30.9.2007 | 23:30
Að stjórna landinu - helgarpistill
Það fer oft mikill tími um helgar í blaðalestur. Sá í Lesbókinni að Matthías Jó. er með ljóðabók á netinu. Gaman hugsaði ég, því akkúrat núna er ég með eina ljóðlínu eftir hann í hausnum. Hún er úr bókinni sem ég keypti í Krónuhúsinu um daginn... "og þá er einsog þögn við vatnið syngi / og þú sért minning fugls um vatn sem deyr". Fallegt. Ég les líka alltaf dagbók Þráins í Fréttablaðinu og er allur betri á eftir. Til dæmis kveikti hann í mér í dag. Hann sagðist stundum skilja eftir á förnum vegi bækur sem hann væri búinn að lesa svo aðrir gætu notið þeirra líka. Þetta fannst mér sniðugt. Ég hugsaði með mér að nú ætti ég að taka bók sem ég væri búinn að lesa og labba niður í Grjótaþorp og banka uppá hjá Þráni og segja: "Hér er bók sem ég er búinn að lesa." Svo hugsaði ég meira. Hvaða bók? Og komst að raun um að ég myndi aldrei tíma að gefa bók sem ég ætti! Svona er maður skrítinn. En allt þetta kom mér til að hugsa: Af hverju gerir maður ekki stundum eitthvað óritskoðað? Svo kom það skyndilega án nokkurs undirbúnings eða hugsunar:
Eftir ísbíltúr í dag var ég að keyra framhjá Alþingishúsinu og sé Össur ráðherra á leið í bílinn sinn. Hann var að tala í símann. Alltaf mikið að gera hjá þessum ráðherrum hugsa ég. Um leið og ég renni fram hjá ráðherrabílnum og Össur er að setjast undir stýri sé ég að afturhurðin farþegamegin er hálfopin. Og það skipti engum togum, ég negli niður og snarast út, opna afturhurðina hjá ráðherranun, hann í símanum og hrekkur við við þessa innrás. Ég segi: "Hurðin var ekki alveg lokuð" og skellti aftur hurðinni á ráðherrabílnum, veifaði og stökk upp í minn bíl og hvarf vestur í bæ. Þannig að í dag hef ég staðið mína plikt og hjálpað til við að stjórna landinu með því að spara tíma ráðherrans. Hver þekkir það ekki að þurfa að fara út úr bílnum aftur þegar maður fattar að ljósið í mælaborðinu segir: "Opin hurð"!! En hvað Össur hugsar veit ég ekki.
Fór síðan beint á bókamarkaðinn í gamla Krónuhúsinu og keypti nokkrar ljóðabækur. Já ég veit það. Mér er ekki viðbjargandi. Heimsótti svo tengdó og við skoðuðum gamlar myndir, m.a. af ungum mönnum í vegavinnu norður í landi á þeim árum Þegar menn brúkuðu hest og kerru. Og það minnir mig á það að eftir því sem ég best veit er hesturinn sem hvarf í Tröllaskagann ófundinn.
Athugasemdir
Velkominn í bloggvinahópinn raunvinur. Gott að hafa þig á lista til að fylgjast með heilabrotunum og fjörbrotunum.
Gott ef fleiri væru svona meðvitandi þegnar og skilja að í öllu litlu ættum við að gera heildinni til góða. Þá gætum við líka lagst með tærnar upp í loft og lesið göfug ljóð án samviskubits.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.10.2007 kl. 00:54
Góður karl
Einar Bragi Bragason., 1.10.2007 kl. 09:13
Það er alltaf gaman að vera "spontant". Var einmitt að hugsa um á sunnudaginn, að henda mér út úr bílnum þar sem ég keyrði framhjá þér - og smella kossi á kinnina þína........ En svo var ég bara ekki svona spontant.......
Ingibjörg Gunnarsdóttir, 2.10.2007 kl. 09:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.