Plata frá '77


Ég dró fram gamla plötu í dag og setti á fóninn. Plötu sem mér fannst alveg frábær í den. Og hún er reyndar ágæt enn þann dag í dag. Plata með Stranglers. Ég man þegar ég hlustaði á hana fyrst fyrir norðan og fannst eins og ég væri að uppgötva eitthvað nýtt. Og svo komu Stranglers til landsins árið 1978. Og ég keyrði suður ásamt fleirum á Cherokee jeppanum mínum K-1313 sem ég keypti af Ödda í Varmahlíð dálitlu áður. Að vísu brotnaði afturrúðan í bílnum daginn fyrir brottför, en það var sniðið masónít-spjald í snatri og skellt í gluggann og allt reyrt fast. Og það dugði suður og til baka, en það var töluvert af ryki í bílnum er heim var komið. En maður var nú ekki að gera sér rellu út af smámunum á þessum árum. Og tónleikarnir voru auðvitað einstakir. Þetta voru fyrstu stóru alvöru tónleikarnir sem ég fór á, tel ekki sveitaböllin með, eða Mána á landsmótinu á Króknum.  Enda ekki verið að skreppa af bæ nema maður ætti erindi. En þarna var maður lentur í hrúgu af fólki og hávaða og þetta var upplifelsi. Þetta byrjaði að vísu ekki vel, því ég man ekki betur en að Þursaflokkurinn hafi átt að hita upp, en þegar herlegheitin áttu að byrja stormuðu nokkrir ungir menn fram á sviðið og þar hóf Egill Ólafsson upp raust sína og tilkynnti að Hinn Íslenski Þursaflokkur neitaði að spila, því þeir hefðu verið sviknir um hljóðprufu. Fór þá kliður um salinn. En Pétur Kristjánsson og Póker létu sig hafa það og mér finnst eins og ég sjái Jóa Helga með gleraugun ljóslifandi fyrir mér. Svo komu Stranglers. Mér fannst þeir ógeðslega flottir. Ekki síst bassaleikarinn og orgelleikarinn, enda hef ég alltaf verið veikur fyrir orgelum. Og nú fæ ég bakþanka. Voru það ekki örugglega Þursarnir og Póker sem voru þarna? Jæja, hvað um það. Jói Jakk setti nýja rúðu í Cherokíinn er heim var komið og hann endaði á Akureyri þar sem Rúnar mágur var umboðsmaður hans þar sem hann snjóaði niður á bílastæði á einhverri bílasölu og ég í útlöndum, en það var gott, því ég er rati í bílaviðskiptum og Rúnari tókst að selja jeppann á endanum. Takk Rúnar minn. En er það tilviljun að ég fór að spila Stranglers í dag? Veit ekki. Og það var skrúfað upp í magnaranum og látið vaða, enda bara við feðgarnir heima. Góð plata. Og nafnið: Rattus Norvegicus.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Félagi

Takk fyrir síðast

Ég man þessa tónleika og man eftir þessari uppákomu með Þursana. Þetta þótti flott hjá þeim. Ég man það líka að ég lenti í svaka paartý í Hollywood á eftir tónleika og það var mikið vín og víf. Ef ég man það rétta þá var öll breska poppressan hér vegna kynningar á nýrri plötu Strangeles.

Kiddi Karls (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 22:40

2 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Tær snilld.

Bæði Stranglers og Cherokee.

Bassaleikarinn er varla þessa heims, hrikalega flottur. Æðislegt band. 

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 19.2.2008 kl. 08:02

3 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Jean Jacques Burnel er hrikalegur, og þeir allir. Ég grét mig í svefn snemma dags í sveitinni yfir því að fá ekki að fara á þessa tónleika. Þá 10 ára gamall

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband