Að vera í stuði

Þegar langt líður á milli bloggskrifa er erfitt að komast af stað aftur. Maður veit ekki hvar á að byrja. En ég byrja í dag. Þetta hefur verið rólegur dagur, enda kom ég heim um miðja nótt eftir mikið stuð á NASA. Þar var júróvisionpartý og Páll Óskar stjórnaði fjörinu. Og þvílíkt fjör. Hávaðinn var ógurlegur, maður bara öskraði í eyrun á fólki, því auðvitað þurfti maður að komast á trúnó. Og Páll Óskar er  þjóðargersemi  svona eins og  fálkinn og Perlan. Hann býr til þvílíka stemmingu að því verður vart lýst. Ég stóð við hliðina á einum sem sagði: "Maður kemur með heila hljómsveit og heldur uppi sæmilegu stuði, en hann er EINN. Og þarna stóð maður í stöppunni dáleiddur af Palla, komst varla á klósettið og alls ekki á barinn ( sem var gott í dag) svo á endanum flaut maður út á Austurvöll og komst heim. En ég missti víst af tónleikum aldarinnar með Þursunum í Höllinni eftir því sem vinir mínir segja.

Annars hef ég verið í stuði undanfarið. Enda fjör í vinnunni. En eitt stendur uppúr. Ég náði meindýrinu sem hefur haldið fyrir mér vöku undanfarið. Ég var búinn að reyna mörg trix eins og ég hef áður sagt en á endanum kom það. Og ég veit að það kemur sumum ekki á óvart. Þegar marsipan og bjór dugði ekki var ekki um annað að ræða en að fara í eitthvað sterkara. Og ég var ekkert að humma við það. Hellti koniaki í eina gildruna og það hreif... Slamm, og málið dautt.

Og nú ætla ég að kíkja á restina af endursýningu á Bandinu og svo horfa á Óskarinn meðan ég hangi uppi.  

... og takk fyrir innlit Kiddi, Guðmundur og Heimir og allir hinir. Og Árni: Takk fyrir skemmtilega sögu um mýs og vín.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta var þá ekki þjóðleg, íslensk, brennivínsrotta eins og ég hélt. Heldur snobbað koníaksslafrandi, franskættað meindýr, eða hvað? Var þetta franskt koníak, V.S.O.P?

Vantar þig ekki aðstoðarkonu í vinnunni? Ég er að leita...

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.2.2008 kl. 00:47

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Lára mín: Þetta var voða fínt koníak, með svona mynd af stóru kattardýri utaná,  svaka veiðileg flaska verð ég að segja og nafnið byrjar á M. Skál!

Eyþór Árnason, 25.2.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband