Bloggkvöld

Sunnudagskvöld eru góð bloggkvöld. Það er fínt að sitja í rólegheitum og fara yfir stöðuna. Svaf lengi frameftir í morgun og er því eldhress núna. Komst ekki á Kim Larsen-tónleika í gærkveldi, en fulltrúar mínir voru á staðnum og skemmtu sér vel. (Og nú set ég "Súsan himinbláu"af stað.) Við Sigvaldi svili minn fórum norður í Skagafjörð í vikunni og gengum til fjalla á fimmtudaginn og reyndum að draga björg í bú til jólanna. Sigvaldi stóð sig mun betur í veiðiskapnum en ég og stefnir allt í það að hann geti haldið jól, enda er hann gamall selveiðimaður eins og sagði í síðustu bloggfærslu og gott að hafa hann sér við hlið. Svo við vorum alls óhræddir ef ísbirnir hefðu látið á sér kræla. Ég gortaði að vísu af afrekum mínum sem refaskytta við hann þar sem við sátum á Strangalækjargreninu í nóvembersólinni og átum nestið okkar. Og það var spenningur í mér, ekki svo mikið út af rjúpunum, heldur því að vitað var um ær og lamb á heiðinni. Og fyrir gamlan sveitamann og rolluhlaupara kom hugsunin um að rekast á brjálaða kind í fjallinu blóðinu á hreyfingu. Og viti menn, þegar minnst varir geng ég fram á gráa veturgamla kind með dökku lambi. Og þar með voru örlögin ráðin. Það að eiga við einmana kindur upp til fjalla þegar vetur er sestur að getur verið snúið. Einkum er þær hafa vanist á að sleppa. Svo ég hikaði eitt augnablik og hugsaði hvort ég væri nokkur maður til að standa í þessu. En ég var snöggur að bægja slíkum hugsunum frá mér og skildi svila minn eftir með rjúpunum og lagði til atlögu við kindurnar. Ekki kannski atlögu, því ég fór hægt í sakirnar í þetta sinn, nálgaðist þær rólega og reyndi að láta líta út fyrir að mér kæmu þær ekki við ... Og til að gera langa sögu sutta endaði þessi rjúpnaferð hjá mér liggandi ofan á tveim kindum á Bólueyrunum meðan Fúsi mágur sótti kerru. Ég ofan á lambinu og kindin lá á bakinu og ég hélt í hornin, hélt fast og hefði aldrei sleppt. Svona lágum við þrjú góða stund, ég, lambið og ærin veturgamla, og lágum aldeilis grafkyrr. Svo kyrr að við önduðum varla. Ég rogginn, en kindurnar létu ekkert uppi. Kannski fegnar að þessu var lokið, veit ekki. Frelsið var fyrir bí. Það sá maður í augunum á þeim. Það kom ekki hreyfing á okkur fyrr en pabbi kom með bandspotta svona til öryggis. Ég held að hann hafi verið ánægður með strákinn. Svo á föstudaginn var brunað suður, auðvitað með nesti, enda yfir fjallvegi að fara. Síðan tóku við hefðbundin helgarstörf við að skemmta landsmönnum. Og nú eru Bítlarnir teknir við af Kim. Hvíta albúmið er eins og gott viskí og danski þátturinn bíður á spólu því VHS er enn brúkað á þessu heimili.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það er ekki á hvers manns færi að fara á fjöll eftir jólarjúpunni og koma heim með jólahangikjötið í staðinn! Tær snilld.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.11.2007 kl. 00:34

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú skákar nú við Aðventu Gunnars.  Afadrengurinn hans, hann Pimmi ( Gunnar Úlfsson) á grafísku deildinni hefði varla orðið hrifinn af því...og þó. Það er tæplega hægt annað en að hrífast af þessum rammíslensku vinjettum þínum.  Í því formi ertu framar öðrum hér á landi á.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.11.2007 kl. 09:09

3 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Söng Pétur Kristjáns ekki um Augun himinblá í henni Susan?

Alltaf gaman að lesa ferðasögur úr Skagafirðinum

Rúnar Birgir Gíslason, 26.11.2007 kl. 16:09

4 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Þetta hefur verið ferð til fjár. Fyndið með þessa gömlu menn, maður rýnir og reynir að ráða af svipbrigðum hvort þeir séu ánægðir með mann. Ef þeir eru það ekki heyrist það á löngu færi!

Sigríður Gunnarsdóttir, 26.11.2007 kl. 20:13

5 Smámynd: Eyþór Árnason

Já það er rétt, Rúnar minn. Pétur heitinn söng Kim Larsen-lög inn á plötu, en hún kom út að honum látnum, ef ég man rétt. Og Jón Steinar: Ég verð auðvitað að geta þess, fyrst þú minnist á vinjettur, að þá vorum við Ármann Reynisson einu sinni nágrannar á Smáragötunni. Gæti það skipt máli?  Og Sigga: Það er óbrigðult að ef manni tekst vel upp við sauðfé, þá eru þeir gömlu ánægðir. Kveðja og takk fyrir innlitið.

Eyþór Árnason, 27.11.2007 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband