5.11.2007 | 01:38
Eftir miðnætti
Þegar þetta er skrifað er allt komið í ró. Ég lít út um gluggann. Reykjavík hefur slökkt ljósin og breitt yfir haus. Nema ég. Mér finnst ég bestur eftir miðnætti. Þá lifna ég oft við og fer að dunda mér. Og leysi allskonar lífsgátur, en man svo ekki lausnina morguninn eftir. Ég veit samt alveg hvað verður erfitt að vakna í fyrramálið. En mér er alveg sama. Núna. Því það er gaman að ímynda sér að vera einn vakandi og eiga heiminn. En ég á næturvin. Hann vakir í öðru húsi í allt annarri götu. Ég hef aldrei séð hann og veit ekki hvar hann á heima. Ég hef bara séð ljósið í glugganum hans langt í fjarska og hann slekkur alltaf á eftir mér. Ég hef oft hugsað um af hverju hann slökkvi ekki ljósið og fari að sofa eins og annað fólk. En þá man ég eftir mínum glugga. Uppljómuðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.