Kasetta

Þegar ég settist upp í bílinn til að keyra heim úr vinnunni í dag var mitt fyrsta verk að opna hanskahólfið.  Út úr því valt hrúga af kassettum. Hvað ertu að gera með kassettur spyr kannski einhver en því er til að svara að það vantar hluta af nútímanum í bílinn svo kassettan er betri en enginn á langferðalögum. Þar sem ég var ekki að leggja upp í langferðalag var þetta svolítið óvenjulegt að gramsa í spóluhaugnum þarna um fimmleytið. En ég hafði erindi í hauginn. Ég veiddi upp The Wall, eitthvað með Bowie ólæsilegt, en sennilega Space Oddity, Konuplötuna hans Bubba, Laxness að lesa, írsku sveitina The Bards og tvær spólur með karlakórnum Heimi. Má með sanni segja að maður sé vel nestaður. En ég kafaði dýpra og fann það sem ég leitaði að. Hulstrið er ansi gamalt og lúið og erfitt að lesa en myndin framan á leynir sér ekki. Brosmildur maður með svart skegg, stóra hvíta slaufu og auðmýkt í svipnum. Hann heldur höndunum saman eins og hann sé að þakka fyrir sig. Sennilega hefur einhver verið að hrópa bravó þegar myndin var tekin. Bravó Pavarotti. Þessi litla kassetta hefur fylgt mér á langferðum í 26 ár. Hún hefur aldrei slitnað og hljómurinn er mesta furða. Og ég setti í gang, sleppti fimm-fréttunum, hækkaði í söngvaranum og var allt í einu kominn heim. Og þá kom þessi tilfinning svo sterk; það þarf ekki að syngja sum lög aftur -- þau hafa verið sungin...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Farðu til Krítar þar færðu fullt af kassettum he he

Einar Bragi Bragason., 6.9.2007 kl. 23:56

2 Smámynd: Grétar Örvarsson

Ég heyrði þá sögu að ekki alls fyrir löngu hafi "Bo" verið að syngja úti á landi og þá í pásunni hafi einn aðdáandi komið til hans og sagt ; Björgvin, ég á allar kassetturnar með þér !

Grétar Örvarsson, 7.9.2007 kl. 02:21

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Kannski fer ég til Krítar og sel allar kasetturnar mínar og verð ríkur! Takk fyrir að líta inn strákar.

Eyþór Árnason, 7.9.2007 kl. 16:43

4 identicon

Ég kom nú einu sinni í tónlistarbúð í SANAA, Yemen. þar var til fullt af tómum kasettum og miðum. Þarna voru líka masterar, svo var bara hlaðið inn og miðar límdir á. Ef eitthvað lag náði skyndilega vinsældum þá gat það ekki orðið uppselt þarna. Ef einhver vildi bland þá var hægt að útbúa það. Ef Eyþór hefir áhuga þá getur hann fengið eina. Ég hermdi eftir Ladda þarna í búðinni arabarnir hlógu alltaf að sömu setningunni (Alltaf í boltanum Hemmi minn) sagði ekkert annað, þeir skildu ekki neitt.

Gestur Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband