26.8.2007 | 01:49
Laugardagskvöld
Þetta er gott kvöld. Er búinn að fá eitt lag af nýja diskinum hennar Eivarar á heilann. Það er lag númer þrjú og heitir "Do not Weep". Að vísu hlusta ég á hana syngja þetta á færeysku, finnst meiri sál í því þannig. Ég man alltaf eftir því þegar Eivör kom fyrst til okkar í upptöku á gömlu Stöð tvö. Við strákarnir vorum gersamlega heillaðir af Þessari berfættu villikonu. Eins og ég sagði er þetta gott kvöld. Ég fór í ræktina í dag og allur miklu brattari og hef mikil plön! Áðan gengu tveir ungir hressir menn upp götuna á leið í bæinn og höfðu hátt. Þeir sungu. Já þeir sungu "Og hann er alveg ofboðslega frægur". Það vantaði aðeins upp á textann hjá þeim svo mér datt í hug að stinga hausnum út um gluggann og taka undir með þeim og leiða þá á réttar brautir. En ég hætti við. Ég sé eftir því. Það hefði kannski orðið skemmtilegt. Þetta er gott kvöld: Það er ljóst að Stuðmenn eru ekki í hættu meðan ungir menn í Vesturbæ Reykjavíkur kyrja söngvana á leið í fjörið. Þetta er rétt hjá Þórði að Stuðmenn séu eins og Vínardrengjakórinn, enda er þetta gott kvöld, þótt hann sé byrjaður að rigna og ég gleymt að breiða yfir grillið...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.