Rauðmagi og prins

Fór upp í Mosfellssveit í dag og hlustaði á menn segja sögur. Þetta var miðdegisspjall á Gljúfrasteini og þarna voru mættir Björn G. Björnsson, Jón Þórisson og Sveinn Einarsson og sögðu frá vinnu sinni við kvikmyndina Brekkukotsannál árið 1972. Þetta var hin besta stund og komu margar góðar sögur. Jón taldi að það erfiðasta props sem hann hefði unnið með væri kýr sem vildi aldrei leika eins og hún átti að gera og Bjössi sagði frá 50 rauðmögunum sem hann keypti úti á Ægisíðu í mars til að eiga þegar myndatakan byrjaði um sumarið. Voru rauðmagarnir látnir endast fram í nóvember er tökum lauk, en það var víst farið að slá í þá að lokum. Já svona er þetta; síðasta sunnudag horfði ég á mynd um Bjólfskviðu og í dag hlustaði ég á gamlar kvikmyndagerðarsögur og komst að því að það rigndi mikið og leikmyndin fauk í Brekkukotsannál, eða eins og Sveinn sagði: "Við notuðum ansi oft tökuplan B". Svo vinur minn Jón Steinar leikmyndasnillingur með meiru hefur sennilega rétt fyrir sér í athugasemd við síðasta blogg þar sem hann reynir að koma fyrir mig vitinu. Takk Jón minn! Enda sit ég nú hér í Vesturbænum og er alveg sallarólegur og voða feginn að vera bara inni og gera ekki neitt.

Fór á Neskaupstað með liðinu og við  fengum söngvara af Austfjörðum til að syngja fyrir Bubba. Og það er sama hvar maður kemur, það er allt gert fyrir mann. Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar tók á móti okkur og söng og frúin gaf okkur kaffi. Takk fyrir kaffið og diskinn. Húsráðendur á Rauða torginu pöntuðu rafstöð til öryggis ef það skyldi slá út og Stalín starði á mann ofan af veggnum við barinn. Lenín hafði aftur á móti hægt um sig uppi í hillu Og svo var gott veður. Nema daginn sem við komum heim. Þá var rok. En það kom að sunnan. Þetta var síðasti túrinn út á land í bili. Var ekki laust við að það væri smá depurð eða tregi í hópnum er heim var komið. Er þetta fimmta árið í röð sem sum okkar hafa farið í söngvaraleitir á haustin. Og við getum verið stolt yfir því sem er í húsi. Og þó að nokkrir gemlingar sleppi er alltaf skemmtilegt að heimta útigengið fé.

En aftur að rauðmögunum. Þegar gamla góða prins pólóið skipti um útlit og bragð um árið stökk ég til, heimsótti Ásbjörn Ólafsson og svældi út úr þeim einn pakka af alvöru prins pólói. Þessi pakki á að vera til, djúpt grafinn í pappakassa lengst inni í fullum gámi af gömlu drasli bakvið hús uppi á Laugavegi. Rauðmagasöguna hafði Björn Georg fóstri minn sagt mér í gamla daga og þetta með prins pólóið var tilraun til að sýna að eitthvað hefði síast inn. En hvort ég finn það þegar spurt verður veit ég ekki.   

Ég er hálfnaður með Sandárbókina hans Gyrðis. Ég fer mér hægt. Ég treina mér hana. Ég er þegar orðinn ástfanginn af konu í rauðri regnkápu. Og loðsilungur lætur á sér kræla. Ég er farinn að kannast við mig ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Takk fyrir komuna, þetta var verulega gaman og verður skemmtilegt að sjá útkomuna. Kær kveðja að austan.

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 29.10.2007 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband