8.3.2008 | 01:53
Kakó
Þriðji þátturinn af Bandinu er í höfn. Hefði samt átt að vera á fundi hjá gangnamannafélagi Austurdals norður í Héðinsminni í kvöld. En svona er lífið. Söngvaraleitin verður að hafa sinn gang. En ég sendi pistil. Hann kemur hér:
Austurdalur.is 2008 - Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum
Í kvöld fékk ég mér kakó. Ekki svona ekta súkkulaði frá Síríusi, enda á maður bara að fá sér svoleiðis nammi á sunnudögum. Ég læt bara Neskvikk í gula dunknum duga og er nokkuð góður þar sem ég stend við gluggann og horfi norður. Kakóið er heitt og ég sýp varlega á, því ég er óttaleg kisa eins og Lína á Kúskerpi sagði við mig í gamla daga. Og þar sem ég stend við gluggann man ég eftir vatnskakóinu. Vatnskakó. Það þótti nú gott. Blandað saman kakói og sykri, sett í litla krukku, stungið ofaní nestiskassann og þar hristist það með sviðakjömmunum og flatbrauði fram á fjöll. Vatn sótt í lækinn, ketillinn settur yfir prímusinn og menn fengu sér vatnskakó. Og voru hressir. Enda fjallavatnið eins og mjólk. Vatnskakó. Mér finnst alltaf einhver Ábæjarstemning fylgja þessu orði. Það var eitthvað svo mannalegt að sitja lítill drengur með heitt kakóglas við eldhúsborð niðri í sveit og kindur hlupu hjá og svo var hóað þannig að undir tók í glasinu. Og það er kvöld í höfuðstaðnum. Í bakgörðum sveima urðarkettir og þunginn frá umferðinni hljómar eins og fljót. Stöðugur, en samt síbreytilegur, eins og niðurinn frá gömlu Jökulsá. Hér er engin þögn. Enda þola menn ekki þögnina lengur. Verða brjálaðir. Það lækkar í bollanum og það setur að mér værð og ég finn hvernig neskvikkið dregur mig til fjalla, inn í kofa, oní poka og nú ræð ég mér ekki lengur því mér finnst að ég sé að elta kollóttan lambhrút á Ábæjartúninu. Hann er erfiður viðfangs og ég átta mig ekki alveg á því hvert ég er að fara með hann eða hvers vegna. Mér finnst samt eins og Jóhann heitinn á Silfrastöðum sé að fylgjast með mér og hafi gaman af. Skyndilega er eins og dimmi aðeins yfir og það koma eins og uppúr engu einhverjir ókunnugir og vilja hjálpa mér að eltast við hrútinn. En við það dofnar áhuginn á hrútnum og ég fer að smala þessum nýkomnu hjálparmönnum inní gömlu réttina. En þeir eru undarlega sleipir og ég missi þá jafnharðan út. Brátt verð ég ansi móður og neyðist til að hvíla mig, en hinir nýju félagar mínir rótast um eyrarnar og skilja eftir sig undarlegar rákir á grjótinu.
Þegar ég hef kastað mæðinni er eins og allt hafi róast. Heyri samt óljóst skrækina í þeim ókunnu þegar þeir leggjast til sunds vestur yfir Jökulsá, en læt það ekki á mig fá og geng upp á bakkann. Liggur þá ekki hrúturinn þar allur hinn rólegasti og jórtrar. Jarmar lágt er hann sér mig. Geng ég þá alveg að honum og sé að hann er fastur í keðju sem bundin er við sáluhliðið. Ég fer ofan í vasa minn og viti menn; upp kemur lúka af heykögglum sem hrússi tekur hraustlega á móti og þá verður mér ljóst að þetta er heimagangur fæddur löngu fyrir síðasta Heklugos.
- Skál dalsins.
Athugasemdir
Þögnin er yndisleg, einkum þegar undirleikurinn er lækjarniður, þytur í laufi, stöku jarm og fagur fuglasöngur.
Þetta hljómar svolítið eins og huldufólkssaga...
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.3.2008 kl. 12:15
Ekki veit ég Eyþór minn hvort væri verðugra að skamma þig fyrir að mæta ekki á fundinn í Héðinsminni, eða hrósa þér fyrir þennan makalausa pistil.
En mikið sakna ég þess að hafa aldrei notið þess að ríða Austurdalinn í fylgd góðra manna.
Hefur þú kynnst Skagfirðingum heima í héraði Lára Hanna?
Árni Gunnarsson, 8.3.2008 kl. 18:40
Ja, nú veit ég ekki hvað segja skal. Ég átti íslenska hundtík í 12 ár sem var Skagfirðingur, en hún bjó auðvitað hér hjá mér í Reykjavík. Ég hef komið oft og farið víða í Skagafirði og hef á honum mikið dálæti, en ekki þekki ég neinn náið sem býr þar þótt ég sé lauslega kunnug einhverjum. Sonur minn á ættingja í Skagafirði en þá þekkjum við lítið sem ekkert.
Svo ég verð víst að svara spurningu þinni neitandi, Árni... því miður.
Lára Hanna Einarsdóttir, 8.3.2008 kl. 19:04
Hugsa að pápa gamla hlýni við að lesa þennan pistil, hann hlýtur að hafa misst af þessu líka þar sem hann fór til Barcelona á fimmtudaginn.
En Austurdalurinn er fallegur staður, því miður hef ég ekki dvalið þar nóg um ævina til að skynja hann eins og þú og fleiri.
Rúnar Birgir Gíslason, 8.3.2008 kl. 21:06
Jökulsá? Er það Héraðsvötnin? Er þá ekki rétt að virkja þetta og blása taumlausu lífi í sveitina? Reisa því næst álver við Varmahlíð? Standa síðan með hjálm á hausnum við iðjuversgluggann og beygja sig annað slagið niður til að fá tært vatnið úr fljótinu ofan í vatnskakódallinn? Þeir stinga upp á þessu næst.
Kær kveðja í Austurdalinn,
Ragnar Hólm
Ragnar Hólm Ragnarsson (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 22:02
Þetta er mögnuð, hugsanaferð, sem þú flýgur, með mann í. Takk fyrir það.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 9.3.2008 kl. 01:38
Alltaf gaman að lesa af viðureignum þínum við sauðkindina, uppdiktaðar eða sannar. Ég var einmitt að taka frá þrjá daga í júlí n.k. þar sem við aldavinkonur Hrefna, sonardóttir Jóhanns á Silfrastöðum og Alma Ágústsdóttir ætlum að ríða um grundir Austurdals.
Sigríður Gunnarsdóttir, 9.3.2008 kl. 21:59
Takk öll fyrir innlitið og hlý orð.
Lára: Jarmur er nú að verða fáheyrður í dalnum.
Og Árni: það á auðvitað að víta menn fyrir að mæta ekki á svona menningarsamkomur.
Og Rúnar: Pápi þinn hefur þá eitthvað til að ylja sér við eftir hlýjuna á Spáni.
Og Ragnar: Þegar Jökulsá eystri hittir systur sína hina vestari hjá Keldulandi verða til Héraðsvötn. Jökulvatnið er nú oft eins og kakó, svo kannski þyrfti ekki að blanda í álbollann.
Og Lilja: Ábæjarhlaðið er magnaður staður, ekki síst er rökkva tekur!
Og Sigga: Ég segi bara góða skemmtun.
Þótt látirðu aldrei áfengi á andansmalinn
fylla mun hann fjallasvalinn
farir þú um Austurdalinn.
Úr Austurdalsrímu eftir Sigurð Hansen.
Eyþór Árnason, 10.3.2008 kl. 00:54
náttúran er svo mikil tónlist. Ef maður leggur við hlustir og leyfir sér að njóta, flyst maður inn í töfraveröld það er notalegt. Og ekki er verra að hafa kakó á brúsa og gott teppi til að ylja sér :)
Flottur pistill. Mig langar bara í sveitina. Burt frá ysinu og þysinu hér í bænum
Ingunn Valgerður Henriksen (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 01:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.