Að bíða - föstudagurinn langi

Þessi föstudagur var ekki svo langur. Það var mikil leti hjá mér og mikið hlustað á útvarpið. Sat með Passíusálmana og hlustaði á Megas syngja og tala um þá. Að vísu var skautað yfir 11. sálminn, en hann er ótrúlega flottur hjá meisturunum og það lá við að ég móðgaðist því ég var akkúrat að bíða eftir: "Sút flaug í brjóstið inn." Að öðru leyti var gott að hlusta á þennan þátt og ég komst auðvitað að því að ég veit ekkert um Passíusálmana og kann ekkert í þeim. Sem sagt lagið sem ég var að bíða eftir kom ekki en það kom annað lag sem ég beið eftir í mörg kvöld yfir gömlu útvarpstæki norður í landi fyrir löngu. Það var stundum verið að fikta í tökkunum og leita að hljóðum og tónlist utan úr heimi þegar útvarp Reykjavík var að drepa mann úr leiðindum og maður hafði einhvern grun um að bak við þennan formlega heim væri annar heimur, einhver ævintýraheimur. Stundum þegar  skilyrði voru góð í loftinu fann maður radíó Luxemburg. Þar var eitthvað, eitthvað spennandi, en svo langt í burtu. Svo var það eitt kvöldið að ég heyrði lag sem bara greip mig strax og mörg næstu kvöld og ár var reynt að finna það aftur í fjarskanum og stundum heppnaðist það og þá gleymdi maður biðinni og hlustaði sæll þótt stundum væri sándið pínu slitrótt. Þetta var lagið Nights in White Satin með Moody Blues og þar sem ég er að bíða eftir spurningakeppni fjölmiðlanna á Rás tvö eftir hádegið í dag kemur þetta gamla lag alveg óbeðið og undirbúningslaust og ég bara stoppaði og hugurinn flaug til baka og svo hingað aftur og nú brá svo við að það var ekkert brak í útvarpinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Tómasson

Bestu kveðjur úr Mosó kæri Eyþór og takk fyrir ógleymanlega tíma með 66 og Bylgjunni.

Gleðilega páska!!!

Kalli Tomm.

Karl Tómasson, 22.3.2008 kl. 00:48

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég kannaðist við nafnið þitt, en tengdi ekki alveg. Þar til ég stækkaði myndina þína þá brosti ég. Það er svo skrítið Eyþór að þó við kynntumst ekkert þegar ég vann á stöðinni þá fannst mér ég alltaf þekkja þig... þótti pínu vænt um þig.

En nú heldurðu að ég sé biluð... sem ég auðvitað er.

Gleðilega páska til þín og þinna

Jóna Á. Gísladóttir, 22.3.2008 kl. 10:58

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sæll Eyþór, gaman að sjá þig á þessum vettvangi.

Ég sé á bloggvinum þínum að þú ert sami hugljúfinn!

Bið að heilsa heim.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 22.3.2008 kl. 15:28

4 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Gleðilega páska vinur og takk fyrir hlý orð ....

Guðni Már Henningsson, 22.3.2008 kl. 21:44

5 Smámynd: Eyþór Árnason

Jóna mín: Ég held þú sért ágæt! Og Heimir minn: Það var gott að hafa þig í nágrenninu. Gleðilega páska allir þarna úti...

Og svo set ég hér inn vísbendingu fyrir krakkana í páskaeggjaratleiknum:

KRAKKAR: Fyrsta vísbendingin er... undir steini! 

Eyþór Árnason, 23.3.2008 kl. 00:34

6 Smámynd: Túrilla

Ó, þvílík dásemd það er að fela eggin fyrir krökkunum! Ég hef hingað til reynt að kvelja þau ekki lengur en í kortér, en hleypti innra kvikindi mínu út í þetta sinn og gerði mjög erfiðar vísbendingar. Eggin fundust 45-50 mínútum eftir að leitin hófst. Kvikindið brosti út að eyrum - og gerir enn. Ótrúlegt en satt þá báðu dýrin um annan svona erfiðan leik að ári. Kvikindið hefur nægan tíma til undirbúnings og því betra fyrir alla að gæta þess hvers þeir óska sér - það gæti ræst!

Túrilla, 30.3.2008 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband