3.9.2007 | 00:49
Grjót
Þegar ég vaknaði í morgun var ég ákveðinn. Já býsna ákveðinn í að gera eitthvað skemmtilegt, eða að minnsta kosti eitthvað. Ég var í stuði síðan í gær en þá fór ég góðan bloggrúnt og safnaði vinum. Las gott blogg hjá Jakobi bassaskáldi um Land Rover og lét mig dreyma og samdi frábæran pistil í huganum um gamla K-811 sem kemur kannski einhvern tíma ef ég man hann aftur. Já ég var ákveðinn í morgun og það náði alveg fram yfir hádegi, því þá var tekinn göngutúr upp í miðja Esju. Þetta stóra grjót sem liggur hér fram á lappir sínar og heldur utan um mann og bíður eftir því að gengið sé á því. Og það var eitthvað svo gott í fjallinu í dag. Þrátt fyrir smá dropa úr lofti leið manni vel. Og Esjan var ekki alveg viss hvort það er sumar eða komið haust og kannski er henni alveg sama. En þarna í fjallinu í dag fann ég hvað það er gott að stíga á grjót. Þegar maður er alinn upp með grjót undir fótunum í smalamennsku þá fóru fæturnir að taka við sér. Ég veit ekki hvort þeir voru kátir, en létu sig hafa það. Grjót, að vísu ekki mikið og engar grjótbarðar iljar eins og stundum áður fyrr, en nóg til þess að minna mann á að haustið er á næsta leiti og göngur og réttir framundan. Og það er svo merkilegt að þá fer hvinur um eyrun og augun verða hvöss og leitandi. Og fæturnir stappa í sig stálinu.. Já ég var ákveðinn í dag... Á morgun ætla ég að kaupa frystikistu...
Athugasemdir
Tíndi einn og halfan lítra af bláberjum í gær.
Frú Sigrún tíndi tvo og hálfan uppi á einhverri hæð í Heiðmörk. Það hlýtur auðvita að vera Bluberry Hill. Spurning hvort sá sem samdi textan hafi verið þarna í herbúðum.
Kl. 15.30 á miðvkudag gef ég svo út bók um pípulagnir.
Gestur Gunnarsson , 3.9.2007 kl. 20:05
Ég er fegin að fá manninn með besta afmælisdaginn sem blog-vin..... En þó að greindarvísitalan hjá mér nái herbergishita - þá næ ég ekki hvað það að stíga á grjót hefur með frystikistukaup að gera....... Silly me!
Við hjónin misstum okkur yfir Land-rover færslu bassaleikarans - minn hló svo að tárin láku....... snilld!
Ingibjörg Gunnarsdóttir, 4.9.2007 kl. 11:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.