3.12.2007 | 23:54
Skyr
Börnin mín eru léleg að borða skyr. Að vísu var annað uppi á teningnum þegar þau voru lítil ef ég man rétt. Þá gat maður troðið í þau, svo allt stóð á blístri. En þegar þau eru hjá ömmu sinni fyrir norðan, þá er annað upplit á þeim. Þá háma þau í sig skyrið og biðja um meira og hafa aldrei fengið annað eins sælgæti. Ég hef grun um að móðir mín brúki meiri sykur en ég. Svo er skyrið beint úr mjólkurbílnum. Óhrært. Ég sá mér leik á borði um daginn og kom suður með tvær dollur, sem pabbi reddaði beint úr mjólkurbílnum. Óhrært skyr merkt KEA. Og í kvöld var gerð tilraun með miklum sykri. Sonurinn lét sem hann væri sáttur og fermingarbarnið tilvonandi var mjög jákvætt. Hvorugt bað um meira. Og ég sit uppi með það að mér tekst ekki að hræra skyr eins og mamma.
Athugasemdir
Held að mamma hafi sett vanilludropa í það stundum, þá var það best.
Auðvitað með slatta af sykri.
Rúnar Birgir Gíslason, 4.12.2007 kl. 00:03
Tek undir með Rúnari. Vanilludroparnir gerðu sennilega gæfu muninn og ekki var verra að mylja mjólkurkex útí. Skemmtileg færsla minn kæri.
Bestu kveðjur úr Mosó frá Kalla Tomm.
Karl Tómasson, 4.12.2007 kl. 00:08
Heima komu vanilludroparnir til sögunnar þegar búin var til skyrsúpa.
Eyþór Árnason, 4.12.2007 kl. 00:09
Prófaðu að setja púðursykur útí skyrið. Þannig fannst mér það best í den.
Hringdu annars í mömmu þína og fáðu nákvæma uppskrift.
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.12.2007 kl. 00:10
Mamma reyndi á einhverju hollustu tímabili að nota púðursykur í skyrið. Það var ekki klappað upp. Annað mál með súrmjólkina.
Eyþór Árnason, 4.12.2007 kl. 00:15
Hmm... súkkulaði-íssósu?
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.12.2007 kl. 00:17
Súkkulaði-íssósu segir þú Lára Hanna mín. Ekki viss... Annars er allt notað nú til dags og sumt fjandi gott.
Eyþór Árnason, 4.12.2007 kl. 00:35
Þeir eru yndislegir pistlarnir þínir og gott að geta farið í huganum út í náttúruna - að færa sig á augabragði frá ys og þys borgarinnar í kyrrð hugans í sveitinni.
Varðandi skyrið. Það er nú ekki oft á borðum hjá mér síðan ég hætti að fá almennilegt óhrært KEA-skyr, en vanillusykur er orðinn eitt af því sem ég blekki skrímslin oft með. Set smávegis af honum út í og þau biðja um meira.
Túrilla, 4.12.2007 kl. 06:05
Mömmur leggja hjartað í sér í matargerð, held að það ríði baggamuninn. Mér hefur aldrei tekist að elda hrygg eins vel og amma gerir þó ég sé með hana í símanum og fái nákvæmar leiðbeiningar.
Hvað skyr varðar, þá er ég fyrst núna að jafna mig á ofneyslu skyrs í æsku en mamma bjó til skyr og því var ekki óalgengt að fá skyr á hverjum degi. En þá var líka alltaf tvímælt.
Sigríður Gunnarsdóttir, 4.12.2007 kl. 17:38
Eyþór minn, ég er alveg viss um að það eru einhverjir reykdælskir galdrar í skyrinu hjá móður þinni og kemur uppskrift alls ekkert við. Hvítasykurinn í skyrinu gerir gæfumuninn, og svo er það hvernig mjólkin er sett í skyrið - ætli galdrarnir séu ekki einmitt þar? Hins vegar var Húsavíkurskyr svo miklu betra en KEA-skyr, segja sumir Þingeyingar. Var ekki Sauðárkróksskyr þannig líka?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 4.12.2007 kl. 21:41
KEA - skyr gengur ekki. farðu næst þegar þú verður fyrir norðan í mjólkursamlag KS og fáðu álvöru KS - skyr óhrært svona eins og við fengum sent á brúsapallinn í denn. þetta skýrir sig sjálft þú gefur ekki Skagfirðingum KEA skyr.
Ágúst Kárason, 4.12.2007 kl. 22:24
Já Sigga, það er þetta með hjartað, það þarf að vera með. Og tvímælt! Gott að minna mann á það orð. Ég var búinn að gleyma því.
Þetta með vanilluskykurinn þarf ég að athuga Túrilla.
Og það er rétt hjá þér frændi að þegar galdrar Húsmæðraskólans á Laugum og KS- skyrið komu saman gerðist eitthvað. Maður leit ekki við KEA- skyri þá.
Og Ágúst: Takk fyrir þetta. Gott að vita að það er hægt að fá skyrið í bréfi eins og það kom í brúsunum í den.
Takk fyrir innlitið öll og fáum okkur skyr!
Eyþór Árnason, 5.12.2007 kl. 01:46
He he ég er með stórskrýtin sið hjá mér ...fæ mér skyr með sykri.........en verð að fá harðfisk með
Einar Bragi Bragason., 5.12.2007 kl. 12:24
Þú er ekki skrítinn Einar minn. Sumir í minni fjölskyldu setja kartöflur út í skyrið... og það er tilfellið að nýupptekið smæki með skyri er... ja þú verður bara að smakka það næsta haust. Ég prófa harðfiskinn næst.
Eyþór Árnason, 6.12.2007 kl. 01:18
Ég vil hafa skyrið svona eins og Helgi Hóseason hrærði það. Þingheimur er þó ekki hrifinn af því skyri, svo maður nefni ekki dómkirkjupresta.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.12.2007 kl. 21:55
Það er klárlega eitthvað bogið við þessa meintu skyrneyslu barnanna norðan heiða. Hefurðu eitthvað annað en orð móður þinnar fyrir því að þau hámi í sig skyr þar nyrðra?
Heimir Eyvindarson, 8.12.2007 kl. 00:51
Hef séð það með mínum eigin augum Heimir minn. Og Jón Steinar: Ætli Helgi hafi ekki sparað sykurinn um árið og þess vegna mönnum fundist þetta súrt...
Eyþór Árnason, 8.12.2007 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.