14.10.2007 | 16:53
Betra seint...
Fyrir mörgum árum fór ég inn í plötubúð sem oftar. Eftir að hafa gramsað í rekkunum góða stund fór ég að spjalla við afgreiðslumannninn sem ég kannaðist aðeins við. Ég sagðist vera svo leiður á allri tónlist sem ég ætti og spurði hann hvort hann væri ekki með eitthvað öðruvísi, eitthvað sem myndi hrista upp í mér. Eftir nokkrar uppástungur, sem fengu ekki miklar undirtektir hjá mér, dró hann fram skrítið albúm og spurði: "Hefurðu hlustað á þennan?" Ég kvað nei við og hann setti nálina á plötuna og ég hlustaði. Undarlegir tónar bárust í eyrun. Þetta var skrítin tónlist. Næsta lag kom og ekki batnaði það. Ég bað búðarmanninn að snúa plötunni við og enn versnaði það. Hvað var hann að láta mig hlusta á? þetta voru meiri andskotans leiðindin. "Mér líst ekki á þetta," sagði ég en þakkaði samt fyrir mig og fór út plötulaus í þetta sinn en afgreiðslumaðurinn sem var að byrja að verða vinur minn horfði á eftir mér sorgmæddur á svipinn. Ég hugsa að honum hafi liðið eins og trúboða sem hefur mistekist að kristna heiðinga. Jæja, árin líða. Í útvarpinu eru stundum spiluð lög með þessum undarlega tónlistarmannni svo ég kemst ekki hjá því að heyra í honum. Meira að segja búnar til þáttaraðir um hann. En ég frelsast ekki. Það eru haldnir tónleikar til heiðurs honum hér á landi og skrifað í blöðin. En ég er þver. Samt áskotnuðust mér fyrir mörgum árum þrjár plötur með honum. Ég nennti aldrei að hlusta á þær. Svo seint í gærkvöldi sit ég inni í stofu og ekkert að gerast í sjónvarpinu, nema Zorro á bíórásinni, og þótt Banderas og Kata Z Jóns séu sæt brá svo við að mér varð litið í plötuskápinn og dró út plötu með lofandi mynd framan á. Það er best að reyna einu sinni enn að hlusta á þennan fjanda, hugsaði ég og setti Swordfishtrombones með Tom Waits á. Kvöldið leið og Tom Waits tók völdin. Ég hlustaði á báðar hliðar frá upphafi til enda og eitt lag þrisvar sinnum og hugsaði að kannski hefði vinur minn í plötubúðinni forðum daga haft eitthvað til síns máls. Ég ætla að hlusta aftur í kvöld. Batnandi manni er best að lifa.
Athugasemdir
Já hann er erfiður við fyrstu áheyrn og minnir á eitthvað ræræ hjá róna sem erð að líða útaf, en svo opnast heill heimur undurfagurra og ljúfsárra melódía og sætlegs trega, sem algerlega fangar mann og á sér samhljóm í hrjúfum veruleikanum. Oft er engill undir hrjúfu skinni. Það sannast á honum. Þetta er sko ekkert gutl, heldur alvöru tónsmíðar og svo fær hann yfirleitt rjómann af tónsnillingum veraldar til að spila undir með sér.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 18:48
Ég hélt fyrst að þú værir að tala um Frank Zappa. Gott að vita að þú er farinn að meðtaka meistara Waits. Mæli með laginu "I don't wanna grow up" af Bone Machine frá '92. Það er tónsmíð sem heldur manni ungum.
Egill Harðar (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 20:02
Sælir drengir og takk fyrir að líta inn. Já ég er nokkuð ánægður með mig að vera kominn af stað með að hlusta á kallinn og það er rétt hjá þér Jón minn að þarna er nóg af trega. Og ég finn að ég er rétt að taka bréfið utan af pakkanum.
Eyþór Árnason, 15.10.2007 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.