30.8.2007 | 00:18
Mótmæli
Var að enda við að horfa á skemmtilega heimildarmynd í sjónvarpinu um popp og pólitík. Í myndinni voru viðtöl við allskonar skemmtilegt fólk, fólk sem hafði sungið og stungið í steininn fyrir vikið og fólk sem hafði breytt heiminum. Og ég mundi eftir því sem maður gleymir stundum hvað popptónlist getur haft mikil áhrif. Og lika hvað hann er oft átakanlega vondur þessi heimur. Svo ég stóð upp úr sófanum og sagði jess ég ætla að mótmæla, en var ekki viss hverju og mundi fljótt að ég er mjög lélegur mótmælandi. Skil raunar ekkert í því vegna þess að stundum finnst mér ég hafa mjög ríka réttlætiskennd. Ég er kannnski svona latur og líka friðarins maður og þó ég nái að æsa mig í sófanum þá nær það ekki niður stigann og út á götu, hvað á niður á torg. En nú þarf maður ekkert torg, maður hefur bloggið. Sjálft alheimstorgið. Þetta var ég bara að fatta núna! Svo nú mega allir óþverrar heimsins vara sig! Ég hef að vísu tekið þátt í einum mótmælum. Þegar við mótmæltum fjölmiðlafrumvarpinu forðum daga með fundi niðri á Austurvelli og lögðum banana á tröppur Alþingishússins. En það var svo skrítið að eftir á fannst mér þetta hálf asnalegt að leggja banana á tröppur. Hefði ekki verið nær að borða þessa banana. Ég veit ekki. Kannski er maður bara skoðanaleysingi sem kann ekki að mótmæla. En tónlistin lifir og vonandi halda menn áfram að semja söngva sem hrista upp í öllu og hvetja menn til dáða. Og svona í lokin; hlustið á Eivöru syngja lagið um systur sínar þær Elísabetu og Elínborgu. Það er einstök sál í því lagi. Svo styttist í silunga seinni hluta...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.