22.1.2008 | 23:21
Það gengur mikið á
Það lá eitthvað í loftinu í síðustu viku
Í Silfri Egils tóku svo leikar að æsast:
Nú turtildúfur taka niður hringa
og torgin litast rauð svo fellur tárið.
Með hnífasett í bakinu frá Binga
blæðir flokki út í morgunsárið.
En þetta var nú ekkert, því svo kom mánudagur:
Hjá Kjarval gamla klæmdist D í skjóli
því kreistur var nú burtu vinstri safinn.
Og dreyminn stóð með danskortið hann Óli
daginn sem að Bobby F. var grafinn.
Og brímafullir blossar hylltu traustið
en brosin voru treg að koma í fansinn.
Því svipurinn var sami og um haustið
er sviptivinda-Bingi kvaddi dansinn.
Og núna situr Dagur dapur heima
og döpur sitja Svandís, Bingi og Magga.
Í hundrað daga hálfpartinn að dreyma
hlunnfarin nú gráta úti í bragga.
Og vaski gamli Villi er með Óla
valdataflið er til enda leikið.
Í hjólförunum hagsmunirnir spóla
og halastjarnan þurrkar af sér meikið.
Og svo er kominn þriðjudagur:
En Bobby sagði bless við landið kalda
nú brosa aðrir heimar býsna stórir.
Í Laugardælum lunkinn var að valda
og leikur núna kóngspeð Einar fjórir.
Athugasemdir
Mikið lifandis skelfing eru þetta glæsilegar vísur hjá þér, Eyþór! Ekki vissi ég að þú værir svona gott skáld.
En svo lengi lærir sem lifir...
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.1.2008 kl. 23:41
Mikill andskotans snillingur ertu kall. Það er engu líkara en Skáholts Villi sé mættur í sambræðingi við Jón vorn Helga á Árnasafni. Þetta ætla ég að linka á að óspurðu.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.1.2008 kl. 00:57
Frábært Eyþór, meira svona
Vilborg Valgarðsdóttir, 23.1.2008 kl. 12:14
Ég vissi ekki að þú værir farinn að blogga gamli félagi. Ég þarf að fylgjast með þessu, þú ert soddan snillingur. Way to go. Steini.
Þorsteinn Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 20:55
Svona á að taka það!
Árni Gunnarsson, 23.1.2008 kl. 21:53
Góður!
Hallmundur Kristinsson, 23.1.2008 kl. 23:44
Takk fyrir að líta inn. En nú er Björn Ingi hættur svo það er best að fara varlega og kveða í hljóði.
Eyþór Árnason, 24.1.2008 kl. 21:50
Björn Ingi er ekki hættur. Hann gegnir forystu í borgaráði. Er nokkur leið að skilja þennan dreng. Er hann hættur í pólitík eða hættur að svíkja undan skatti eða bara hættur að ganga í jakkafötum? Hann loðir enn við eins og skötubrælan og ætlar ekki að gefa sig, enda hefur hann verk að vinna fyrir Alfreð.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.1.2008 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.