Haustið kom á gluggann

Í nótt hafa vindarnir blásið / á norðurgluggann og sagt: / Við erum haustið.

Þannig byrjar ljóðið "Haustið kom á gluggann" eftir Stefán Hörð Grímsson, en það kom upp í hugann er ég brá mér lopapeysuklæddur út í kvöld. Haustlegur vindur stóð upp götuna en ég kominn í lopapeysuna albúinn í slaginn. Stóð í slagveðri við Urriðaá á Mýrum í gær ásamt Inga svila mínum og þessi litla á, Urriðaá, sem oftast er fær á tékkneskum gúmmískóm, var orðin að stórfljóti svo við þurftum að vaða hana öxl í öxl svona til öryggis. Og manni varð kalt á höndunum. Ég varð svo krókloppinn að ég náði vart að þræða maðk á öngul, hvað þá hnýta flugu á. Langt síðan ég hef orðið svona loppinn. Maður verður nánast ósjálfbjarga og mun ég setja inn eina góða "loppusögu" síðar. Og það kom á daginn að gott er að eiga frystikistu! Við komum heim með fjóra laxa og vorum ansi masknir með okkur. Ég grátbað svo félaga minn um að fá að geyma hans fiska í fínu kistunni. Hann brást vel við, enda drengur góður, og nú lúrir stolt frystikista í Vesturbænum með botnfylli af löxum, eða botnhyl eins og stundum var sagt þegar maður var búinn að fylla dolluna sína í berjamó forðum daga. En nú frjósa trúlega öll ber í nótt, svo það er fátt til bjargar nema ef væri Ian Anderson sem spilaði og söng í Kastljósi í kvöld. Og Stefán Hörður, sem heldur áfram:

Og ég hef hlýtt á vindana / og hjúfrað mig niður, / hjúfrað mig niður og sagt: / Sofa, sofa.

En frá spegli draums / hefur spottandi mynd þín / blasað við mér / bleik og þögul.

Og ég hef risið upp við dogg, / róað mitt angur og sagt: / Sofa, sofa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Gulli var búin að plana að fara að veiða á Gíslastöðum í dag. Svo hringdi frændi hans sem var að veiða þar í gær og það er allt á floti. Efast um að minn nenni í yfirfulla ána í þessum kulda. Hefur þú veitt á Gíslastöðum í Hvítánni. Gulli er formaður árnefndar og selur veiðileyfi.....

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 14.9.2007 kl. 09:40

2 identicon

Þræða maðka hvað?

Ragnar Hólm (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 00:42

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir að fylgjast með mér Ragnar minn, en það er erfitt að gleyma uppruna sínum! Hvaða agn má nota á Gíslastöðum?

Eyþór Árnason, 15.9.2007 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband