jæja ...

  Ég veit ekki hvernig ég á að vera, eða haga mér í dag. En takk fyrir öll símtölin, sms og feisbúkk-kveðjur og Lára Hanna skrifar svo fallega um mann að maður fer hjá sér hundrað sinnum. Mér líður svipað og langalangafa mínum sem lenti í því að það var ort um hann erfiljóð því hann var að hrökkva upp af en sá gamli hjarnaði við og upplifði það að lesa erfiljóð um sjálfan sig í bók! Ég er enn hoppandi glaður eftir gærdaginn og hér kemur þakkarræða kallsins.

 

Borgarstjóri, kæru gestir.

 

Ég sé það á öllu, að sumarið er á förum -

Ég sé það á fótataki og andlitum mannanna.

Það er eins og öllum sé kalt

og allir séu að flýja

eitthvað, sem er alltaf komið á undan þeim.

Og þeir hraða sér heim,

heim gegnum myrkrið,

og segja við sjálfa sig þegar inn kemur:

Það var þó gott að ég komst undan!

         

          Sum símtöl fær maður bara einu sinni á ævinni. Það var ekki langt símtalið sem ég fékk nú síðsumars en það var frábært. Á hinum endanum á línunni var spurt: Eyþór? - Já, sagði ég. - Þú sendir inn handrit í ljóðasamkeppni, ekki satt? - Jú ... - Þú vannst! Þannig var nú það og hvað gera bændur þá?

          Jú, maður fer allur úr skorðum inni í sér, hleypur á stólbökum og gengur af göflunum - nákvæmlega eins og Roberto Benigni gerði á Óskarnum hér um árið. Ég varð sem sagt kátur - alveg ofsaglaður eins og Benigni og líka alveg kolringlaður.

          Um kvöldið gekk ég út í gamla Hólavallakirkjugarðinn og skoðaði skáldasteina og hugsaði: Hvaða eftirmæli ætti ég nú að velja mér? Og hvað segir Tómas:

 

... Því hamingja þín mælist

við það, sem þér er tapað,

og þá er lífið fagurt

og eftirsóknarvert,

ef aldrei hafa fegurri

himinstjörnur hrapað

en himinstjörnur þær,

er þú sjálfur hefur gert.

 

          Svo klappaði ég fallega steininum hjá Indriða langafabróður og sagði: „Jæja frændi" og við montuðumst eitthvað um Skagafjörð um stund - fór svo heim, setti Savage Rose á fóninn, tók tappann úr vískíflösku og lét fögnuðinn streyma um mig.

          Og hér er ég nú - og hleyp kátur eftir stólbökum eins og Benigni. Hann fékk að kyssa Soffíu Loren og ég fékk að kyssa borgarstjórann.

          En ég skal reyna að ganga hægt um gleðinnar dyr. En kannski ekki í kvöld. Því maður á að vera glaður ef maður fær verðlaun. Glaður og dansa, dansa fram á nótt. Því á morgun kemur nýr dagur. Og hvað þá? Allt búið? Nei vonandi ekki því nú er haust og í upphafi las ég fyrsta erindið í ljóði Tómasar - Haust í borginni - og svona slær hann botninn í það:

 

En einmitt nú er náðartími skáldsins.

Því haustið kemur

með fangið fullt af yrkisefnum.

Og ýmist eru það bliknuð blóm,

sem minna á hverfulleik hamingjunnar,

eða húmið,

sem minnir á dauðann.

Og skáldið klökknar af innvortis ánægju

yfir öllum þessum hörmum,

sem svo gott er að yrkja um.

 

          Já það er greinilegt að haustið er föruneyti ljóðsins og Tómas hefur líka séð fram í tímann og verið með allt á brautum, því víxillinn í víxilkvæðinu hans segir:

 

Og núna verð ég framlengdur í fertugasta sinn

á fimmtudaginn kemur, þann 6. október.

 

Kannast einhver við daginn? Svona eru ljóð töfrandi - alltaf að koma manni á óvart og framlengja hjá manni lífið.

          En hvenær er maður skáld? Sennilega alltaf og aldrei. Þetta er eitthvað sem kroppurinn ræður einhvern veginn ekki við og sálin lætur glepjast og grípur eitthvað í vindinum - eins og glas af víni og ... ja, hver veit hvað gerist. Stundum lendir maður í gambrastampinum og kemst ekki upp en stundum tekst manni kannski að festa eitthvað á blað sem segir einhverjum eitthvað. Og ef maður er ofboðslega heppinn nær maður að snerta strengi sem bíða einhvers staðar úti í blámanum.

Bíða eftir því að lítið ljóð komi og segi:

Hæ, hér er ég og ég ætla að vera hjá þér í nótt ef þú vilt.

          Sumum finnst kannski asnalegt að gefa út ljóðabók kominn yfir miðjan aldur, en ég verð bara að sætta mig við það að ég er seinþroska og ég segi við ykkur sem eigið sálina í gömlum stílabókum undir koddanum: það er aldrei of seint að opna og hleypa fiðrinu út.

         

          Í raun ættu allir að hafa ljóðabók á náttborðinu sínu, því hvað er betra fyrir vinnuþreytta og atvinnulausa eða að minnsta kosti áhyggjufulla þjóð sem hefur ekkert að gera lengur á kvöldin nema svekkja sig á sokknum draumum; hvað er betra en að leggjast til svefns og sökkva tönnunum í góða ljóðabók og sofna til draumanna. En ef svefninn kemur ekki, þá má reyna að setja saman níðvísu um náungann eða lítið ástarljóð til konu sem kannski liggur andvaka í þorpi fyrir austan eða bara í húsi niðri á Ægisíðu.

          Svo takk, takk öll mín góðu skáld sem hafið ruggað mér í svefn og þá man ég að þegar ég var yngri tók ég brot úr ljóðum og límdi upp á hurðina og upp um alla veggi í herberginu mínu í sveitinni. Ég fann þessar tilvitnanir í kassa um daginn þegar ég var að gramsa í geymslunni; blöðin enn býsna heilleg en skriftin æði farin að dofna og mér varð um og ó, lokaði augunum og var kominn norður í gamla herbergið og þar var snilldin upp um alla veggi innan um byssurnar, Pink Floyd-plakatið, grátandi drenginn - og Mælifellshnjúkur í baksýn.

          Og það getur verið hressandi fyrir minningasálina að kafa í gömlu kassana sína. Þá kemur kannski upp miði á ball með Geirmundi í Miðgarði 1974, póstkort af Gullfossi eða gömul mynd af ungri stúlku í sólarlagi við jökulrætur. Stúlkan þekkist ekki á myndinni enda brotnar birtan þannig að hún hefur sól í höfuðstað. Hún veit ekki að ég tók þesssa mynd - því síður að ég var skotinn henni. - Þá.

          Og þannig er það með ljóð. Ljóð er stundum eins og stelpa sem veit ekki að maður er skotinn í henni. Ljóðmynd sem maður tók af því að maður var skotinn en þorði ekki að segja - þorði ekki að skjóta. En nú, nú er tíminn digital og allir skjóta strax - hægt að framkalla alla sína drauma um leið. Spenningurinn við að opna myndapakkann frá Pedró-myndum er liðinn. Tíminn hefur ekki tíma til að bíða eftir að stúlka með sól í höfðinu gangi á jökul. Og þó. Verum alveg róleg.

          Pabbi minn elskar Davíð Stefánsson. Vertu hjá mér Dísa. En ég - „ég elska alla og engan þó" eins og Shady syngur. Sonur minn elskar einhverja menn frá útlöndum sem segja ljótt í öðru hverju orði.

          En allt er nú þetta það sama í Súdan og Dalakofanum - daumurinn um að verða að manni, láta sér líða vel - elska og vera elskaður - og þegar ég komst að því að barkasöngvararnir frá Tuufaa voru bara menn með tvískiptar raddir að syngja um hesta og stelpur eins og við fyrir norðan þá varð ég hoppandi kátur, svo glaður yfir því hvað lífið er í raun fjandi gott.          Og líka svo skemmtilega hverfult. Dísa - hún er löngu skilin við skáldið og tekin saman við mann sem hefur vit á peningum og býr nú uppvið Elliðavatn og unga stúlkan frá Súdan - hún er löngu hætt að dansa og flutt til New York og syngur heimstónlist á tónlistarhátíðum. Og ég - ég er stundum sviðsstjóri í sjónvarpsþáttum og tel niður 5, 4, 3, 2, 1 ... eða - kannski, kannski er ég bara ennþá gömul refaskytta og hef tjóðrað hvolpinn og bíð ... Takk dómnefnd, takk - ég kyssi ykkur á eftir eins og Benigni kyssti Soffíu. Takk fyrir hjálpina Uppheimar. Mín kæra fjölskylda: Takk. - Og Tómas minn:

 

Ó, fagra veröld, vín og sól, ég þakka þér!

 

Takk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Til hamingju með vegtylluna kæri vinur. Þú ert sannarlega vel að henni kominn. Nú ertu kominn á rétta hillu. Bókahilluna. Haltu þig þar okkur til yndisauka.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 12:34

2 identicon

Þessi þakkarræða þín er bókmenntir á háu plani. Þú ert greinilega vel að verðlaunum kominn, hver sem þau eru og hvaðan sem þau koma.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 13:16

3 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Já, mikið fjandi kanntu vel að raða saman orðum!

Til hamingju með viðurkenninguna,

kveðja,

Hallmundur Kristinsson, 14.10.2009 kl. 13:40

4 identicon

Sæll Eyþór

Það sést á skrifum þínum að þú ert glaður. Það er gott að vera glaður, ég samgleðst þér þó ég þekki þig ekki persónulega. Er líka ljóðafíkill og ætla að lesa bókina þína.

Yrki líka stundum í laumi.

Njóttu  athyglinnar, þú virðist öfugt við margan eiga hana skilið.

Eygló (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 14:14

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir hvert orð hjá Guðbrandi Þ. Guðbrandssyni.

Árni Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 15:13

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hjartanlega til hamingju, gamli góði vinur. Mikið óskaplega gleðst ég með þér.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 15:35

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Til hamingju Eyþór. Og fjölskyldunni óska ég líka til hamingju.... með þig.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.10.2009 kl. 16:42

8 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Bestu hamingjuóskir til þín Eyþór

Magnús Guðjónsson, 14.10.2009 kl. 17:12

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Hjartanlega til hamingju frændi, mikið óskaplega var gaman að heyra þetta.

Pistillin hér fyrir ofan er snilld, ég hlakka til að lesa bókina þína.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.10.2009 kl. 21:25

10 identicon

Og frá burtflognum Nesbúum sendast heillakveðjur í Blönduhlíðina!

Þorvaldur Sigurðsson frá Hróarsdal (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 21:30

11 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Fann þig hjá Láru Hönnu og ætla ekki að týna þér. Til hamingju með bókina :)

Hrönn Sigurðardóttir, 15.10.2009 kl. 09:42

12 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Til hamingju með verðlaunin og viðurkenninguna. Þú átt hana fyllilega skilið þú orðsnalli maður, njóttu þess að fá þetta hól.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.10.2009 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband