14.1.2008 | 00:12
Fyrsta blogg 2008
... Já það er komið nýtt ár. Ég held ég sé að ná því að skrifa rétt ártal. 2008. Annars reynir ekki svo mikið á þetta hjá mér nú til dags, en það reyndi verulega á þetta þegar ávísanahefti voru notuð. Þá var maður alltaf að skrifa einhverja vitleysu, að maður tali nú ekki um þegar maður missti sig og skrifaði full frjálslega einhverjar upphæðir sem komu svo prentaðar á gulum miðum seinna. En gleðilegt ár og takk fyrir gömlu. Og kærar þakkir fyrir innlit og athugasemdir hjá mér. Eins og þeir sem hafa kíkt inn hafa orðið varir við eru rólegheit á þessari síðu sem stendur, en maður veit aldrei! Ég hef horft óvanalega mikið á sjónvarpið undanfarið og það var mikið að gera í dag og kvöld við sjónvarpsgláp. Fór reyndar með Vöku og sá leikinn við Tékkana í handboltanum og horfði svo á síðari hálfleikinn á plúsnum þegar ég kom heim svona til að vita hvað hefði gerst. Því þegar maður er óvanur að horfa á lifandi handbolta veit maður ekkert hvað er að gerast. Maður missir af mörkum og það er enginn að segja manni hvað sé í gangi eins og í sjónvarpinu. En ég verð nú að segja mér til hróss að þegar ég horfði á leikinn í sjónvarpinu þá fann ég að ég hafði séð leikinn áður. Ég vissi hvað myndi gerast næst og vissi meira að segja svona hér um bil hvað þulirnir myndu segja. En það er gaman að sjá alvöru handboltaleik. Manni verður ljóst að þetta er ekki leikur fyrir neinar veimiltítur. Við sátum alveg upp við völlinn svo maður fann alveg átökin og kraftinn. Og svo sá ég hvað Óli Stef. er góður handboltamaður. Hann er bara einstakur. Svo var auðvitað horft á fréttir, Sjálfstætt fólk, Pressu og danska þáttinn svo maður er hálf dasaður. Ég horfi spenntur á Pressu þó ég kunni hana utan að og ég er búinn að sætta mig við að danski þátturinn sé endalaus. Og þegar ég horfði á Gylfa Ægisson hjá Jóni Ársæli mundi ég eftir ferð með Norðurleið fyrir mörgum árum. Það voru fáir með rútunni þegar lagt var af stað frá BSÍ. Aftursætið hafði ungur maður í fallegri lopapeysu lagt undir sig og gítarinn sinn. En það fór lítið fyrir honum og ég gaf honum engan gaum. Það hefur svo trúlega verið í Húnavatnssýslunum, en þær voru langar á þessum árum, að við tókum tal saman ég og gítareigandinn í aftursætinu. Þá kom í ljós að þetta var Gylfi Ægisson. Ekki man ég hvort hann var mjög þekktur þá, en ég fattaði alla vega hver hann var þegar hann kynnti sig. Við spjölluðum lengi saman, sennilega alveg að afleggjaranum á Uppsölum. Hann dró upp brennivínsflösku og vildi gefa mér, en ég hafði litla lyst. Hann var ánægður með það, sagði að brennivínið væri að fara með sig til helvítis. Saup síðan á. Sat svo með gítarinn og spilaði ofurlágt til að trufla ekki aðra farþega, sem eins og áður sagði voru ekki margir. Þannig skildum við. Ég með töskuna við póstkassann á Uppsölum og hann í aftursætinu á Norðurleið, með gítarinn. Ég kominn heim, hann á leiðinni. Síðan hefur mér þótt vænt um Gylfa Ægisson. Og nú er ég búinn að setja Erik Satie á fóninn. Takið eftir: Fóninn. Síðan ætla ég að kíkja í Sigga Páls undir svefninn, en ég hef verið með honum í París undanfarin kvöld.
Athugasemdir
Gleðilegt ár. Gylfi Ægisson er einstakur. Svo bíður maður spenntur eftir Bandinu hans Bubba:) kv. Gummi
Guðmundur Rafnkell Gíslason, 14.1.2008 kl. 10:01
Blessaður frændi, gleðilegt ár og takk fyrir óvænt og skemmtilegt jólabréf :) Hafið það sem best og góða skemmtun á ættarblótinu (á ekki annars að vera svoleiðis???)
kv. VallaBjarna
Valla (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 19:25
Sammála öllu sem Valla segir, nema að jólabréfið var ekki óvænt - hér á bæ er þess sko beðið með eftirvæntingu á hverju ári! (En að sjálfsögðu ekki opnað fyrr en með biskupnum í Dómkirkjunni - lesum Eyþór og horfum á Siggu syngja á meðan).
Er sérstaklega sammála því að við ættum að skella í ættarblót, jafnvel þó Ásgeirsbrekkusystur séu allar komnar norður. Nú kemur kannski í ljós hversu margir af Uppsalaætt lesa bloggið þitt, kæri frændi minn - er ekki upplagt að nota þennan vettvang til að skipuleggja blót? Ég er búin að lesa í laumi frá því jólabréfið kom með upplýsingarnar, og því kominn tími til að kvitta og þakka fyrir sig...
Knús uppeftir götunni,
Guðrún Harpa
Guðrún Harpa (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 23:19
Hah - er ekki tæknin dásamleg? Ég hafði vart ýtt á send þegar sms kom frá Laugu - Uppsalablót hjá Villa þann 19. Speak of the devil...
Það þarf því greinilega ekkert að skipuleggja, bara mæta!
Sjáumst!
Guðrún Harpa (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 23:23
Takk fyrir innlitið kæru frænkur. Villi og co. redda blótinu svo við erum í góðum málum.
Og Gummi minn, það styttist í Bubba.
Eyþór Árnason, 14.1.2008 kl. 23:44
Eyþór... mikið rosalega áttu skemmtilegar frænkur. Er hægt að fá þær lánaðar? Mig vantar nokkrar slíkar!
Lára Hanna Einarsdóttir, 15.1.2008 kl. 00:13
Ég er heppinn. Ég á fullt af skemmtilegum frænkum. En hvort þær eru til láns...? Ég skal athuga málið Lára mín.
Eyþór Árnason, 15.1.2008 kl. 22:57
he he alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar.......
Einar Bragi Bragason., 23.1.2008 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.