Vikan sem leið

Jæja, þá er smá bloggkraftur hlaupinn í mig og best að nýta tækifærið. Ég er viss um að bráðum verður hægt að kaupa svona pillur í kjörbúðum merktar ,,bloggkraftur" í hillunni með súputeningunum. Maður kemur svo með kraftinn heim og hrærir út í sjóðandi vatni og viti menn; bloggið rennur á skjáinn sem aldrei fyrr. Mér finnst annars eins og síðasta vika hafi verið fyrir ári, þetta líður allt svo hratt. Mér finnst samt eins og ég hafi orðið býsna þunglyndur einn morguninn í vikunni þegar fyrirsagnir allra blaða voru í heimsendastíl og greinilegt að allt var að fara til helvítis. En ég fékk mér lýsi og harkaði af mér daginn. Svo tók ég upp á því að hlusta á 28 ára gamla sænska plötu sem ég var alveg búinn að gleyma. Plötu með grúppu sem kallaði sig Nationalteatern og þótti flott í þann tíð er ég var í Svíþjóð (fann hana meira að segja á Yoytúbunni). Og það var eins og við manninn mælt að ég gleymdi öllum áhyggjum og hef verið í smá nostalgíukasti síðan. Maður er auðvitað ekki í lagi! Svo tókum við upp nýjan sjónvarpsþátt sem kallast Svalbarði og héldum áfram með Bubba. Nú eru bara tveir þættir eftir af Bandinu. Svo skrapp ég í Iðnó og hlustaði á Hjalta Rögnvalds lesa þrjár ljóðabækur Þorsteins frá Hamri. Það var ansi magnað. Hjalti las að vísu fimm bækur þennan dag, en ég missti af fyrstu og síðustu. Þetta var í raun mjög merkileg upplifun að sitja í salnum í Iðnó klukkan ellefu á mánudagskvöldið og Hjalti á sviðinu með allt ljóðasafnið í hendinni og las fyrir okkur Lángnætti á Kaldadal. Þarna var einn besti leikari landsins að lesa ljóð eftir eitt besta skáld landsins fyrir sjö sérvitringa: Einn sat við borð fremst í salnum og hafði bókina með sér. Skáld og fullorðinn leikari sátu aðeins aftar. Ég og bókmenntafræðingur sátum þar aðeins aftar og nær Tjörninni og aftast voru svo tveir aðdáendur. Og Hjalti er ekki hættur. Hann ætlar að lesa allan Þorstein. Svo pússaði ég upp grillið í gær og grillaði nokkrar lærissneiðar í útmánaðasólinni. Svo fórum við fiðlustepan í leikhúsið og sáum Hetjur. Stelpunni leist ekkert á þegar inn í salinn var komið og hvíslaði: ,,Það er bara gamalt fólk hérna." En þetta var fín sýning og við skemmtum okkur vel. Það tókst svo að draga mig í langan göngutúr í dag og konan bakaði þessa fínu gulrótarköku og gaf okkur í verðlaun. Ég hlustaði líka á Nationalteatern og Hanus kallinn í dag og búinn að horfa á Mannaveiðar. Já það er ekkert gefið eftir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

kvitt

Einar Bragi Bragason., 7.4.2008 kl. 11:39

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Hæ Eyþór. Má til með að senda þér þessa slóð ef þetta skyldi hafa farið framhjá þér. Að vísu ekki nýtt efni en pottþétt sígilt.  Kv. -Helga.

http://magnusthor.blog.is/blog/magnusthor/entry/455909/

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.4.2008 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband