Þögn

Ég fékk kvörtun þegar ég mætti í vinnuna í gærmorgun. Vinir mínir kvörtuðu yfir því hvað ég væri lélegur að blogga. Það liði langt á milli og ef svo héldi fram mundu þeir bara missa áhugann á mér. Ég yrði að herða mig. Ég varð hugsi smástund. Átti ég að móðgast? Eða ætti ég að vera ánægður og upp með mér? Þar sem ég á það til að móðgast ef það er fundið að við mig, þá ákvað ég að taka þessu sem hóli, sperrtist allur upp og gengið nokkuð brattur í dag. Og þá mundi ég eftir innskoti frá bloggvini mínum, Guðmundi Fjarðaforseta, um þögnina, þögnin getur nefnilega verið svo fjandi góð. Ég man eitt haust fyrir nokkrum árum, við söngsmalarnir vorum að skrölta hringinn. Ég keyrði sendibílinn með öllu draslinu. Á leið frá Akureyri austur á Egilsstaði var settur með mér maður til að mér leiddist ekki. Fátt var til skemmtunar; útvarp af skornum skammti, nokkrar slitnar kassettur með Cream og Bowie og svo var auðvitað eitthvað danskt marmelaði með. En okkur félögum leiddist ekki. Eftir að hafa leyst lífsgátuna á gamla kaupfélagshlaðinu í Mývatnssveit var haldið austur. Var létt yfir okkur upp Námaskarð. En það var eins og við manninn mælt; þegar við renndum yfir Jökulsá á Fjöllum lagðist þögn yfir trukkinn. Ekkert heyrðist nema díseldrunurnar og ekki var sagt orð fyrr en Möðrudalsöræfin voru að baki og farið var að halla niður á Jökuldal. Þá stoppuðum við og pissuðum, pissuðum mikið. Héldum svo áfram og vorum búnir að fá málið. En mikið leið okkur vel þessa ferð yfir öræfin, því að tala við vin er gott. En að þegja með góðum vinum, ja þar skilur á milli.  Við Billi vorum góðir vinir áður en við lögðum af stað frá Akureyri. En þögnin á Möðrudalsöræfunum var eins og við hefðum gengið undir torf og svarist í fóstbræðralag. Meira að segja fyrirgaf Billi mér þó hann yrði blautur í fæturna á brún Jökuldals þennan haustdag því ég hafði vit á að standa ofar en hann þegar við pissuðum. Í dag ætla ég að skreppa norður og líta eftir ísbirni. Sigvaldi svili minn ætlar með. Hann er gamall selveiðimaður svo ég er nokkuð rólegur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Maður kann nú varla viða að rjúfa þögnina hér til að segja þér hvað þetta er falleg færsla.  Ég læist því bara hjá á þykkum flókaskóm og læt sem ekkert sé.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2007 kl. 20:04

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Bara fremur þögul kveðja að norðan

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.11.2007 kl. 19:27

3 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Dásamleg færsla. Minningar mínar frá síðustu ferð minni á Austurland gefa ekki tilefni til svo skáldlegra pælinga - enda var ég alein í kulda og trekki að böðlast um fjallvegi á Austfjörðum í fljúgandi hálku, þjökuð af kvefpest, svöng og þvæld. Mig sárvantaði ferðafélaga til að pissa með.

Góða ferð...

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 23.11.2007 kl. 16:47

4 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Skemmtileg  ferðasaga, á leið  til Austfjarða.  Austfirðir sem alltaf færa  mér  hlýju  þegar ég hugsa til þeirra og  eiga  svo  stóran þátt í  lífshlaupi mínu.  Allt  um það að þessi  saga  þín  vakti upp minningar  hjá  mér  um ferðalag  yfir þessi sömu Möðrudalsöræfi  á  síðasta  ári á  reiðhjóli,  ég  einn, á  eigin orku og þagði  allan tímann,  frábær  ferð á  hjólinu mínu..  takk  fyrir að  minna  mig á þessa  góðu ferð mína. 

Bestu kveðjur frá Casablanca. 

MG 

Magnús Guðjónsson, 24.11.2007 kl. 18:29

5 identicon

Hæ Eyþór!

Ég er að kíkja í fyrsta skiptið á bloggið þitt. Þú ert einmitt maður til að blogga. Þú þurftir aldrei að læra neitt á tölvutækni fyrr en bloggið varð til! Blogg var örugglega hugsað fyrir menn eins og þig sem eru svona vel skrifandi vel innréttaðir í huganum! :-)

Ég fór í vikufrí til að heimsækja vin minn sem vinnur í Madríd og Caracas í Venezuela. Sól í gær en rigning í dag.

Þú ert svo frábær Eyþór.

Sjáumst bráðlega

Kveðja frá Venezuela

Linda Vilhjálms.

Linda Vilhjálmsdóttir (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 16:18

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég segi ekki orð, sest bara og hlusta á notalega þögnina.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.11.2007 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband