Rok

Mér finnst hann vera að hvessa. Það hriktir smá í þakinu, ábreiðan blaktir á grillinu, það hvín í glugganum og svalahurðin er ótrygg. Ég hefði betur gert almennilega við hana í sumar. En stundum er ég svona. Læt hlutina damla áfram og syndi með. Ég er stundum hálfgerður selur. Mesta furða hvað ég flýt. Annars er þetta ekkert rok. Þegar maður er fæddur undir Sólheimafjalli í Blönduhlíð og hefur reynt að skríða í húsin til gegninga í austanveðri þá má töluvert ganga á svo maður tali um rok. Enda ef ég hringi norður og karl faðir minn segir að það sé ansi hvasst þá veit ég að það er glórulaust veður.  Austanveður í Blönduhlíð eru ótrúleg. Merkilegt að eitthvað hangi þar uppi. Þarna vaka þúsund metra há fjöllin yfir sveitinni og manni finnst þau svo há að enginn komist yfir nema kannski fuglinn. Og manni finnst að þau ættu að stoppa vindinn. Annað mál með hafgoluna. Hún kemur klukkan ellefu á morgnana stundvís eins og strætó á góðum degi, enda engin fyrirstaða (nema Drangey og Hegranesið) allt norður í Íshaf. En austanvindurinn nær sér svona heldur betur á strik, steypist niður klettana og niður á heiðina, áfram yfir túnin og herðir sig frekar. Þrumar svo yfir bæinn, veginn og niður á eyrar og yfir Vötnin og deyr. Það er svo merkilegt að vestan við Vötnin er bara skaplegt veður. Hér er ég tiltölulega rólegur. Að vísu fer ábreiðan á grillinu fljótlega. Ég held hún sé ekki gerð fyrir svona nudd eins og hér er ævinlega. Ég fer þá bara í Seglagerðina og fæ mér níðsterkt segl. Kem við í Ellingsen, fæ mér snæri og enda í Húsasmiðjunni og kaupi þaksaum, því hér er ekkert kaupfélag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Sama vandamál með svalahurðina hér ....ætlaði að laga hana í sumar en mundi eftir henni nú er ég las bloggið þitt......shit he he

Einar Bragi Bragason., 31.10.2007 kl. 00:29

2 Smámynd: Fishandchips

Hvaða mál er þetta með svalahurðir okkar íslendinga? Mín er ekkert upp á sitt besta, síðasta vetur fann ég stundum smá skafl á stofugólfinu, en vinn í málinu

Fishandchips, 31.10.2007 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband