8.12.2007 | 12:05
Skyrtur - fyrri hluti
Ég verð seint talinn sundurgerðarmaður í klæðaburði. Það geta vinnufélagar og heimilisfólk vottað. Þó er fataskápurinn minn troðfullur. Mest eru það bolir merktir einhverjum sjónvarpsþáttum og maraþonhlaupum. Þó maður hafi ekki hlaupið meira en skemmtiskokk undanfarin fjórtán ár verður maður var við að fólk lítur til manns með lotningu, sérstaklega seinni partinn í ágúst, og hugsar: "Sko þennan. Hann hefur hlaupið þessi. Ansi er hann magnaður." Og ég læt mér vel líka. En ég ætlaði ekki að skrifa um boli. Eða gera úttekt á fataskápnum. Það kemur bara seinna. Ég ætlaði að skrifa um skyrtur. Ég bregð mér stundum í fínar skyrtur. Eða minnsta kosti þokkalegar. Og flestar eru þeirrar náttúru að það þarf ekki að strauja þær eftir þvott. Því ég verð að gera játningu; ég kann ekki að strauja. Jæja, þá er ég búinn að segja það. Konan straujar, því þó hún sé búin að gefast upp á að suða í mér svona á virkum dögum hvernig ég er til fara, þá vill hún að ég sé þokkalegur þegar mikið stendur til. Og hún hefur fullan stuðning minn í því að kenna syni okkar straukúnstirnar, því þar sem hún stóð við brettið í gær gekk sonurinn framhjá og hún greip hann glóðvolgan með járninu. Að vísu varð ekkert úr verklegri kennslu, því drengurinn varð fölur og fár og bar fyrir sig allskonar afsakanir. Sagðist m.a. þurfa að læra undir próf. Þar var hann sniðugur, því það má ekki stygga fólk í prólestri. En nú er það orðið skjalfest; drengurinn skal verða föðurbetrungur og læra að strauja. En þá missir hann af þeirri tilfinningu að fara í nýstraujaða skyrtu sem elskan hans hefur farið höndum um! Það eru breyttir tímar ...
Athugasemdir
Ég sem þykist kunna allt, verða að sama skapi að viðurkenna að ég hef aldrei náð því að strauja skyrur né buxur. Ég hef reynt og alltaf hef ég hlotið skertari sjálfsvirðingu af. Ég hef lengi velt fyrir mér lausn á þessu. Ein er að kaupa straufríar skyrtur, en þær eru nafnið eitt og líta út eins og ég hafi sofið í þeim í nokkrar nætur, þótt þær séu nýkomnar úr þurrki.
Eitt ráð veit ég óbrigðult, sem ég verð að fara að leiða hugann að. Það er að fá sér góða konu.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 08:51
Jón Steinar.
Þarna er góða lykilorðið. Það er nefnilega ekki nóg að fá sér konu. Ég strauja ekki. Ef fötin verða krumpuð þá hendi ég þeim og kaupi ný sem krumpast ekki. Held ég eigi hvorki strauborð né straubolta og hef ekki hugsað mér að eignast slík leiðindatæki. Ég gerði það sem mér hentaði best; fékk mér góðan mann - mann sem þarf ekki að ganga í fínum skyrtum. Ef svo illa vill til að hann ætlar að fara í slíkan ófögnuð þá skal hann gjöra svo vel að strauja skyrtuna sjálfur, eða senda hana í hreinsun og fá hana óaðfinnanlega til baka. Ég er vond. Merkilegra er að ég skammast mín ekki fyrir það
Túrilla, 9.12.2007 kl. 10:06
Ég er líka vond. Ég strauja og pressa rosalega vel en er lengi að því og leiðist fátt eins mikið og þann verknað. Svo ég strauja aðeins í algjörri neyð. Það er svo margt annað og skemmtilegra hægt að gera við tímann sinn að ég nenni ekki að eyða honum í leiðindi eins og strauningu. Ég kenndi syni mínum að strauja þegar hann var tólf ára og sagði honum að eftirleiðis yrði hann að strauja sín föt sjálfur. Hann hefur verið krumpaður síðan - en hann kann að strauja og gerir það vel þegar hann nennir því, sem er sjaldan.
Ekki kann ég að elda mat, fékk engin eldhúsgen í vöggugjöf og þegar ég neyðist til að malla eitthvað til að halda í mér lífinu kem ég gjarnan stórsködduð frá því. Sker mig á hnífum, brenni mig á hellum eða ofni, brýt leirtau og glös og skerst á brotunum og svo framvegis. Svo hef ég horft upp á áðurnefndan son minn brillera við matargerð og hafa gaman af. Hann er náttúrukokkur af bestu gerð. Hvaðan hann fékk eldhúsgenin er mér hulin ráðgáta, líklega frá systur minni sem hirti þau öll svo ekkert var eftir handa mér - enda er hún eldri.
Svona er nú ójafnt gefið í lífinu og ekkert við því að gera annað en að sætta sig við takmarkanir sínar og læra að lifa með þeim. Og ég tek undir með Túrillu - ég skammast mín nákvæmlega ekki neitt fyrir vonskuna.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.12.2007 kl. 15:40
Ég átti fína konu sem straujaði alltaf fyrir mig framan af hjónabandinu og ég þekki vel þessa frábæru tilfinningu að fara í nýstraujaða skyrtu sem er straujuð af elskunni þinni... svo kenndi hún mér að strauja og ég straujaði bara töluvert síðustu árin í hjónabandinu og sem betur fer lærðu ég undirstöðuatriðin í þessu því nú hef ég enga til að strauja fyrir mig. En ég gerði eitt sem mér fannst rosa sniðugt, mér finnst ferlega leiðinlegt að strauja með lélegu straujárni, gengur hægt og er hálfgert basl, ég keypti mér hrikalega flott straujárn með gufukút og alles og nú er þetta bara ekkert mál og meira að segja stundum skemmtilegt og nú strauja ég bara í gegnu lífið.
Hafðu það svo eins og þú vilt nýstraujaður..
Magnús Guðjónsson, 9.12.2007 kl. 20:37
Eyþór minn, ég býð fram aðstoð mína við að kenna ykkur feðgum að strauja, því að "straufríar" skyrtur eru yfirleitt ekki skyrtur sem er jafngott að vera í og þær sem þarf að strauja.
Um hvað verður síðari hluti skyrtuþáttar?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.12.2007 kl. 20:53
Takk fyrir innlitið. Ég sé að það er óþarfi að hafa áhyggur af strau-málum. Fyrst að þú af öllum, Jón minn Steinar, átt í vandræðum með þetta, mesti snillingur í höndunum sem ég þekki! Og Túrilla og Lára: þið eruð ekki vondar!!! og Maggi minn: Það er kannski eins með straujárn og ljá; Ljárinn þarf að bíta og járnið þarf að vera gott... Og takk fyrir boðið frændi. Síðari hluti skyrtuþáttar fjallar um rauðköflótta skyrtu...
Eyþór Árnason, 10.12.2007 kl. 22:06
ég strauja og er helv góður í því og hrýt en þú veist nú allt um það.........
Einar Bragi Bragason., 11.12.2007 kl. 00:31
Ekki man ég eftir neinum hrotum í þér. Þetta hljóta að hafa verið hrotur í mér......!
Eyþór Árnason, 11.12.2007 kl. 00:53
Mikill er máttur bloggsins. Nú hamast Dressmann við að auglýsa straufríar skyrtur á 1.990 krónur og hvað gerist? Ég hugsa til ykkar með samúð í hjarta og vona innilega að þið stökkvið af stað og kaupið ykkur nokkrar.
Ég kann nefnilega fína aðferð til að komast hjá skyrtustrauningu sem ég geymi eins og hernaðarleyndarmál. Sel kannski hæstbjóðanda...
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 10:25
http://erla1001.blog.is/blog/erla1001/entry/388660/
skoðið þetta USA í ham
Einar Bragi Bragason., 12.12.2007 kl. 00:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.