Skírdagsblogg

Ligg eða sit réttara sagt uppi í rúmi með nýju tölvu fermingarbarnsins á lærunum og þreifa mig áfram á mjúku lyklaborðinu. Mér finnst ég vera óggislega töff eins og skáldið sagði sjóðheitur allur og búinn að fatta það að fartölvurnar munu ganga af hitapokunum, sem mæður okkar tóku með sér í rúmið, dauðum. Nú stingur maður bara lappanum í samband og skellir honum undir sængina og er í sambandi við alheiminn heitur undir sænginni. Annars hefur þetta verið ljúfur dagur. Var á skralli með gömlum vinum fram undir morgun, en Það hafði ekki teljandi áhrif á heilsu dagsins. Enda rak maður bara hausinn út um eldhúsgluggann þar sem norðanáttin tók sig til og minnti mann á hvar maður væri staddur í veröldinni. Þá var ég ekki búinn að fatta að fara með fartölvunni upp í rúm. Var svo einn heima um stund eftir kvöldfréttir, setti Leonard Cohen á, breiddi dúk yfir sjónvarpið. Var lagður af stað í langt ferðalag með Cohen þegar ég mundi eftir þætti hjá bloggvini mínum Guðna Má. Ég svissaði í græjunum á Cohen og Guðna þar sem hann var að tala við Einar Má um tónlist og skáldskap. Þetta var eins og í gamla daga; ég lá í sófanum og hlustaði á útvarpið. Takk fyrir drengir. Andaktin var svo mikil eftir þetta að ég dró fram Hannes P. og Þorstein frá Hamri og las upphátt fyrir þá sem nenntu að hlusta. Svo ákvað ég nú að athuga aðeins minn gang, fór í plötuskápinn og náði í Davíð Stefánsson og lét hann lesa fyrir mig Kvæðið um fuglana. Einnig náði ég í disk með Þorsteini frá Hamri og það varð heilagt í smástund. Það er að minnsta kosti ljóst að ég les ekki meira upphátt í kvöld. Og nú er allt að verða eðlilegt aftur og kvöldið búið að finna sinn rétta lit. Dúkurinn er horfinn af skjánum og hitapokinn á hnjánum er við það að kveikja í mér. Nú held ég að tölvubúðir í bænum ættu að taka sig til og auglýsa tilboð á hitapokum fyrir ömmur. Þær gætu svo grúskað í ættfræði og selt hlutabréf með nýju hitapokunum sínum. Ekki veit ég hvort Þorsteinn minn frá Hamri er búinn að fá sér svona hitapoka en hann varð sjötugur á laugardaginn. Í den bjuggum við í sama húsi og skáldið. Það var gott. Og það er flott hjá Hjalta Rögnvalds að ætla að lesa Þorstein allan á næstunni. En hér kemur fyrsta ljóðið í fyrstu ljóðabók Þorsteins frá Hamri:

Það var á bæ einum

Það var á bæ einum að gandur mikill úr hvítum skógum
tróð flugstíg úr suðri og norður til fjalla og fylgdi honum
þys álfa og galdur fugla, en eftir voru þrjú tár á laufi; rautt
hvítt svart. En úngur sveinn laut eftir og skeytti því hvergi
þótt hrópað væri á bak; því orð hafði borizt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Enn eitt fallega prósaljóðið eftir Eyþór... takk. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.3.2008 kl. 00:58

2 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Þú endurlífgar baðstofustemningu og "húslestra", gott og framtak.

Sigríður Gunnarsdóttir, 21.3.2008 kl. 12:21

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir innlitið.

Eyþór Árnason, 22.3.2008 kl. 00:14

4 Smámynd: Túrilla

Sé ekki betur en Eyþór segi þetta eftir Þorstein frá Hamri, Lára Hanna.
Er ég að rugla?

Túrilla, 30.3.2008 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband