Léttúð

"... Hin dásamlega léttúð og hin fullkomna bjartsýni á núið ..." sagði Sigurður Pálsson í Víðsjá á rás 1 í dag. Þetta sló mig aðeins út af laginu, því í morgun er ég lá undir sænginni og safnaði kjarki til að kíkja á daginn samdi ég í huganum frábæra bloggfærslu og hugsaði gott til glóðarinnar. En svo heyrði ég í Sigga og hann tók mig í ferðalag þangað sem hann sat í París og sendi pistla heim í útvarpið. Það var á þeim tíma er allir hlustuðu á sömu stöðina og maður drakk í sig. Ég er staddur úti í hlöðunni útfrá. Það er vorkvöld á hásauðburði. Það er nokkuð létt yfir mér þetta kvöld. Vorsólin skáskaut sér inn um hlöðugluggana og úti var loksins vottur af vori. Og inni var ég liggandi í heystabbanum og leysti samanbarða töðu og við hliðina á mér var Siggi Páls í gráa philips-útvarpinu (þessu með handfanginu og stóru skífunni framaná) og sagði sögur frá Sólarleikhúsinu í París. Ég man að mér sóttist seint baráttan við stabbann, en það kom ekki að sök, Siggi sá fyrir því. Að vísu voru gemlingarnir orðnir bæði þyrstir og svangir, svo það hljómaði söngur úr krónum, þannig að Sigurður mátti hafa sig allan við. Alla leið frá París. Einnig þurfti að láta lömb sjúga og önnur kvöldverk biðu í fjárhúsunum niðurfrá. En eftir þetta vorkvöld í hlöðunni verð ég einhvern veginn alltaf svo glaður þegar ég heyri í Sigga, eins og raunin varð í dag þegar hann ruglaði mig ríminu og minnti mig á bjartsýni á núið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Blessaður, Eyþór,

Það er yndislegt að lesa bloggið þitt. Maður fær stemmninguna beint í æð og sér allt sem þú lýsir mjög greinilega í huganum. Takk fyrir mig.

Bestu kveðjur,
Lára Hanna

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.11.2007 kl. 23:34

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Góðar kveðjur. Sit og fylgist með rigningunni í Drápuhlíð í Rvík. Mikið næturgöltur er þetta á þér, frændi að blogga kl. 2 á nóttunni.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.11.2007 kl. 07:35

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svona minningar geta verið ótrúlega sterkar. Og ef þær eru ljúfar þá jafnast fátt í núinu á við þær.

Nú er ég kominn á þann aldur að ég safna þessum minningum. það má nefnilega ekki seinna vera.

Árni Gunnarsson, 9.11.2007 kl. 20:09

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Aldeilsi stórkostleg lesning og langtum upphafnari en absinthpistlar Sigurðar ljúflings Pálssonar.   Núið....jah...er eitthvað annað en það? Í mínum huga er engin æfi stutt eða löng aðeins eilífðaraugnablik núsins.  Þar skortir mig ekki og þar er klafi tímans víðs fjarri.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2007 kl. 23:22

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú átt að skrifa bók og hananú. (Zaraþústra hefir mælt)

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2007 kl. 23:24

6 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Ert þú einhvern tíma svartsýnn

Einar Bragi Bragason., 10.11.2007 kl. 01:31

7 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir innlitið og falleg orð. Já Ingólfur minn ég fer of seint að sofa! og Jón Steinar, þú segir nokkuð, en ég held að þú eigir sjálfur að gefa út bók. Þú átt fullt af frábærum sögum. Og Einar minn, ég er stundum svartsýnn!

Eyþór Árnason, 10.11.2007 kl. 23:18

8 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Eyþór minn það er beinlínis mannbætandi að lesa bloggið þitt. Væri ekki dásamlegt að geta bara hoppað til baka til þessarar gömlu, "einföldu" tilveru, þegar ekki var talað um hluti eins og útrás, heildarlausnir eða hvað það nú heitir allt í nútímanum sem getur gert mann doldið frústreraðan. Ég man þessa dásamlegu daga allt aftur til ársins 1956 eða þar um bil. En það er nú samt dásamlegt að vera til í núinu.

Guðrún Olga Clausen, 11.11.2007 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband