Von

Það mætti halda að eftir síðustu færslu hefði ég horfið til Spánar með Guðna og setið þar að sumbli á Klörubar í góðu yfirlæti. Svo er nú ekki. Maður hefur reynt að baksa þetta svona hér uppi á þessu landi sem er svo kalt að gítarar afstilla sig stöðugt, enda uppaldir í heitu löndunum eins og Egill Ólafsson segir. En ég er búinn að horfa á tónleikadiskinn með Þursaflokknum. Og þvílík snilld. Ég er algjörlega heillaður. Þarna í Laugardalshöllinni á þorra hefur verið framinn galdur sem gott er að sækja í þegar hörmungarnar hellast yfir. Maður fyllist von. Og svo fórum við konan í Norræna húsið á fimmtudaginn og hlustuðum í baðstofustemningu á Valgeir og Egil spila og syngja nokkra gamla slagara. Þessum tónleikum verður útvarpað á nýársdag. Hvet ykkur til að hlusta (ef þið fílið þessa kalla). Og vonin var enn glaðvakandi er ég keyrði Sæbrautina í dag. Á aðra hönd voru að vísu tómar Wall Street-hallir, en handan við flóann voru Akrafjall og Skarðsheiði staðföst eins og alltaf. Og Esjan var ótrúlega lítið sjúkleg þar sem hún liggur eins og sofandi hundur. Það er svo gott að eiga fjall sem passar mann. Passar mann eins og tryggur hundur. Og svo renndi stórt skip drekkhlaðið af gámum inn sundin. Kannski ekki alveg drekkhlaðið en það voru margir gámar fullir af hafragrjónum, hveiti, kornflexi og sykri og svo fann ég á lyktinni að kaffi var með í för. Og vonandi smá viskílögg. Annars fór ég í tvö partí í gærkveldi. Og fór létt með. Svo var kvenpeningurinn að koma heim með kaldar tær frá því að kveikja á jólatrénu á Austurvelli. Mér skilst að Grýla hafi verið flott. En gúllasið mallar í pottinum og svo skreppur maður á eftir í Dómkirkjuna og fær aðventusprautu. Það er von... ,,Sæmundur Klemensson ei deyr."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Bestu kveðjur - ég missti af þessum Þursatónleikum, en það gleður mig samt að ég missti af góðum tónleikum en ekki vondum.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 11.12.2008 kl. 14:58

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir innlitið frændi. Ég missti líka af þessum tónleikum, en diskurinn bjargar því.

Eyþór Árnason, 11.12.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband