27.3.2008 | 22:25
Mont
"Sú var tíðin að refaskyttur komu næst prestinum að virðingu í hverju sveitarfélagi" sagði Snorri Jóhannesson í Fréttablaðinu í vikunni. Þetta var kærkomin hressing inn í sálina svona þegar páskarnir voru búnir og hversdagur framundan. Ég tókst allur á loft og hugurinn hljóp aftur upp á heiðar þar sem ég gekk til veiða sem refaskytta sveitarinnar. Ég var nefnilega búinn að gleyma því hvað þetta var mikil virðingarstaða að vera refaskytta. Og ábyrgðarstaða. Maður varð að standa sig og hafa kallana í sveitinni góða. Svona eins og ef presturinn hélt góða útfararræðu. Þá voru allir ánægðir. Svo var þetta ansi spennandi starf. Þú fékkst oft bara einn séns. Eitt skot skot varð að duga. Að vísu gat ljóminn farið af í vosbúð og kulda, en góður félagsskapur (því oftast vorum við tveir saman) og fallegar vornætur standa þó framar í huganum. Ég man hvað það var mikill ævintýraljómi yfir Gísla í Miðhúsum og Steina á Grund er þeir komu í kvöldkaffi og sögðu sögur og eldhúsið hló og svo hurfu þeir í kvöldsólina sem baðaði Sólheimafjallið og ég lítill strákur horfði á eftir þeim og langaði að verða kappi eins og þeir. Svo liðu árin og ég varð refaskytta og stóð næstur prestinum í stiganum. Eftir því sem Snorri segir. Og því má svo bæta við að leitin að páskaeggjunum tókst vel, enda hafði refaskyttan samið frábærar vísbendingar í ratleiknum.
Athugasemdir
Sama sagan með útfararræðuna, annað hvort hittir hún eða ekki. Presturinn fær bara einn sjens.
Ég þykist merkja að refaskyttur njóti enn nokkurar hylli. Kári bró á nokkra aðdáendur en flestir eru þeir fæddir fyrir stríð, annað eða bæði stríð.
Sigríður Gunnarsdóttir, 28.3.2008 kl. 00:49
Færslurnar þína eru oft eins og prósaljóð. Hvorki of né van.
Ég þekkti einu sinni refaskyttu sem gerði þau reginmistök á sínu fyrsta ári að drepa allar tófur á svæðinu í staðinn fyrir að setja nokkur kvikindi á.
Sæmundur Bjarnason, 28.3.2008 kl. 01:37
ég á eftir að prufa þetta....hef nú samt rekist á nokkrar Tófur um ævina....var einu sinni í skotfæri en gat það bara hreinlega ekki........hún var svo falleg og hvít....
Einar Bragi Bragason., 28.3.2008 kl. 11:17
Ég sé að það eru fleiri en ég sem vilja kenna skrifin þín við prósa...
Veit ekki hvernig þú ferð að þessu, en nú upplifði ég mig í smástund sem hálfgerða refaskyttu... takk.
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.3.2008 kl. 00:24
Ég er búin að hafa áhyggjur af strokuhestinum í allan vetur...
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.3.2008 kl. 00:25
Takk fyrir þetta skemmtilega blogg og fræðsluna um stöðu refaskyttunnar fyrr á dögum, kemur reyndar ekki á óvart að refaskyttur hafi haft svona flotta stöðu, jafn nauðsynlegar og þær eru.. Ég hef á tilfinningunni að þær séu ekki eins hátt metnar í dag enda fjölgar bæði refum og minnkum um allt á kostnað fiska og fugla í náttúrunni. Ég legg til að Refaskyttur dagsins í dag fái aukna virðingu þó ekki væri nema til að bjarga Lóunni..
Bestu kveðjur úr Kópavogi
Magnús Guðjónsson, 29.3.2008 kl. 18:33
Æi, hendi þessu bara hérna: Ég hef alltaf gleymt að minnast á skyrtumálin þín. Mér finnst köflótta skyrtan þín hluti af þér og einhvern veginn kann ég ekki við þig öðruvísi en í henni. Þú ert eins og annar maður í bol eða öðruvísi skyrtu. Þú ert svo helvíti myndarlegur í skyrtunni góðu. Mæli með því að þú kaupir þér aðra eins, helst fleiri en eina svo þú hafir fleiri upp á að hlaupa þegar götin taka völdin!
Túrilla, 30.3.2008 kl. 09:50
Yndisleg værð færðist yfir mig þegar ég las "Mont", fyndið, ég hef alltaf séð refaskyttur í hillingum, sem hetjur, ekki hasarhetjur, heldur rólegar, yfirvegaðar, hetjur, með vökult augnaráð. Og þegar ég var lítil, og var að sitja fyrir ánum í göngum, þá laumaðist ég oft, í var, sem refaskyttan í sveitinni minni hafði hlaðið til að nota, þegar hann lá á grenjum, og þá færðist yfir mig ró, á meðan ég beið, eftir fénu, lét ég mig dreyma. - Um hvernig það væri í alvörunni, að liggja svona, tímunum saman, úti í myrkri og kulda, og mega ekki hreyfa legg né lið, ekki einusinni geyspa, og ég hugsaði, hvort ég ætti kannski eftir, að fá að prófa það, þegar ég yrði eldri, og þá reyndi ég, að sjá mig fyrir mér, sem refaskyttu. En það gekk ekki upp, ég passaði enganveginn inn í þá mynd, enda væri ég þá "fín" kona. Ég sættist á, að mér hentaði betur, að fara bara í göngur fram eftir öllum aldri. En nú á ég bloggvin, sem var "refaskytta". Það hefði mér aldrei dottið í hug á þessum árum, ekki einu sinni í mínum villtustu draumum..
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 1.4.2008 kl. 23:57
Takk fyrir innlitið og skemmtilegar athugasemdir.
Sigga: Ég hugsa að þeir yngri öfundi Kára.
Sæmi: Stundum settu gömlu kallarnir læðuna á. Það var þegar hvolparnir voru dýrir.
Einar: Rétt ...þær eru fallegar.
Lára: Strokuhesturinn er trúlega dauður, en það er sprelllifandi tryppi á ferð í afréttinni sem slapp í göngunum og lætur ekki ná sér.
Maggi: Lóulausar heiðar eru hálf tómlegar.
Túrilla: Ég lofa, ég fæ mér aftur rauða skyrtu.
Lilja: Ég væri alveg til í að sitja með þér í tófubyrgi og segja sögur.
Eyþór Árnason, 3.4.2008 kl. 23:13
Mikið rosalega var gaman að sjá þig hér, elsku kallinn! Og ekkert smá gaman að lesa frásögur þínar úr sveitinni okkar, sérstaklega þegar maður þekkti vel allar persónur og leikendur.
Takk fyrir bloggvinskapsboðið, minn er heiðurinn. Hlakka til að verða fastagestur í bloggstofunni hjá þér.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 5.4.2008 kl. 23:28
Í alvöru Eyþór, það væri sko gaman, ég er til þegar þú ert til!
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 7.4.2008 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.