27.8.2008 | 00:28
Ævintýri
Það gæti farið svo að þetta yrði langur pistill. Mér líður þannig. Það koma nefnilega þær stundir að maður missir tökin á tilverunni og algleymið tekur yfir. Og þessir tímar eru þannig. Því að fá að upplifa það að sjá silfur um háls drengjanna austur í Kína er svo mikið ævintýri að annaðhvort er að skrifa langan pistil eða þegja. Og ég get ekki þagað. Og hugurinn ber mig mörg ár aftur. Ég er í stofunni heima á Uppsölum ásamt fleirum. Við horfum á handboltastrákana spila um brons á Ólympíuleikum. Við töpum og lendum í fjórða sæti. Ég man vonbrigðin. Ég var eyðilagður. Mér fannst eins og tækifæri til að vinna til verðlauna í handbolta á Ólympíuleikum væri runnið mér úr greipum. Tækifæri runnið út í sandinn horfið í hafið og kæmi aldrei aftur. Þessi stund í gömlu stofunni heima hefur aldrei farið frá mér. Alltaf þegar Strákarnir hafa haldið á stórmót hefur þessi stund komið niður hrygginn. Því maður er í íþróttum til að vinna. Vinna til verðlauna. Fá gull. Standa efstur á pallinum. Halda um hjartað, horfa á fánann og gráta. Og nú þegar ég skrifa þetta þá hlýnar mér öllum og stoltið kemur til mín eins og foss. Því þegar við unnum Spánverjarna þá skeði það. Ævintýrið varð að veruleika. Ég mun aldrei gleyma þeim degi. Ég horfði á hann með vinnufélögum mínum og gekk af göflunum. Mér varð ekkert úr verki það sem eftir var dags. Bara gekk um eins og svefngengill og óskaði ókunnugu fólki til hamingju með daginn. Sofnaði svo örþreyttur um kvöldið eins og eftir þúsund bagga dag. Svo upphófst biðin. Biðin eftir leiknum. Leiknum um gullið. Mér leið einhvern veginn eins og utangátta. Vildi ekki gera neitt vitlaust til að spilla ekki fyrir Strákunum. Hugsaði fallegar hugsanir. Og nóttina fyrir leikinn lifði ég mig inn í verðlaunaafhendinguna og sá fánann uppi og heyrði þjóðsönginn. Ég var heltekinn. Svo kom leikurinn. Ég horfði, skrapp svo frá og vaskaði upp og horfði með bakinu. Lauk við uppvaskið og horfði til enda. Og horfði á vonbrigðin. Við vorum að keppa um gullið. Að standa á hæsta pallinum er alltaf draumurinn. En svo kom allt smátt og smátt til baka. Þeir stóðu á pallinum. Það komu bros, peningar um hálsinn og fáninn upp. Og ég fann hvernig tárin komu. Og það var svo gott. Þvi það er svo merkilegt hvað það hefur verið laus í manni gráturinn undanfarnar tvær vikur. Því Öskubuskuævintýrið var orðið að veruleika. Eða hvað. Kannski er Öskubuska ekki til því ef hún væri til þá væri gullið okkar. Kannski. En ef til vill bíður hún bara bak við næsta hól með gullið. Maður skyldi aldrei segja aldrei eins og ég um árið er bronsið fór frá okkur. Ég reis upp frá sjónvarpinu hengdi um hálsinn á mér medalíu frá því í skemmtiskokkinu deginum áður og lagði upp í smá fjölskyldureisu norður í land. Með medalíuna um hálsinn. Og nú sit ég hér kominn suður aftur og hlakka til að sjá Strákana á morgun. Maður hefur séð þetta gerast í útlöndum þegar borgir fara á hvolf er fótboltalið koma heim með bikara. Ég er ekki búinn að ákveða hvar ég stend á morgun er þeir renna hjá. Helst langar mig til að klappa þeim á bakið og segja eitthvað hressilegt eins og "Mikið andskoti var þetta flott hjá ykkur" eða eitthvað í þá áttina. En ég þekki mig. Það er ekki víst að ég myndi koma upp orði. Því hvað á maður segja við Stráka sem hafa tekið frá manni sextán ára gömul vonbrigði, lokað oní kassa og sett upp á háaloft. Já hvað á maður að segja við Stráka sem koma heim með silfur um hálsinn? Kannski bara: Til hamingju. Og takk.
Athugasemdir
Þetta er eitt lengsta en jafnframt fallegasta og einlægasta prósaljóð sem ég hef nokkurn tíma lesið.
Takk...
Lára Hanna Einarsdóttir, 27.8.2008 kl. 00:47
Stórkostlegur pistill Eyþór, hafðu þökk fyrir að vekja upp allar þessar góðu tilfinningar aftur sem hafa bærst í brjóstinu á mér undanfarnar vikur.
Takk fyrir mig ..
Magnús Guðjónsson, 27.8.2008 kl. 10:57
Takk ..... snillingur!
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 31.8.2008 kl. 00:56
Til hamingju. Og takk Eyþór.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 31.8.2008 kl. 10:09
Pabbi, þú ættir að hugleiða að hætta í vinnunni þinni og starfa við bloggsmíðar. Ég á enn eftir að sjá lélegt blogg koma frá þér og ég býst nú ekki við að það verði að veruleika einhvern daginn.
Kv. stoltur sonur
Drengur drengsins (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 00:00
Takk fyrir innlit elskurnar. Og góð hugmynd hjá drengum!
Eyþór Árnason, 8.9.2008 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.