Ár rottunnar

Það er víst ár rottunnar í Kína. Mér finnst þetta hljóma frekar óyndislega. Því ef ég hata einhver kvikindi þá eru það rottur og mýs. Er þó alinn upp í sveit og ætti að hafa visst umburðarlyndi gagnvart músum að minnsta kosti. En því er ekki til að dreifa. Og það er ekki nóg með að ég hati þessi kvikindi, ég er líka dauðhræddur við þau. Svo hræddur að ég get ekki lýst því. Því kemur það vel á vondan að standa í stríði við rottu-andskota sem hefur tekið sér bólfestu í draslgeymslunni í vinnunni. Ég er búinn að glíma við hana í nokkrar vikur, en ekkert gengur. En ég er gömul refaskytta og ætla ekki að gefast upp baráttulaust. Málið á sér smáforsögu sem ég segi kannski frá seinna, en nú er aðalatriðið að ná helvítinu. Ég dvaldi lengi í geymslunni í dag og lagði á ráðin. Talaði við sjálfan mig í hálfum hljóðum svo kvikindið heyrði ekki plottið. Gaf henni svo bjór í eina gildruna. Það er kannski eina vonin að gera hana að alkóhólista. Svo ef bjórinn dugar ekki fer ég í sterkari drykki. Það er varla að ég þori að skrifa þetta, því mér finnst eins og þetta kvikindi lesi hugsanir mínar og þar með bloggið. Ég sé nefnilega skratta í öllum hornum. Ég hringdi nú samt í meindýraeyði um daginn þegar ég var alveg búinn að missa trúna á veiðimanninum í mér. En meindýrakallinn var svo ánægður með þær aðferðir sem ég beitti að ég varð allur hressari. Svo er bara að sjá hvort Tuborginn dugar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvað er Tuborginn sterkur hjá þér?

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.2.2008 kl. 23:59

2 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Eyþór - ég vil þú vitir að ég hef fulla trú á þér sem veiðimanni. Gerðu bara ekki eins og ég gerði í bústaðnum.  Ég ætlaði að vera mjög "human" og keypti gildru sem drepur ekki mýslurnar - heldur nær þeim.  Þær náðust 3 - en ég kom aaaaaðeins of seint til að losa þær út.  Aðkoman að gildrunni verður ekki rædd hér!!

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 8.2.2008 kl. 11:25

3 identicon

????

Lukkulegt ár elsku Eyþór minn.  

Imba (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 17:34

4 identicon

Ég var að reyna að skrifa þetta á kínversku hér að ofan.

Táknin áttu ekki að vera ??? heldur kínversk tákn

Imba (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 17:36

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Samúðarkveðjur, ólst upp við sjó, og lengivel alltaf rottur þar, skriðu stundum á milli þilja og eitt sinn var ein komin upp á loft því gleynst hafði að loka dyrum, en íþróttamaðurinn bróðir minn, sparkaði henni bara niður stigann og þaðan út. Hún hvarf og kom ekki aftur.

María Kristjánsdóttir, 9.2.2008 kl. 23:55

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Lára mín: Ég er hræddur um að Tuborginn hafi ekki verið nógu sterkur

og Ingibjörg mín: Ég hef lent í svipuðu

og Imba mín: Takk fyrir ??? 

og María mín: Bróðir þinn er kappi. Ég hefði bugast. 

Kveðja og takk fyrir innlitið. 

Eyþór Árnason, 10.2.2008 kl. 01:15

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þú hefur semsagt ekki náð kvikindinu, drukknu og afvelta. Ja, hvað gerðu bændur þá?

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.2.2008 kl. 01:19

8 Smámynd: Eyþór Árnason

Rétt Lára mín, en ég er ekki hættur. Nú er verið að hugsa næstu skref.

Eyþór Árnason, 10.2.2008 kl. 01:23

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta eru íslenskar og þjóðlegar rottur - kannski fíla þær bara íslenskan bjór. Ekkert danskt sull. Íhugaðu að prófa Egils Sterkan eða álíka. Svo má auðvitað prófa hákarl og brennivín í tilefni af Þorranum. Það ætti að kýla þær kaldar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.2.2008 kl. 01:32

10 identicon

Rottan hún sleppur við búr

Eyþór er orðinn soldið súr

en hann veiðir fram öl

sem er rottunni böl

Þetta er árið sem hún deyr úti í skúr

Kikkó (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 22:50

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta minnir mig nú á söguna af Davíð gamla á Arnbjargarlæk og meistaralegri ályktun hans um bindindismenn/mýs.

Ef þið hafið ekki heyrt hana þá var hún á þá lund að Davíð sat með kunningjum sínum við kaffi og talið barst að áfengisneyslu. Þar var Davíð landsliðsmaður.

Ákafur bindindismaður í hópnum hélt langan fyrirlestur um skaðsemi áfengis en Davíð tók dræmt undir. Hinn færðist allur í aukana og þuldi yfir vinum sínum nýlega sögu úr sveitinni:

"Á bæ nokkrum voru fjórar mýs orðnar til slíkra vandræða í baðstofunni að góð ráð voru dýr. Ekkert dugði þar til einhverjum datt í hug að setja brennivín í undirskál og hún var höfð á gólfinu yfir nóttina. Morguninn eftir lágu þrjár mýs víndauðar við undirskálina og voru drepnar tafarlaust.

Sú fjórða hafði haft vit á að forðast vínið og hún lifir enn góðu lífi"!

" Já, og öllum til leiðinda", tautaði þá Davíð niður í bringu sér.

Árni Gunnarsson, 17.2.2008 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband