10.9.2007 | 09:03
Helgarskýrslan
Ég held að sunnudagskvöld sé gott til að setjast niður og ná áttum. Ef ég lít til baka þá fékk ég mikið áhyggjukast um hádegi á föstudaginn. Gamli Nokia-síminn minn dó og fékkst ekki í gang þó Siggi Einars vinur minn legði hendur yfir hann, rifi hann í spað og setti hann saman aftur. Takk Siggi minn! Ja, nú voru góð ráð dýr. Andskotinn, það eru örugglega allir að hringja í mig var tilfinningin sem greip mig. En viti menn, ég komst yfir gamalt símaræksni sem enginn vildi nota og er alsæll. Að vísu kann ég ekkert á hann en það gerir ekkert til. Það er ekki víst að neinn hringi. Eftir smá partý í vinnunni á föstudaginn sótti ég pizzur handa familíunni og kvöldið leið. Settist við tölvuna um ellefuleytið og ætlaði að skrifa en fór að hlusta á Jónas tala við Jón Baldvin. Það var gaman. Það er alltaf gaman að hlusta á fólk sem stendur ekki í og hefur frá einhverju að segja. M.a. sagði Jón frá því að hann hefði haft ritara. Þá bætti Jónas við að skáld nokkurt hefði haft þrjá ritara og gengið á milli herbergja og verið með þrjár sögur í takinu. "Churchill var með 12 ritara þegar best lét," sagði þá Jón, "enda stóð hann í heilli heimsstyrjöld." Maður ætti kannski að fá sér ritara.
En nú slær niður í hugann öðru föstudagskvöldi er ég var staddur í vinnuferð í Vestmannaeyjum ásamt félögum mínum að leita að söngstjörnum framtíðarinnar. Var vinnu lokið um kvöldið, búið að lesta bílana, allir frekar dasaðir og stefnan í Herjólf morguninn eftir. Ekki hreyfðist flipi á dós, lítið í sjónvarpinu svo við kveiktum á Kvöldgestum á rás eitt og stemningin var baðstofuleg. En Þá var hurðinni skyndilega hrundið upp og inn snaraðist einn úr unga genginu sem gisti í öðru húsi og var galsi í honum. En það dró að vísu fljótt niður í honum. Ekkert heyrðist nema malið í kvöldgestinum. Þarna stóð sá nýkomni eins og steinrunninn á miðju gólfi og starði á okkur eldri mennina. Kvöldgesturinn malaði og Jónas spurði. Svo fékk drengurinn málið og sagði: "Hvað er þetta? Hvar er ég? Er þetta elliheimið Grund?" Fór nú kliður um kofann, menn ræsktu sig og vörpuðu af sér brekánum, teygðu sig í næstu dós, flipinn laus og við teknir í sátt og gott ef við sungum ekki "Minning um mann" er líða tók á. En hver kvöldgesturinn var man ég ekki.
Laugardagurinn fór í vinnu við Spánverjaleikinn. Eini kosturinn við það var að geta horft á leikinn úr glerhúsinu í nýju stúkunni því ekki get ég montað mig af mínu vinnuframlagi! Þegar ég kom heim sá ég svo lokin á góðri þýskri mynd um Stasí. Gleymdi mér svo við góða tónlist inn í nóttina. Sunnudagur er búinn þegar þetta er skrifað. Ég var rólegur, var eitthvert slen í mér. Fékk mér samt kaffi hjá Önnu systur sem ég geri alltof sjaldan. Grillaði svo í kvöld eins og besti húsfaðir í vesturbænum og er allur að koma til. Skrepp í Borgarfjörð í kvöld að veiða og byrjaður að hlakka til. Ég held það sé það besta við veiðitúra. Að hlakka til... og setja saman stöngina. Hitt veltur á ýmsu. Og þar með er helgarskýrslu lokið.
Athugasemdir
Það er bráðhollt fyrir sálina að hlusta annað slagið á Jónas, ég legst stundum á gólfið með heyrnartólin á eyrunum og hlusta á hann og ná algjörri slökun. Bráðnauðsynlegt.
Gaman að lesa svona helgarskýrslur.
Má líka til með að nefna það að ég borðaði reyktan Mývatnssilung í síðustu viku sem pabbi og mamma höfðu skilið eftir í ísskápnum. Hann rann ljúft niður.
Bið að heilsa.
Rúnar Birgir Gíslason, 10.9.2007 kl. 12:35
Þetta er skemmtilegt, þegar við vorum að gera þáttinn Meistara var öllu stjórnað gegnum gömul hljómflutningstæki. Stundum stoppaði allt hljóð úr tækjunum og þá sprautaðu Gísli Valdemarsson einhverju efni inn í græjurnar og allt komst í gang aftur. Þú ættir að reyna að finna þetta efni og sprauta inn í símann. Hvar verður 20 ára afmæli Heilsubælisins haldið. Mig vantar Dr. Saxa til að skoða nemendur í Október.
Gestur Gunnarsson , 11.9.2007 kl. 19:57
Ef allt þrýtur má prófa að míga inn í símann, til að komast hjá vandræðum verður að taka batterýið úr áður.
Gestur Gunnarsson , 12.9.2007 kl. 07:02
Ég heyrði í þeim félögum á föstudagskvöld. Það er dásamlegt að sofna undir svona mali. Ekki það að þeir hafi verið leiðinlegir. Það er bara svo gott að sofna með útvarpið í gangi.....og talmál
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 13.9.2007 kl. 07:51
Ég er sammála því að það getur verið notalegt að hlusta á Jónas öðru hvoru. Var ekki sjálfur Jón Baldvin hjá honum síðast ?
Grétar Örvarsson, 13.9.2007 kl. 18:13
Sjálfur Jón Baldvin.
Eyþór Árnason, 13.9.2007 kl. 21:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.