þar sem blátær Norðuráin blandaðist grugginu í Vötnunum. Ef að rigndi eða ekki var hægt að vera í heyi þá hljóp maður stundum með stöng niðureftir og kastaði í Norðurána. Silungurinn í Vötnunum og Norðuránni sem nú er til umræðu er sjógenginn fallegur fiskur, og talaði maður oftast um bleikju. Ekki var nú hægt að treysta á stöngina við veiðiskapinn svo við veiddum í lagnet sem var vitjað um kvölds og morgna. Ef netið var í Vötnunum var fiskurinn spegilgljáandi en þegar hann kom upp í Norðurána var hann býsna fljótur að roðna á kviðnum. Það var oftast ekki fyrr en síðustu vikuna í júlí sem fór að veiðast hjá okkur. Maður fylgdist með á næstu bæjum hvort þeir væru byrjaðir að leggja og svo þegar Jóhann á Kúskerpi fór að verða var, þá var manni ekki til setunnar boðið. Ágúst var svo aðalveiðitíminn já og stundum töluvert fram í september. Og svo komu laxar, þá var maður rogginn. Stórir laxar voru reyktir og ég man enn bragðið af laxabrauðinu að morgni gangnasunnnudags. Þriggja til fjögurra punda laxar voru soðnir til háðtíðarbrigða, en ég held að flestum hafi þótt bleikjan betri. Og þar kemur það. Þessi umræddi silungur er einstakur á bragðið. Ég kann að vísu ekki að lýsa bragði, en það segir sína sögu að ef þú ert alinn upp á Héraðsvatnasilungi lætur þú ekki bjóða þér hvað sem er. Maður fékk hann í hádegismat stundum alla virka daga og steiktan um helgar og kannski silungasúpu ef maður var heppinn. Já vel á minnst, silungasúpa, það var algjör snilld. Á kvöldin var svo ,,ruslið" borðað. En það er silungshausar, hrogn, svil og lifur og einstaka laxhaus flaut stundum með. Frábært með heitum kartöflum. Það þótti manndómsmerki að stinga upp í sig einum silungshaus og éta hann allan og skilja ekkert eftir! En það var misjafnt hvað þessi sælutími varði lengi. Veiðin var misjöfn frá ári til árs. En það er einhvern veginn þannig í dag að ég man betur góðu árin. Eftir að ég kom til borgarinnar fékk ég (og fæ enn) stundum sendingar að norðan. Maður mætti spenntur niður á BSÍ og beið eftir Norðurleið. Vokkaði svo yfir bílstjóranum sem fann á endanum nettan kassa krossbundinn með baggabandi. Maður var snöggur heim, opnaði kassann og þar lágu vandlega pakkaðir inn í arfa, já venjulegan haugarfa, fjórir silfurgljáandi silungar og poki með kartöflum var til hliðar. Og nú er mál til komið að setja vatn í pott ...
Athugasemdir
Ég er líklega of ungur til að hafa átt möguleika á að lifa svona daga en mikið skil ég þig vel.
Silunugur og lax er herramannsmatur.
Bestu kveðjur úr Mörkinni.
Rúnar Birgir Gíslason, 24.8.2007 kl. 07:44
Sæll Eyþór, ég held að spurningu minni sé fullsvarað. Bestur var silungurinn úr Mývatni veiddur kl. 11 og soðinn kl. 12, og aldrei varð ég leiður á honum. Nú veiðist ekkert í vatninu, þó fékk ég reyktan Mývatnssilung í gær sem bragðaðist eins og alvörusilungur, en þetta er orðið algert raritet. En einmitt, Héraðsvatnasilungurinn sjógenginn.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 25.8.2007 kl. 13:44
Já Rúnar minn þetta voru góðir tímar og ég er sammála þér Ingófur að reyktur Mývatnssilungur er sko ekkert slor!
Eyþór Árnason, 26.8.2007 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.