7.10.2007 | 01:13
Síðasta lag fyrir fréttir
Laugardagsmorgnar eru góðir. Ef maður nær að vakna sæmilega snemma, elda hafragraut og lesa blöðin er maður nokkuð góður. Í dag var þetta tekið á hundavaði af því ég þurfti að mæta í vinnu eftir hádegi. Ég bíð oft spenntur eftir hvað er í lesbók Moggans. Og hvað fann ég þar? Jú, Stefán Íslandi átti hundrað ára afmæli í gær, 6. okt. Hann er að vísu dáinn blessaður, en samt;hundrað ár eru hundrað ár. Hver var þá Stefán Íslandi? Það er best að lesa lesbókina til að komast að því, en ég man þegar ég var lítill þá fannst mér þetta vera eini Skagfirðingurinn sem var frægur. Á einhvern hátt skynjaði ég frægðina, þó fullorðna fólkið talaði bara um Stebba litla. Og svo meðan ég fékk mér skyr undir tilkynningum á undan fréttum á Gufunni varð ég viss. Þeir klikka ekki á þessu. Stebbi fær að syngja síðasta lag fyrir fréttir. Ég borðaði skyrið og beið. Og hlustaði. Og svo kom lagið. Og það var rétt lag. Ökuljóð. Ég hlustaði og skyrið var óhreyft á meðan. "Stefán Íslandi söng" sagði látlaus þulurinn og endaði á að segja frá því að upptakan væri frá 1937. Það hefur margt gerst síðan. En, ..."Áfram veginn..."
Athugasemdir
Það var Magnús Ó Hvammstangi sem gerði Stefán Íslandi alveg klumsa einu sinni með því einu að segja honum nafnið sitt þegar Stefán kynnti sig fyrir honum. Annars veit ég ekki neitt um þennan Magnús, en sagan er ágæt.
Svo var það Selfyssingurinn Gylfi Þ. Gíslason sem var rekinn af leikvelli í knattspyrnuleik fyrir mörgum árum fyrir það eitt að segja rétt til nafns. Ég held meira að segja að þessi sé sönn.
Sæmundur Bjarnason, 7.10.2007 kl. 02:13
Ég held að þetta lag hafi verið tekið upp í Norðurlandaferð Karlakórs Reykjavíkur þetta ár, 1937. Faðir minn söng með kórnum þetta ár og sagði mér frá því að söngur Stefáns hefði hrifið áheyrendur allstaðar svo mjög að dómar í blöðum hefðu nær allsstaðar beinst að einsöngvaranum. Í einhverju norsku blaðanna var kórinn borinn saman við Don kósakkakórinn. vegna þessa rússneska lags. Kórinn sagði blaðamaðurinn að hefði staðið þeim rússneska nokkuð að baki. En einsöngvarinn í þessu lagi hefði verið ólíkt betri en sá rússneski.
Í stuttu máli held ég að þetta lag verði ekki sungið betur en Stefáni tókst að gera á þessari upptöku.
Rípurkirkja var vígð árið 1925 eftir endurbyggingu. Faðir minn vann við smíðina og söng tvísöng með Stefáni við athöfnina. Valtýr heitinn á Geirmundarstöðum var viðstaddur og sagði mér eitt sinn að hann hefði aldrei á ævinni heyrt betur sungið. Og auðvitað þótti mér ákaflega vænt um að heyra þetta. Faðir minn var látinn þegar við Valtýr áttum þetta samtal svo mér auðnaðist ekki að spyrja hann nánar um þetta atvik.
Árni Gunnarsson, 7.10.2007 kl. 19:53
Gaman að heyra þetta Árni, en kannski ein spurning: Halda Skagfirðingar minningu þessa kappa á lofti? Ætti ekki að reisa minnisvarða í Varmahlíð?
Eyþór Árnason, 8.10.2007 kl. 00:59
Og Sæmi... Ég hef stundum verið að leita mér að viðbót við mitt nafn, en ekki fundið neitt.
Eyþór Árnason, 8.10.2007 kl. 01:02
Hvernig væri "Allraljúfur" sem viðbót Eyþór minn.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2007 kl. 01:40
Síðasta lag fyrir fréttir er sko algjört möst! Á mínu heimili var að sjálfsögðu keppni um hver var fyrstur til að segja til hver söng og hvert lagið var. Ég hlusta alltaf á rás eitt klukkan 12:15
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 8.10.2007 kl. 07:27
Þó ég sé brottfluttur eins og þú þá reyni ég að fylgjast með góðum viðburðum heima í Skagafirði. Ekki veit ég til að Stefáns hafi verið minnst með neinum veglegum tilburðum síðan hann tók sína hinstu gistingu í héraði bernskunnar.
Nú ætti það að verða næsta verkefni Tónlistarfélags Skagafjarðar að minnast þessa merka listamanns með glæsibrag eins skagfirskri sönghefð sæmir.
Við vonum það besta.
Árni Gunnarsson, 8.10.2007 kl. 15:40
Sá á Skagafjordur.com að Stefáns frænda míns verður minnst af Karlakórnum Heimi. Verður forvitnilegt.
Svo var þáttur á Rás1 á föstudaginn, Sagnaslóð. Jón Ormur með klukkutímaþátt um Stefán.
Rúnar Birgir Gíslason, 11.10.2007 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.