Fullt tungl

Þegar ég leit út um eldhúsgluggann áðan sá ég tunglið og hrökk við. Þarna dólaði það í rólegheitum, alveg fullt. Til að vera viss kíkti ég í vasabók rafiðnaðarsamdsins (á ekki almanak Þjóðvinafélagsins) og mér brá. Tunglið var nefnilega fullt í gær. Þess vegna hef ég verið eins og ég var í gær. Jæja sleppum því, en það er eitthvað svo gott við fullt tungl. Að líta út í hlýtt haustið og tunglið á litinn eins og haustlaufin hafi lagst á það og svo einhvernveginn stærra en venjulega. Ég man síðsumarstungl yfir Goðdalakistu sem var svo stórt, að maður var að hugsa um að skreppa upp í kvöldkaffi. Þegar ég sleit mig frá tunglinu hlýddi ég dóttur minni yfir dönsku. Hún gat varla svarað fyrir hlátri, því svo "góður" var framburðurinn hjá mér. Ég komst sem sagt að því að ég kann ekki að bera fram dönsku! Þó gengur mér sæmilega að gera mig skiljanlega við Dani ef ég hitti þá á förnum vegi. Það er vandlifað. En ég hefndi mín á stelpunni með því að draga upp "Kristjaníuplötuna" (en það er frábær baráttuplata fyrir Kristjaníu sem var gefin út 1976) og lét hana syngja með. Svona er maður sniðugur. Annars eru þættir um bókmenntir og listir í sjónvarpinu farnir að tefja mann frá uppvaskinu. Og tunglið og danskan. En Sjö bræður bíða rólegir og hesturinn sem hvarf hefur ekki fundist. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband