8.10.2007 | 00:44
Miðnætti
Ég er búinn að sitja góða stund við tölvuna og skemmta mér við að lesa bloggvini mína og nú er komið miðnætti. Helgin búin og mánudagsnóttin tekin við. Búinn að setja Savage Rose í heyrnartólin og fyrir utan slökkva nágrannarnir ljósin hver af öðrum. Þetta var fín helgi. Vinna bæði föstudags- og laugardagskvöld, en það er það sem koma skal í vetur. Já svona eru örlögin. Og "Laugardagslögin". Sá á blogginu að ekki voru allir sáttir við þau. Horfði á "Silfrið" á nýrri stöð. Ætli Egill lendi ekki á Sýn næst. Komst að raun um eins og ég hef alltaf vitað að ég skil ekkert í bissness og pólitík. Eina sem ég held er að bissnessmennirnir séu komnir langt á undan stjórnmálamönnunum. Móðir mín er í bænum og kom og húsvitjaði í dag. Það hækkaði í frystikistunni og nú finnur hún til sín, þar sem hún heldur utan um vetrarforða fjölskyldunnar. En við mamma skruppum snögga haustlitaferð á Þingvöll, þar sem þjóðin varð til og Jónas og Einar frændi eru grafnir. Veðrið var einstakt og var þetta hinn besti túr. Og nú er allt rólegt. Tómas Koppel þenur nikkuna í eyrunum og Anisette syngur með hjartanu "Min lille sol". Það styttist í að Yoko kveiki ljósið. Svo er að sjá hvort fuglar reyni að tylla sér á súluna. Það yrði gaman. Svo að lokum; ekkert hefur spurst til hestsins sem hvarf í fjöllin.
Athugasemdir
Þú skapar svo fagrar stemmningar kæri vin að maður sofnar með logn í kollinum.
Guð gefi þér góða nótt.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2007 kl. 01:43
Þú hefur valið þér góða móður - það er ekki spurning. Og að fara svo með hana í haustlitaferð á Þingvelli - það sýnir hvað hún er heppin með son. Ég er sammála síðasta ræðumanni - það er logn í færslunni.
En - ættum við að gera út leiðangur - til að finna hrossið?
Ingibjörg Gunnarsdóttir, 8.10.2007 kl. 09:08
Það gladdi mitt litla hjarta að sjá að næmt tóneyra þitt skuli hafa fangað snilldina sem býr í Savage Rose. Dödens Triumf opnaði gáttir á sínum tíma.
Snorri Sturluson, 8.10.2007 kl. 17:33
Takk fyrir mig, Jón minn, takk. Það er búið að leita heil ósköp að hestinum Ingibjörg mín. Og Snorri; Dödens Triumf er einmitt einsog dósaopnari á heilann.
Eyþór Árnason, 8.10.2007 kl. 23:15
Hér syngur hún blíðlega blessunin.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2007 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.