12.8.2008 | 22:41
Ágústkvöld
Enn er sumar og blíða þó aðeins andi kaldar á morgnana er maður kemur út. Það er kannski vegna þess að nú er maður byrjaður að vinna aftur og fer út á morgnana, en meðan maður var í fríi vaknaði maður seint og fékk sér morgunmat, las blöðin upp til agna og fékk sér svo kaffi. Leit svo út um gluggann og fékk sér meira kaffi. Þá var kannski komið að því að fara út og athuga málið. Annars er það helst af frétta að fjölskyldan fór á tónleikana með Clapton. Það skemmtu allir sér mjög vel, enda vorum við mætt snemma og reyndum að fíla hitann og blúsinn smaug inn í mann. Ég verð þó að segja fyrir mig að ég náði aldrei gæsahúðarstiginu, en eins og ég hef sagt áður er ekki hægt að panta gæsahúð, annaðhvort kemur hún eða ekki. En mér fannst hljómsveitin frábær og ekki henni að kenna að kallinn spilaði ekki fleiri lög sem maður vildi heyra, því manni finnst nú að þegar svona kallar nenna að koma hingað á annað borð þá eigi þeira bara að spila allt sem þeir kunna. Við erum mætt á tónleika og liggur ekkert á og viljum heyra öll "Undir bláhimni"-lögin. Og mér skilst að gömlu konurnar í Pétursborg hafi ekki verið sviknar er Siddi frændi söng "Kvöldklukkurnar" þar með Heimi fyrir nokkrum dögum. Svo í lokin af að mér komu ólympíuleikarnir í hug... og já Áframmm Ísland. Ég er orðlaus. Og setningarathöfnin. Ég verð aftur orðlaus. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja heldur að tilkynna að við Sólveig Vaka settum fjölskyldumet í að halda badmintonkúlu á lofti. Fyrra metið var að okkur minnir 66 en við settum stórglæsilegt met eitt góðviðriskvöldið í júlí hér úti á Sólvallagötunni. Og nýja metið er 122... og ég hugsa að við eigum meira inni. En var ekki badmintonkúlan (eða flugan) kölluð fokka fyrir norðan í gamla daga?
Athugasemdir
sæll og til lukku með metið, jú fokka var það kallað í minni sveit.
Svo á að segja Hnit ekki Badminton
Sverrir Þorleifsson, 13.8.2008 kl. 09:03
Duglega Vakan mín :)
Imba (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.