3.10.2007 | 00:09
Gangbraut
Það er blár himinn á myndinni, gangbraut í forgrunni, hvít bjalla hálf uppá gangstétt og fólk í fjarska. Á gangstéttinni hinumegin stendur maður ekki ósvipaður Peter Sellers og horfir til mín. En þetta er nú trúlega ekki hann. Það er ekki mikil umferð svo fjórir menn notfæra sér gangbrautina og ganga yfir. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir menn, og þó. Fyrstu þrír eru býsna fínir, allir í jakkafötum, en sá fjórði er í gallafötum og hefði hann trúlega ekki komist inn í þessum fötum á betri skemmtistaði í R.vík í den. En hann er fallegur. Eins og engill. Sá þriðji í röðinni er berfættur og gengur ekki í takt við hina. Annar í röðinni er í blankskóm og fínum fötum, eins og afi minn þegar hann fór að kjósa. Sá fyrsti er í strigaskóm og hvítum fötum og það er eins og það séu að byrja að vaxa á hann vængir. Hann er líka engill í dag. Og bráðum verður kveikt á ljósinu í Viðey. Því hefur verið fleygt að miðjumennirnir á gangbrautinni komi kannski hingað upp og horfi á ljósið. Það væri viðeigandi. Sumir segja að þeir ætli að búa á Hótel Borg. Ég ætla að finna mér gangbraut og bíða. Bíða og sjá eins og sá sem er svo líkur Peter Sellers.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.