28.7.2008 | 00:03
Sumarblogg
Ég fer í klippingu fjórum sinnum á ári. Vetur, sumar, vor og haust. Og stundum fyrir jólin ef ástandið er orðið mjög slæmt. Ætli þetta sé ekki að fara á sama veg með bloggið. Verði bara fjögur blogg á ári. Veit ekki. En auðvitað verður maður að bregðast við ef bloggvinir manns eru farnir að ókyrrast og vilja vita hvort maður sé með lífsmarki. En ég er í sumarfríi þessa dagana og ætla að vera lengi eða þangað til ég verð orðinn blankur, eða þannig. Nú síðasta blogg kvaddi með von um að Rússar yrðu Evrópumeistarar í fótbolta en það fór nú eins og það fór. En þar sem ég lá fyrr í dag sunnanundir vegg Hóladómkirkju og hlustaði á rússneska kalla syngja Ökuljóð og Stenka rasin svo fallega að hafgolan hægði á sér fann ég að nú var mál að byrja að blogga aftur. Svo ég dreif mig suður og settist við tölvuna og stillti á upptöku af tónleikunum í Bræðslunni í gærkveldi. Og það er villikonan Eivör sem syngur fyrir mig í augnablikinu. Annars er allt gott að frétta. Átti góða daga á heimaslóðum um helgina og svo ég taki þetta í réttri röð: Skaust í Mývatnssveit í júní og reyndi við urriða í Laxá með litlum árangri. Skrapp svo á Hellu og tók smá vinnutörn á landsmóti hestamanna. Brá mér þar á eftir til Köben ásamt fjölskyldunni og fór í Tívolí. Lá svo í leti í Vesturbænum og las sveitasögur eftir Jón Kalman og er ekki hættur að lesa því sem betur fer er eitthvað ólesið eftir Jón. En kannski reyni ég að brjótast út úr vananum á morgum og fara í klippingu. Svona afmælisbloggklippingu eða verslunarmannahelgarklippingu. Því nú þegar dimmir á kvöldin fer blóðið að ólga og gott að vera tilbúinn í slaginn.
Athugasemdir
Þú ert sko sætur með nýju klippinguna Eyþór minn!
Imba (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 19:40
Eyþór er alltaf sætur, Imba...
Gott að sjá lífsmark hjá þér aftur...
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.7.2008 kl. 21:18
Bestu kveðjur úr blíðunni fyrir norðan
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.7.2008 kl. 21:31
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.7.2008 kl. 21:32
Ég veit,, Lára Hanna - ég veit!
Eyþór er unaðslegur.
Alveg hreint.Imba (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 22:18
Gott að heyra aðeins frá þér, ertu fyrir norðan að leita að hestinum sem týndist í Horni í haust.
Takk fyrir dagana á Hellu, ég hef alltaf jafn gaman að þessu enda einvala lið sem maður vinnur með þarna
Rúnar Birgir Gíslason, 29.7.2008 kl. 23:30
Ég fer hjá mér stelpur... Og sömuleiðis takk fyrir síðast Rúnar minn, en ég hef ekki reynt að finna hestinn. Og nú hefðir þú átt að vera fyrir sunnan Ingólfur minn. Veðrið er auðvitað eingu líkt.
Eyþór Árnason, 31.7.2008 kl. 18:34
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 2.8.2008 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.