Ísbjörn

"Ekki er mark að draumum," sagði Sturla forðum daga, en mig dreymdi ísbjörn í nótt. Það er ekki á hverri nóttu sem mann dreymir ísbjörn. Og mér stóð ekki á sama, vaknaði, fór fram og fékk mér vatn. Að vísu man ég sjaldan drauma mína og ég man mjög lítinn bút úr þessum: Mér fannst ég vera staddur uppi á túni heima í Skagafirði. Það var margt fólk með mér, en hvað við vorum að gera er mér hulið. Þá verður mér litið til norðurs og sé hausinn á bangsa gægjast yfir girðingarhorn (þekkti hornið greinilega). "Þarna er ísbjörninn," kallaði einhver, eins og það væri von á ísbirni um hásumar í Skagafirði, því það var sumar í draumnum. Og í sömu svifum vakna ég, svona eins og ég vakni við kallið. Ég er stund að vakna og á meðan hugsa ég um hvernig ég eigi að bjarga fólkinu og hvort það sé bíll þarna uppi á túninu til að flýja á og ég rifja upp í snatri gamlar heimskautasögur og ráð til varnar ísbjörnum. Brátt er ég búinn að sækja byssu og svo er ég kominn í símann og tala við neyðarlínuna og áður en ég veit af er umhverfisráðherra kominn í símann og við berum saman bækur okkar um hvort ég eigi að skjóta dýrið eða láta það sleppa upp fjallið og austur á Silfrastaðafjall því þangað fannst mér það stefna. Þegar hér er komið sögu fæ ég mér vatnið og við það bráir nokkuð af mér. Ég leggst upp í aftur, en mér er ekki rótt og upplifi mikla baráttu við ísbirni alveg glaðvakandi. Um síðir sofna ég aftur. Nú þegar þetta er skrifað er ég nokkuð viss um að ísbjörninn lifði þetta af og fólkið sem var með mér einnig. En ég er líka nokkuð viss um að bangsi er á röltinu í drögunum sem ganga austur úr Bólugilinu og bíður þar eftir mér ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Góð fylgsni fyrir birni í Silfrastaðaskógi. Ég horfi eftir honum þegar ég fer fram eftir næst:-)

Sigríður Gunnarsdóttir, 19.11.2007 kl. 20:03

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Áttu draumaráðningabók - eða þekkirðu draumspakt fólk? Gaman væri að vita hvað ísbjörn merkir í draumum. Og það, að það hafi sloppið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.11.2007 kl. 23:27

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég hef grun um af hverju mig dreymdi ísbjörn. Meira um það síðar.

Eyþór Árnason, 19.11.2007 kl. 23:53

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hefurðu verið að horfa á Ikingut nýlega?

Jón Steinar Ragnarsson, 20.11.2007 kl. 23:05

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nú bíð ég spennt, Eyþór. Geturðu athugað fyrir mig í leiðinni hvað nafnið Halldóra þýðir í draumum?   

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.11.2007 kl. 23:25

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Nei, ekki var það nú svo gott Jón minn, en mér flaug vissulega Ikingut í hug þarna um nóttina er ég var að jafna mig. En í fréttunum kvöldið áður var talað um afmæli nafna þíns Jóns Nonna Sveinssonar og gott ef ekki var sýnd mynd af bókarkápu með ísbirni á. Það þarf stundum ekki mikið til að hreyfa við manni. Og Lára mín: Ég á enga ráðningabók svo ég verð bara að kenna Nonna um þennan ísbjörn.

Eyþór Árnason, 20.11.2007 kl. 23:33

7 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Nýtt lag á spilaranum hjá mér eiginlega fyrsti kafli í verki.....og heitir Draumar.

Einar Bragi Bragason., 21.11.2007 kl. 00:28

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lára Hanna: Að dreyma nafnið Halldóra er fyrir daglátum og öðrum látum eins og ólátum og kvöldlátum.  Ku tengingin liggja í greiningunni hal og dúra, sem mun vera að sofa hjá hal eða bara sofa hjá. þetta á þó frekast við þegar dreymt er fyrir næturlátum nærurlátum.

Orðabók óvinafélagsins dregur hinsvegar þá merkinu úr draumnafninu að þar sé átt við orðin halla og dura, sem mun vera að halla aftur dyrum eða loka hurð og ku vera fyrir því að einhverstaðar munir þú koma að lokuðum durum í öllum daglátunum.

Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það og þykir báðar skýringar jafn líklegar. Hafa ber þó það sem fyndnara reynist.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2007 kl. 15:29

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þarna er einum næturlátum ofaukið. Nóg eru lætin víst samt.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2007 kl. 15:31

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir þetta, Jón Steinar...  til greina kemur að sameina bara lætin í fyrri kenningunni og luktu dyrnar í þeirri seinni - þá er þetta eiginlega komið hjá okkur og báðum kenningum gert jafnhátt undir höfði.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.11.2007 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband