Hjartsláttur

Ég er stundum svolítið skrítinn. Síðasti bloggpistill var nöldur og það akkúrat á degi sem ég var í príma góðu skapi og lífið lék við mig. Nýbúinn að borða ber með rjóma og köku enda var afmæli í fjölskyldunni. Fórum nefnilega á Þingvöll um helgina og tíndum ber. Og það er ekki amalegt á síðkvöldum að fá sér skál af berjum með rjóma og miklum sykri. Enda þarf maður eitthvað staðgott ef maður á að lifa af spennu eins og boðið hefur verið uppá í handboltanum undanfarið. Ég hélt í alvöru þegar fimm mín. voru eftir af leiknum í morgun að ég væri á förum. Hjartað hamaðist eins og ég væri búinn að elta gráa tvævetlu inn alla Kotabotna og væri um það bil að merja mig fyrir hana. Svo kláraðist leikurinn og hjartað náði að jafna sig undir hádegið. Og svo er maður svo hjátrúarfullur að maður veit ekki hvernig maður á að vera til að styggja ekki vættirnar fyrir næsta leik. Og svo er hann Óli Stef. Viðtalið við hann í morgun var auðvitað einstakt og sýnir að þessi drengur er þyngdar sinnar virði í gulli. Eins og um daginn þegar hann talaði um hvað handboltaleikur væri margar sekúndur og hver sekúnda skipti öllu máli. Ég skil algjörlega hvað hann er að fara. Maður telur sekúndurnar í beinum útsendingum. Ég elska Óla. Og nú ætla ég að skreppa fram í eldhús og fá mér ber og rjóma. Og mikið af sykri. Horfa svo á heimsmet í 200 m hlaupi. Og meta stöðuna í handboltanum. Og fá smá hjartslátt - aftur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Hef tileinkað mér bermeðrjómaogsykri lífstíl undanfarin kvöld. Þar til eitt kvöldið að ég er glaðhlakkaleg búin að hreinsa fleytifulla skál af berjum og hella yfir rjóma og taka fyrstu skeiða. Þá sé ég að eitthvað er að einu berinu og hugsa með mér að þarna sé ónýtt ber, best að veiða það upp. Hvað heldur þú að gerist næst? Berið færist úr stað og tekur að æða fram og tilbaka um skálina (hefur eftir á að hyggja líklega verið við það að drukkna í rjóma). Þetta var ekki ber, heldur kolsvört lifra, svona eldspræk og fersk eftir að vera nokkra daga í ísskápnum í beraílátinu. Jafnmikið fát kom á mig eins og lirfuna og í geðshræingunni hljóp ég út með berin og rjómann og hellti öllu í ruslið. Jakk-ullabjakk.

Sigríður Gunnarsdóttir, 20.8.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband