22.10.2007 | 22:34
Ljóð dagsins
Eftir að hafa lesið "Hvíta tjaldið" eftir Stefán Hörð spurði bloggvinur minn hann Árni Gunnarsson hvort enn væri ort svona á íslensku. Ég var hugsi smá stund og hugleiddi svar. Því að bera saman ljóð er svolítið snúið. Hvíta tjaldið eftir Stefán er auðvitað einstakt og svo skrítið sem það hljómar held ég að það höfði meira til Norðlendinga en annarra. Hef ég þó ekkert fyrir mér í því nema einhverja tilfinningu. Sá ljóðahöfundur sem ég hef lesið mest af á undanförnum árum er Gyrðir Elíasson. Hjá honum finn ég einhvern óm eða andblæ sem passar við mig. Og svo fæ ég haustgjöf í þessari andrá. Á koddanum mínum liggur með haustkveðju frá krökkunum Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Ég handleik hana í plastinu og er glaður. Ég hlakka til að lesa. Hún er ekki þykk þessi bók en hún er falleg. Eins og allar bækurnar hans Gyrðis. Fallegar að utan sem innan. Sandárbókina set ég í töskuna mína og fer með hana austur, því í fyrramálið verður flogið yfir jökla og leitað að röddum. (Og af því ég er á leið austur minni ég á bókina Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást eftir Ingunni Snædal). En það er viðtal við Gyrði í menningarblaði (lesbók) Fréttablaðsins. Og þar kemur fram að Gyrðir sé höfundur fárra og selji bara tvö til þrjú hundruð eintök af hverri bók. Já þetta er skrítinn heimur.
Kvöld í október eftir Gyrði Elíasson
Af gulnuðu túninu / horfi ég út á sjóinn / sé skerið með vitanum
Þegar skyggir / er ég enn á túninu / heyri þyt í hauststráum / og græn ljósin berast / utan af hafinu
Himinninn stráður / stjörnum / og þarna / er tunglið gamla
Ég leggst / í grasið / og þá kvikna / norðurljós
Það eru / ljósin / heima
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.