27.5.2008 | 00:19
Að snerta heiminn
Hann var ekki ósvipaður sjálfum sér á myndinni utan á Desire-plötunni, meistarinn sem spilaði og söng í Höllinni í kvöld. Enda var þetta hann sjálfur. Snerti ekki gítarinn, stóð við hljómborðið, greip í munnhörpuna og söng af krafti. Minnti mig stundum á Megas kominn á ellefta passíusálm. Hljómsveitin var í flottum jökkum eins og Dúmbó og Steini og þegar þeir byrjuðu að spila fannst mér eins og hér væri Brimkló komin á góðum degi. Og gæsahúðin kom strax í öðru lagi. Að vísu kom hún ekki aftur en það er þannig með gæsahúð að hún verður ekki pöntuð, hún kemur bara og fer. Og það voru ekki málalengingar á milli laga. Ekki sagt orð. Bara byrjað á næsta lagi. Og það var undir hælinn lagt hvort maður þekkti lagið, kannaðist kannski við einn og einn hljóm eða slitur úr texta. En mikið fjandi var gaman. Og ég sá ekki betur en hljómsveitin skemmti sér vel. Og Dylan sjálfur ekki síður. Ég fékk á tilfinninguna þar sem hann spilaði nett á orgelið að hann væri að gefa okkur smá brot af þeim anda sem sveif yfir vötnum á kjallaraupptökunum (The Basement Tapes) sem gerðar voru fyrir fjörutíu árum. En nú fer ég inn í stofu og set lag á fóninn: One more cup of coffee... og set miðann í minningamöppuna.
Athugasemdir
Oh hvað ég vildi að ég hefði komist, en því var bara því miður ekki að heilsa, svo ég þurfti að láta miðana mína. - Öfunda þig, alveg vissi ég að hann yrði góður núna, ég var nefnilega fyrir smá vonbrigðum síðast. - en eftir langa umhugsun, ákvað ég auðvitað að fara. - En þá bara gerast hlutir, svo ég komst ekki. -
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 27.5.2008 kl. 21:57
Sammála. Mikið fjandi var gaman :-)
Kristján Kristjánsson, 27.5.2008 kl. 23:16
Þetta var magnað...
Guðni Már Henningsson, 28.5.2008 kl. 00:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.