4.2.2008 | 22:21
Bollublogg
Í gær voru bakaðar bollur, pínulitlar og krúttlegar vatnsdeigsbollur. Þær systur sáu um baksturinn. Ég horfði á, smakkaði og leið vel. Bollurnar hurfu svo flestar ofan í okkur meðan spennuþættir sunnudagskvöldsins liðu yfir skjáinn. Og þá er Pressa búin. Ég var ánægður með bílinn minn, en hann lék af krafti í gær. Svo þeytti ég rjóma í morgun og sendi heimasætuna með restina af fínu bollunum í skólann. Hesthúsaði svo nokkrar bollur í vinnunni í dag svo ég er nokkuð sáttur við bolludaginn 2008. Þó væri ég alveg til í eina í viðbót á þessu augnabliki, en svona er lífið. Það bara herðir mann að neita sér um bollu. Og svo er sprengidagur á morgun. Ohhh ég hlakka til. Baunirnar bíða í pokunum og ég legg þær í bleyti ásamt einum lauk strax í fyrramálið. Það lendir á mér að elda annað kvöld, svo ég ætla að sækja tengdó tímanlega og hafa hana á skeiðinni og láta hana smakka baunirnar og segja mér sögur.
Athugasemdir
Það getur vel verið að ég hefði viljað úrbeinaða saltkjötið frekar þegar við vorum forðum á Laugum, en núna vil ég ekki sjá úrbeinað saltkjöt eigi ég kost á kjöti á beinum með mikilli fitu! Var sem sé austur á Laugum (sjá blogg um það í dag) á sprengidaginn en þetta var fínasta kjöt á ljómandi góðar baunir.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.2.2008 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.