26.2.2008 | 00:07
Kornflex-morgunn
Vaknaði ansi syfjaður í morgun. Reif mig samt framúr og leit út um eldhúsgluggann. Og viti menn. Ég sá ljósið. Ég sá dagsbrún yfir Esjunni. Ég stökk til og söng fjölskylduna á fætur. Brátt voru allir syngjandi eins og í amerískri maís-auglýsingu. Þrátt fyrir sönginn lét ég ekki blekkjast, hélt mínu striki og sauð hafragraut og það var svo merkilegt að söngurinn batnaði með hverri skeið. Hafragrauturinn blífur. Þegar ég renndi svo heim úr vinnunni um hálfsex var enn hábjartur dagur. Sól hátt á lofti yfir Vatnsmýrinni vafin í ský. Það er alltaf svo skemmtilegt þegar maður fattar að það mun koma vor á endanum.
Horfði smá á Óskarinn í nótt. Á næsta ári ætla ég að taka mér frí daginn eftir og horfa á alla útsendinguna. Þetta er svo gaman. Ég verð mjúkur og meyr og lifi mig algjörlega inn í þennan heim. Að vísu hrökk ég við í nótt og fannst eins og einhver væri að ofsækja mig. Jú hver var kosin besta teiknimyndin. Auðvitað RATTATOUILLE. Þetta er auðvitað ekkert annað en grófasta einelti og mér er ekki rótt. Vonandi bjargar morgunljós yfir Esju mér í fyrramálið. Og hafragrauturinn.
Athugasemdir
Vertu extra góður við hana Hönnu vinkonu mína í bandinu....
Einar Bragi Bragason., 26.2.2008 kl. 09:19
Já, vorið er komið, og daginn er tekið að lengja, og ég er búinn að eignast góðan bloggvin sem kom, sjálfviljugur, og bauð vináttu, ég svaraði já, og hoppaði af gleði, því nú er sko gaman, þótt hann snjói, þá tekur enginn frá manni hlýjuna, sem þessi nýji bloggvinur minn er þekktur fyrir að sína öllum sem hann umgengst, og ekki skemmir húmorinn hans, og hagmælskan sem hann lumar á. Takk fyrir að vilja vera bloggvinur minn.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 26.2.2008 kl. 16:05
Æ, Eyþór, það á auðvitað að vera yfsiloní í "sýna" . Viltu leiðrétta það fyrir mig. Kv. Lilja
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 26.2.2008 kl. 16:08
Nú er mér skemmt. Ég var að fá tölvupóst frá sjónvarpsstöð með lista yfir bíómyndir þar sem spurt er hver þýddi hvað - og á listanum er: RATTATOUILLE!
Því miður á ég ekki þýðinguna.
Lára Hanna Einarsdóttir, 26.2.2008 kl. 17:15
Ég verð góður Einar minn.
Takk, takk, Lilja mín. Það er ekki leiðinlegt að vera vinur þinn.
Og Lára mín: þarna sérðu. Þetta eltir mann á röndum.
Eyþór Árnason, 28.2.2008 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.